Death-of-Ymir

Ýmissa tíma upprunasagnir

Dagbók úr námskeiðinu „ferðir og sögur“
Benný Sif Ísleifsdóttir

Kva´etta, kva´etta?“ Eða „hvað er þetta?“ er fyrsta spurningin sem flest börn bera fram; aftur og aftur og aftur, endalaust… Börn eru fróðleiksfús og þyrstir í þekkingu á umhverfi sínu og aðstæðum – og það er þeirra sem eldri eru að veita svör við þeim spurningum er leita á huga ungviðisins – hvort sem þeir hafa svörin á hreinu eður ei. Áhugi á umhverfinu, lífinu og tilverunni eldist þó, sem betur fer, af fæstum; það er sammannlegt að vilja skýra og skilja heiminn og allt sem í honum er. Í þeirri viðleitni að átta sig á aðstæðum sínum og umhverfi hafa í gegnum tíðina orðið til ýmsar skýringa- og/eða upprunasagnir. Í upplýsinga- og tæknivæddri tilveru sem við nú byggjum er hægt að skýra flest tilbrigði lífs og náttúru með vísindalegum hætti, en af einhverjum ástæðum þekkjum við ennþá ýmsar sagnir sem skýra tilveruna fyrir okkur með öðrum hætti en vísindalegum.

Ár var alda
Þar er Ymir byggði,
var-a sandur né sær
né svalar unnir,
jörð fannst æva
né upphiminn,
gap var Ginnunga,
en gras hvergi.Völuspá, 3.

Þannig hljómar þriðja erindi Völuspár og í því fjórða er vísað til Óðins og bræðra hans Burssona sem sköpuðu heiminn úr jötninum Ými:

Þeir [Bors synir] tóku Ými og fluttu í mitt Ginnungagap og gerðu af honum jörðina, af blóði hans sæinn og vötnin. Jörðin var gjörð af holdinu, en björgin af beinunum. Grjót og urðir gerðu þeir af tönnum og jöxlum og af þeim beinum er brotin voru. … Tóku þeir haus hans og gerðu þá af himin og settu hann upp yfir jörðina… Þá tóku þeir síur og gneista þá er lausir fóru og kastað hafði úr Múspellsheimi og settu á miðjan Ginnungarhimin.Edda, 18.

Þannig varð heimurinn til samkvæmt norrænni goðafræði og verður að teljast bæði þrekmannlegt og hugvitsamlegt hjá þeim Burssonum- svo vel nýttu þeir alla enda og skanka. Sé horft aftur til landnáms Íslands og fyrstu landnemanna, samkvæmt þeirri Íslandssögu sem þekktust er, þá sjáum við fyrir okkur ártalið 874 og galvaska, sterkbyggða víkinga með síðhærðar Hallgerðar upp á arminn; við gleymum pöpunum, rauðhærðu Írunum og snemmbúinni kristni því það flækir málin óþarflega mikið – og nennum ekki að velta vöngum yfir fornminjum sem „einhverjir fræðingar“ segja benda til þess að landnám hafi orðið miklu fyrr, jafnvel öldum fyrr. Puff! Endemis vitleysa! Alltof seint að tala um það núna. Góð saga á aldrei að gjalda sannleikans.

Við getum séð fyrir okkur stór-fjölskyldu margra ættliða við langeld í vel byggðum skála og þá minnumst við rústanna í Aðalstræti 16Sbr. Landnámssýninguna 871 +/- 2 og mátum fjölskylduna okkar þar inn – og hún kannski passar og þá viljum við finna þeim nöfn…og þau fyrstu sem koma upp í hugann eru Ingólfur og Hallveig – því þau voru þó í alvörunni til! Og einmitt þarna! – og þegar börnin spyrja um grjóthleðsluna í undirstöðum skálans nýtir Hallveig tækifærið og segir þeim af Ými og hvernig Óðinn, Vilji og Véi bjuggu til grjót úr tönnum hans – og meðan Hallveig veltir því fyrir sér hvort yngsti sonurinn sé of viðkvæmur fyrir svo gróteskar lýsingar bendir elsta dóttirin á, með óþolandi, afhjúpandi rökvissu, að Ýmir hljóti að hafa verið afar vel tenntur! Greindir unglingar skyldu ætíð hafa vit á að þegja.

Einhverjum öldum síðar situr fjölskylda saman í baðstofu gamals torfbæjar og ljóshærður lítill hnokki í sauðskinnsskóm biður ömmu sína, vinnulúna og knýtta, að segja sér sögu. Hann veit sem er að biðji hann nógu oft hættir hún að þylja Davíðssálmana og segir honum sögu – en Saltarann leggur hún ekki frá sér. Þessu fólki fylgja engar hugmyndir um nöfn. Gamla konan og drengurinn eru einungis dæmi um allt það fólk sem lifði og dó í íslenskum baðstofum öld fram af öld – einkanlega mun það þó hafa dáið – og það er raunar fátt til vitnis um að það hafi nokkru sinni lifað; engin stæði eftir langeld, ekkert silfur og engin frægðarverk unnin sem kölluðu eftir ritun fleiri Íslendingasagna. Þetta var tímabilið sem gæti kallast „afsakið hlé“ í sögu íslenskrar þjóðar. En sagan! Gleymum ekki sögunni sem amman sagði drengnum. Hún hófst á orðunum: „Einhverju sinni kom guð almáttugur til Adams og Evu“ og hann hafði oft heyrt hana og vissi vel að huldufólkið var komið af óhreinu börnunum hennar Evu. En þrátt fyrir að hafa margsinnis heyrt hana fór enn fiðringur um hann þegar amma hans sagði: „ Það sem á að vera hulið fyrir mér skal vera hulið fyrir mönnum“ og hann beið spenntur eftir að heyra hana segja töfraorðin: „Mennskir menn geta aldrei séð álfa nema þeir vilji það sjálfir…“Sbr. Huldumanna genesis, Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, I.bindi, 7. og hann vonaði að einhvern daginn fengi hann að sjá lítinn huldustrák á aldur við sig. Nógu gaman gæti það orðið. Hver vill ekki hitta huldustrák?

Upprunasagnir þola ekki vel nánari skoðun; eða allavega ekki frá sjónarhorni dagsins í dag, en á myndunartíma þeirra hafa þær varpað ljósi á eitthvert fyrirbæri, eða verið sagðar til skilningsauka; tilraun til að gera hið óþekkta þekktSbr. e. the relation of the ´unknown´to the ´known´. Í Paine. Columbus and Anthropology and the Unknown, 47. og/eða, ef ekki var hægt að lýsa eða skýra hið óþekkta með hinu þekkta, mátti vísa til skáldskapar, töfraSbr. e. „...comparisons in the accounts of romance and fantasy...“ Í Thompson. Travel Writing, 69., trúar eða hjátrúar. Sjálfsagt hafa svipaðar sagnir myndast hjá öllum samfélögum á öllum tímum; um myndun heimsins, gang himintungla, flóð og fjöru, hulduverur, landslag, staðhætti og staðarnöfn o.s. frv. En hvað vitum við í raun um fyrri tíma? Úreltist t.d. hugmyndafræði norrænnar goðafræði með upptöku kristninnar? Eða hversu lengi lifðu þær samhliða. Varla hafa trúskiptin farið fram á einni nóttu – með breyttum skilningi á heiminum öllum? Nei, því þá ættum við ekki allar þessar sagnir og sögur enn. Menjar um löngu liðna tíma lifa í öllum samfélögum og sú staðreynd sannar einmitt mikilvægi þeirra. Það sem ekki hefur merkingu og mikilvægi á einhverjum tíma varðveitist ekki – og þó að eldgömul arfsögn eða upprunasögn skýri ekki sjálft fyrirbærið sem hún fjallar um, bendir tilvist hennar í nútímanum til þess að hún skýri eitthvað í okkar eigin sögu eða menningu; eitthvað í okkur sjálfum.

Þannig að ef þið eruð einhvern tímann stödd á sunnanverðum Reykjanesskaga og heyrið góðlegan og greindarlegan föður útskýra miklahvell fyrir bleikklæddri stúlku þá getið þið verið viss um að hún hefði miklu meira gaman af að heyra söguna af Herdísi og Krýsu, skoða dysjar þeirra og reyna að finna eins og einn loðsilung í Herdísarvík. Sbr. þjóðsöguna um Krýs og Herdísi (Krýsuvík, Herdísarvík) Í Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, I. bindi, 459-461. Því það er best að lífið sé eins og ævintýri.

Heimildir

Edda Snorra Sturlusonar. Gylfaginning og frásagnarkaflar Skáldskaparmála. Reykjavík, 1999.

 

Völuspá. Í Eddukvæði. Gísli Sigurðsson sá um útgáfu. Reykjavík: Íslensku bókaklúbbarnir, 2001.

 

Jón Árnason. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. I. bindi. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfu. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1954.

 

Paine, Robert. Columbus and Anthropology and the Unknown. Í The Journal of the Royal Anthropological Institute, vol.1/nr 1, mars 1995, 47-65.

 

Thompson, Carl. Travel Writing. New York: Routledge, 2011.

 

Titilmynd: Eftir Lorenz Frølich (1820-1908) sem sýnir þá hvar þeir bræður Óðinn, Víli og Vé ráðast á Ými.

Senda athugasemd

Netfangið þitt mun ekki verða sýnilegt á síðunni.

*

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>