Tólfta ráðstefna SIEF

Arndís Hulda Auðunsdóttir

Tólfta ráðstefna SIEF (Internationa Society for Ethnology and Folklore) var haldin í sumar í Zagreb í Króatíu. Þema ráðstefnunnar að þessu sinni var „Utopias, Realities, Heritages. Ethnograpies for the 21st century.“

Króatía er land hárra fjalla, skógi vaxinna hæða og djúpra dala svo ekki sé minnst á öll göngin í gegnum fjöllin og hæðirnar. Það er land heysáta og hunangssölubása. Þar eru beljur í görðum og hænur á vappi og undirrituð rakst líka á karl með orf og ljá. Ekkert af þessu er þó vel sjáanlegt í Zagreb og samferðamenn mínir á SIEF ráðstefnunni vita eflaust ekkert hvað ég er að tala um.

Efniviður ráðstefnunnar var fjölbreyttur eins og gengur og gerist á ráðstefnum sem þessum. Fyrirlestrar sem undirrituð fór á fjölluðu um allt frá því hvernig þjóðsögur eru notaðar til að kenna japönsku og hvernig manga sögur eru notaðar sem aðdráttarafl í ferðaþjónustu yfir í lýsingu á því hvernig portúgalskir og enskir „trans sex workers“ nota mismunandi tækni til að auglýsa þjónustu sína á þar til gerðum vefsíðum. Alla daga voru svokallaðir „keynotes“ fyrirlestrar þar sem vel þekktir fræðimenn ysu úr viskubrunni sínum. Má þar nefna Orvar Löfgren sem talaði um ferðatöskur og hversu mikið er hægt að lesa úr þeim um sögu einstaklinga og atburða, bæði smáa sem heimssögulega.

Einn af kostum þess að sækja ráðstefnur sem þessa er hversu oft verða á vegi rannsakanda aðrir sem eru að rannsaka svipað efni. Oftar en ekki gefur þetta báðum aðilum byr undir báða vængi og nýjar hugmyndir um eigin rannsókn. Það getur orðið til þess að samstarf skapast á milli fólks sem áður þekktist ekki og jafnvel að fólk sé beðið um að mæta á aðrar ráðstefnur til að segja frá verkefnunum sínum. Þar að auki eru þekktustu og virtustu þjóðfræðingar þar á vappi í seilingarfjarlægð og gefast reglulega tækifæri til að ræða við þá um hitt og þetta sem hinum yngri og óreyndari liggur á hjarta.

Mjög margir Íslendingar sóttu ráðstefnuna í ár. Auk undirritaðrar voru Valdimar Hafstein, sem gegnir nú stöðu forseta SIEF, Særún Lísa Birgisdóttir, Katrín Anna Lund, Ólafur Rastrick, Örn Jónsson, Kristinn Schram, Katla Kjartansdóttir, Kristín L´orange , Áki Guðni Karlsson, Jón Þór Pétursson að ógleymdum Rominu Werth og Richard Allen sem við teljum nú með Íslendingunum. Auk þess var Áslaug Heiður Cassata með í för sem dyggur stuðningsaðili okkar hinna sem tjáðum okkur og makar sem lögðu leið sína til Zagreb studdu vel við barmenninguna þar í landi.

Fyrir áhugasama má lesa dagskrána hér.

Næsta ráðstefna SIEF verður í Göttingen eftir tvö ár og vona ég að sem flestir fari þangað.