Þjóðlagahátíðin á Siglufirði

Um þjóðlagahátíðina 3. - 7. júlí 2013
Berglind Gestsdóttir

Í fyrra sumar upplifði ég Þjóðlagahátíðina í fyrsta skipti. Nokkrum dögum áður en hátíðin hófst tók ég eftir því að innfæddir fóru að undirbúa komu fjölda fólks í bæinn og ákveðin stemming myndaðist. Þegar nær dró fór fólk að tínast á tjaldsvæðin og eins og hendi væri veifað voru þau öll orðin full! Þá heyrðist reglulega á götum bæjarins: „Ert þú til í að leigja íbúðina þína út yfir þjóðlagahátíðina?“ Bærinn varð smekkfullur af fólki á öllum aldri. Öll kvöld sá maður fólk rölta í kvöldsólinni á milli tónleikastaða; frá Siglufjarðarkirkju yfir í Bátahúsið, frá Bátahúsinu yfir á veitingahús, eða að fólk rölti bara um bæinn í blíðunni. Einstakur andi svífur yfir Siglufirði á meðan Þjóðlagahátíðin stendur yfir. Fólk er komið til að hlusta á tónlist – eitthvað nýtt og spennandi.. Þeir sem koma einu sinni koma yfirleitt aftur er mér sagt og því er þetta orðinn árlegur viðburður hjá sumum.

Yfirskrift hátíðarinnar í ár er Eitt sumar á landinu bláa og áhersla lögð á leikhústengda þjóðlagatónlist. Sem dæmi verða flutt lög úr leikriti Jónasar Árnasonar Þið munið hann Jörund? af hljómsveitinni Fjögur á palli með Eddu Þórarinsdóttur í fararbroddi, en hún söng með hljómsveitinni Þrjú á palli þegar leikritið var sett á svið árið 1970. Tónlistin í verkinu er að mestu írsk þjóðlagatónlist, auk skoskrar og enskrar. Þá verður flutt tónlist úr Fiðlaranum á þakinu sem allir ættu að kannast við, en þar gætir áhrifa klezmertónlistar gyðinga.

Auk þess að kynna fyrir Íslendingum erlenda þjóðlagatónlist er íslensk þjóðlagatónlist ætíð sett í öndvegi. Þannig munu verða flutt ýmis atriði þar sem íslensku þjóðlögin fá að njóta sín, sem og önnur verk sem innblásin eru af íslenska þjóðlagaarfinum. Tvísöngurinn og kveðskapurinn fær þar að auki sitt pláss, en ný kynslóð af ungu tónlistarfólki er farið að kynna sér þessa arfleið og nýta sér í sinni sköpun. Þá verður flutt tónlist fjögurra íslenskra kvenna sem settu svip sinn á tónlistarsköpun um aldamótin 1900. Sagt verður frá lífi þessara íslensku kventónskálda og verk þeirra kynnt eins og áður sagði.

Auk fjölbreyttra tónlistaratriða eru einnig ýmis námskeið í boði fyrir börn og fullorðna. Má þar nefna námskeið í tvísöng, salsadansi og í grískri tónlist. Þá verður Þjóðlagaakademían á sínum stað þar sem kennt verður námskeið á háskólastigi um íslenska og erlenda þjóðlagatónlist. Það er því allskonar í boði fyrir alla á Þjóðlagahátíðinni í ár líkt og fyrri ár, en áhersla hátíðarinnar hefur verið á samveru fjölskyldunnar þar sem allir finna eitthvað við sitt hæfi.

Þjóðlagasetur sr.Bjarna Þorsteinssonar, verndara íslenskra þjóðlaga, verður miðstöð hátíðarinnar og þar verður hægt að nálgast allar upplýsingar um hátíðina. Í Þjóðlagasetrinu er einnig hægt að setjast niður með kaffibolla og hlusta á íslenska þjóðlagatónlist, kynna sér sr. Bjarna Þorsteinsson eða fylgjast með íslenskum tónlistarmönnum spila á löngu gleymd hljóðfæri. Frekari upplýsingar um Þjóðlagahátíðina er hinsvegar hægt að fá á www.folkmusik.is þar sem nálgast má dagskrána sjálfa og öll námskeið sem í boði eru.

Berglind Gestsdóttir.