polar-bear

Raunverulegar þjóðsagnaverur

Um haferni og hvítabirni í íslenskum sögnum
Trausti Dagsson
Meistaranemi í hagnýtri þjóðfræði.

Yfirnáttúrulegar verur virðast hafa leynst víðsvegar fyrr á öldum og gera sjálfsagt enn. Að minnsta kosti má finna þær í þjóðsögunum okkar. Þar stíga þær gjarnan út fyrir sitt hefðbundna umhverfi og ryðjast inn í nærumhverfi mannsins þar sem þær valda einhvers konar röskun sem að lokum hefur fest sig í sögn. Sögn sem ferðast víðsvegar í munnlegri geymd um undarlegan atburð og furðulega veru. Ýmsar skýringar hafa komið á yfirnáttúrulegum verum enda eru sagnir gjarnan taldar endurspegla trú, viðhorf og heimsmynd þess samfélags sem þær eru sprottnar úr. Fjörulalli hefur til dæmis stundum verið útskýrður þannig að um sé að ræða rostung, skepnu sem sjónarvottar vissu kannski ekki deili á og því spunnust sögur um þá. Sagnir um fjörulalla virðast til dæmis vera algengastar norðanlands og á Vestjörðum enda virðast rostungar oftast hafa heimsótt þann hluta landsins.

Tvenns konar verur sem af og til koma fyrir í þjóðsögum vöktu þó athygli mína sérstaklega því þrátt fyrir að þær séu yfirnáttúrulegar þá eru þær samt sem áður raunverulegar. Þessar verur eru hvítabirnir og hafernir.

Hafernir

Í þjóðsagnasöfnum má finna nokkrar sagnir um haferni en þó eru þær sennilega undarlega fáar því vitað er að þeir ráðist á búfé og haft þannig áhrif á samfélagið. Einnig voru þeir algengir um allt land fram á 19. öld öfugt við útbreiðslusvæði þeirra í dag sem eru helst Vestfirðir og nágrenni Breiðafjarðar.Kristinn H. Skarphéðinsson, Vöktun arnarstofnsins : Fuglar : Dýrafræði : Náttúrufræðistofnun Íslands. Í Íslandslýsingu Odds Einarssonar frá síðari hluta 16. aldar segir að örninn sé konungur fuglanna, ógnarstór og grimmur ránfugl. Á vorin segir Oddur að örninn beri í hreiður sitt lömb, kiðlinga og jafnvel börn. Þá segir hann að bændum sé illa við hann af þeim sökum og eyðileggi stundum hreiðrin eða drepi ungana hans til að koma í veg fyrir tjón.Oddur Einarsson, Íslandslýsing, 102-103.

Í kaflanum um dýrasögur í fyrsta bindi þjóðsagnasafns Jóns Árnasonar hefur Jón tekið saman yfirlit um almenna hjátrú og sagnir um hin ýmsu dýr. Þarna fá ernir virðingarverða og á tíðum ævintýralega umfjöllun og eru kallaðir „fuglakóngar“.Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, I, 611. Þeir eru ásamt álftum stærstu fuglar á Íslandi og hafa því varla sést stærri fuglar hér á landi enda er haförninn stærsti ránfugl í Evrópu.Lars, Birds of Europe: with North Africa and the Middle East, 114. Þá má nefna það að í Gylfaginningu er sagt frá erninum sem situr á greinum Asks Yggdrasils og er hann „margs vitandi“ og styður það þá ályktun að ernir hafi lengi notið ákveðinnar virðingar.Snorri Sturluson. Snorra-Edda: Gylfaginning, 30.

Samkvæmt Jóni geta ernir þó lent í vandræðum. Þeir eiga það til að krækja í stóran lax með annarri löppinni og með hinni í árbakkanum. Ef laxinn er of stór fyrir þá sitja þeir fastir því þeir geta hvorki sleppt takinu af bakkanum né laxinum. Þarna þurfa þeir á hjálp mannsins að halda til að losa sig og þykir mikil gæfa fylgja því að hjálpa erni. Einnig getur goggurinn á þeim vaxið þannig að krókurinn beygist niður fyrir neðri skoltinn svo þeir geti ekki lengur opnað munninni. Ef menn geta hjálpað með því að klippa á krókinn er það einnig mikið „auðnumerki“.Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, I, 611. Sögnin um vandræði arna við laxveiðar finnst einnig í Íslandslýsingu Odds Einarssonar án þess að þar sé tekið fram að menn eigi það til að hjálpa þeim.Oddur Einarsson, Íslandslýsing, 103.

Í sögnum Jóns Árnasonar um erni eru þeir goðsagnakenndir fuglar en ekki ber mikið á grimmd þeirra. Ein sagnanna fær á sig sérstaklega ævintýralegan blæ. Þá er gull sett í arnarhreiður og kemur þá lausnarsteinn úr öðru eggi arnarins en flugdreki úr hinu. Flugdrekinn rænir svo veturgömlu tryppi.Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, I, 612. Þessi sögn er úr Borgarfirði og er hún sú eina í safni Jóns um erni þar sem staðsetningar er getið auk þess að maður er nafngreindur. Einnig er sagt frá því að hægt sé að yfirfæra kraft arnarins á menn. Til dæmis má leggja fjöður af væng hans undir dýnu hjá þeim sem maður vill „glepja sjónir fyrir“.Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, II, 613. Mannfræðingurinn Kirsten Hastrup hefur skrifað um Íslenskt samfélag á árunum 1400-1800 og sérstaklega viðhorf til náttúrunnar. Hún segir að fjöðurgjörningurinn þjóni þeim tilgangi að víðsýni arnarins færist yfir á þann sem fremur galdurinn.Hastrup. Nature and policy in Iceland 1400-1800, 252.

Í safni Sigfúsar Sigfússonar eru nokkrar sagnir um erni sem sýna talsvert annað viðhorf en safn Jóns. Í inngangi að kafla sem helgaður er örnum segir hann: „hann [örninn] er ærið rángjarn og áræðinn svo sagnir segja að hann hafi eigi sjaldan í forntíð rænt börnum.“Sigfús Sigfússon, Íslenskar þjóðsögur og sagnir, IV, 239. Á eftir þessari lýsingu kemur svo útskýringarsögn um það hvernig örnefnið Tregagil hefur komið til. Þar segir frá ekkju sem lendir í því að örn rænir ungabarni hennar og flýgur með upp í hreiður sitt. Móðirin nær að elta fuglinn og þarf að horfa upp á það þegar arnarungarnir rífa barnið í sig.Sigfús Sigfússon, Íslenskar þjóðsögur og sagnir, IV, 239. Margar sagnir Sigfúsar segja frá veiðiskap arna og í langflestum þeirra eru menn nafngreindir og staðsetning tilgreind. Þær gerast víðsvegar um landið, á Austfjörðum, í Borgarfirði og í Suðursveit.Sigfús Sigfússon, Íslenskar þjóðsögur og sagnir, 240, 241 og 243.

Hafernir voru algengir um allt land fram á miðja 19. öld en þegar þeir voru friðaðir árið 1913 var óttast að þeim yrði útrýmt algjörlega. Greinilega hefur haförninn ógnað mönnum því hann var veiddur á skipulegan hátt. Síðasti arnarunginn í Vestureyjum á Breiðafirði var til dæmis drepinn árið 1848 og greiddi Framfarafélagið í Flatey 16 skildinga fyrir það þjóðþrifaverk.Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Fréttir af haförnum, 16-17.

Í ljósi þess að sagnir Jóns Árnasonar eru eldri en sagnir Sigfúsar Sigfússonar má greina viðhorfsbreytingu samhliða því að ráðist var í að útrýma honum. Eitthvað af styttri sögusögnum um erni tekur Jón úr Hamraendabók (JS 392 8vo) sem tímasett er frá 1747 til 1752, þ.e. í byrjun upplýsingarinnar á Íslandi.Handrit.is: Samtíningur: Handrit og Stefán Einarsson, Íslensk Bókmenntasaga 874-1960, 262-263. Sagnir Sigfúsar virðast hins vegar flestar standa nær þeim náttúruvísindum sem hófust á fyrri hluta 19. aldar, á svipuðum tíma og Jón sjálfur hóf söfnun sína. Með vaxandi náttúruvitund og nýrri þekkingu fór fólk að líta náttúruna öðrum og raunsærri augum.Stefán Einarsson, Íslensk Bókmenntasaga 874-1960, 292.

Hvítabirnir

Hvítabirnir hafa komið reglulega til Íslands frá því að landið byggðist og löngu fyrir þann tíma samkvæmt fornleifarannsóknum. Árið 1993 var vitað um rúmlega 500 hvítabjarnakomur í heimildum og má ætla að þær séu mun fleiri, til dæmis hafi nokkrir birnir komið hingað á síðustu árum auk allra þeirra sem aldrei rötuðu í annála.Ævar Petersen og Þórir Haraldsson, Komur hvítabjarna til Íslands fyrr og síðar, 74 og 76.

Hvítabirnir koma syndandi af hafinu eða á rekís og búa lengst úti í norðrinu. Í sögnunum eru þeir skyldir manninum því þeir standa stundum á afturfótunum og eru því nokkurn vegin á mörkum manna, dýra og yfirnáttúrulegra vætta. Í þjóðsögnum um hvítabirni er dregin fram mynd af þeim sem mikilfenglegum dýrum, hættulegum en einnig göfugum og stundum sanngjörnum. Til er svokallaður „bjarndýrakóngur“, konungur bjarndýranna með horn upp úr miðju höfðinu. Bjarndýrakóngurinn kom eitt sinn til Grímseyjar ásamt fleiri bjarndýrum, gekk að prestinum þar og hneigði sig fyrir honum. Svo gekk hann leiðar sinnar en þá tók einn björninn í hópnum upp á því að drepa eina af kindum Grímseyinga. Kóngurinn refsaði birninum fyrir það með því að slá hann til dauða.Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, IV, 3. Í sögninni um Grímseyinginn og bjarndýrið er maður gangandi einsamall á ís á milli Gríseyjar og Íslands. Hann villist og á ekki von á að komast lífs af þegar hann hittir birnu sem býður honum að leggjast hjá húnum sínum. Hún leggst svo sjálf ofan á þá og býður manninum að sjúga spena sína. Maðurinn launar birnunni þegar hann kemst aftur til Grímseyjar með því að gefa henni nýja mjólk og tvo vænstu sauðina sína.Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, I, 606. Þá er sagt að ef hvítabjörn er drepinn verði að gæta sanngirni og ekki særa hann eftir að honum hefur verið veitt banasárið.Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, I, 608.

Ein sögn er kennd við Ánastaði í Hjaltastaðaþinghá og segir frá bónda sem á heimleið kemur að birni með konubrjóst í kjaftinum en brjóstið er af konu bóndans. Bóndinn hleypur heim til sín, sækir vopn og hleypur aftur til bjarnarins. Bóndinn kallar á björninn og skipar honum að vera kyrr. Björninn hlýðir bálreiðum bóndanum, leggst niður og bíður eftir því að bóndi drepi hann.Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, IV, 3. Þarna hafði hann ráðist gróflega inn á heimili og einkalíf bóndans og var þar að auki með brjóst konu hans í kjaftinum sem ekki er annað hægt að líta á en tákn um einn helgasta stað konunnar sem bæði móður og kynveru. Eftir þennan verknað tekur björninn refsingu sinni af auðmýkt.

Margar sagnir um birni gefa raunsæja mynd af þeim sem blóðþyrstum rándýrum sem drepa fólk og ráðast inn á bæi. Nánast allar sagnirnar eru ættaðar frá Norðurlandi enda hafa bjarndýrakomur verið lang algengastar þar og á Austfjörðum.Ævar Petersen og Þórir Haraldsson, Komur hvítabjarna til Íslands fyrr og síðar, 75. Í mörgum sögnum sem segja frá árás bjarnar á bæi er bygging þeirra gjarna á þá leið að björn, einn eða fleiri, ræðst inn í bæ eða umhverfi mannsins, drepur einhvern og sýnir mikla grimmd en er loks drepinn. Við bæinn Þeystareyki á Reykjaheiði í Suður-Þingeyjarsýslu hefur lengi loðað sú sögn að hann hafi farið í eyði er hvítabirnir réðust inn á bæinn og drápu heimilisfólkið. Um þetta eru að minnsta kosti þrjár frásagnir til í heimildum en að sjálfsögðu er erfitt að meta sannleiksgildi þeirra.Jóhanns Friðlaugsson, Hvítabjarnaveiðar í Þingeyjarsýslum 262-263.

Í sögnum um árásir hvítabjarna er frásögnin gjarnan raunsæ þangað til kemur að drápinu á þeim en þar koma ævintýralegri minni fram. Í einni sögninni er það barn sem drepur hvítabjörninn og í annarri er hann drepinn með skærum.Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, IV, 6 og Ólafur Davíðsson, Íslenzkar þjóðsögur, II 292. Fyrir utan sögnina um Bjarndýrið sem glímir við tunnuna, þar sem hæðst er að birninum, gefa sagnirnar þá mynd af hvítabjörnum að þeir séu hættuleg dýr, fulltrúar þess villta og óþekkta en jafnframt göfugir og sanngjarnir með marga mannlega eiginleika.Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, I, 607. Þó hafa þeir að mörgu leyti yfirburði gagnvart manninum, þeir eru mun sterkari, hlaupa mun hraðar, komast jafnt yfir á sjó og á landi og einnig á þeim ekki að geta orðið kalt.Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, I, 605

Árás hins yfirnáttúrulega inn í nærumhverfi mannsins

Samkvæmt áðurnefndri Kirsten Hastrup var heimili bændasamfélagsins minnsta eining samfélagsins þar sem fólk fæddist, lifði, neytti matar og framleiddi.Hastrup, Nature and policy in iceland 1400-1800, 280. Í stuttu máli skiptir Hastrup heimsmynd þessa samfélags í „innangarðs“ og „utangarðs“ þar sem það sem er innangarðs táknar samélagið, bæinn eða sveitina en það sem er utangarðs er allt hitt.Hastrup, Nature and policy in iceland 1400-1800, 278-280. Túlkun á þessum hugtökum getur verið víðtæk. Í tengslum við sagnirnar getur innangarðs táknað bæinn, túnið í kring og nærliggjandi hóla en utangarðs klettana í fjöllunum, þröng gil, þoku eða endalausan hafflötinn í norðri. Utangarðs búa ýmsar vættir sem til eru sögur um en kannski fáir trúa á en einnig aðrar vættir sem fólk heldur fram að séu raunverulegar ‒ sem fólk hefur jafnvel séð ‒ til dæmis rándýr sem stundum koma fljúgandi úr klettunum eða af hafi, syndandi eða á rekís sem ættaður er einhversstaðar langt frá mannabyggðum.Árni Björnsson, Hvað merkir þjóðtrú?, 89.

Hugmyndin um bjarndýrakónginn gefur vísbendingar um þeirra eigið ríki handan við hafið. Kóngurinn stendur mönnunum nær heldur en hinir óbreyttu birnir sem eru villtir og hættulegir. Kóngurinn ber virðingu fyrir prestinum í Grímsey og líður ekki óþarfa kindadráp í embættisferðum. Um leið stendur hann þó í raun og veru fjær hinum raunverulega heimi auk þess sem hornið á honum er ansi ævintýralegt. Af þessu má álykta sem svo að þessi dýr ‒ sérstaklega hvítabirnirnir ‒ hafi í hugmyndaheimi samfélagsins staðið utan við hina þekktu náttúru. Af þeim stafaði ógn og ýmislegt við þau var óþekkt og sveipað dulúð. Þeir geta brugðið sér í líki manns einfaldlega með því að rísa upp á afturfæturna. Vel má hugsa sér að birnir hafi i gegnum tíðina verið uppspretta sagna um sjóskrímsli, þar sem sést hefur til þeirra ganga þunglamalega um í tunglsljósi eða þoku og hverfa svo aftur ofan í hafið. Hvítabirnir eru íbúar óþekkts heims sem þó stendur mjög nærri Íslendingum. Þeir koma af hafi, syndandi eða á rekís, koma úr norðrinu þar sem er enn kaldara en hér.

Ernir svífa fimlega yfir veröldinni með yfirsýn yfir heilu sveitirnar og firðina. Þeir lifa á jaðrinum í umhverfi mannsins, uppi í klettum, inni í giljum eða úti á eyjum, þeir lifa oft í óaðgengilegri hlutum náttúrunnar. Yfirmannleg gáfa þeirra felst í fluginu, að geta svifið fjallstoppa á milli og séð svo langt sem augað nær. Þeir hafa því hæfileika til að ryðjast fyrirvaralaust inn í heim okkar og hverfa út í náttúruna jafnskjótt og þeir birtast.
Eins og birnirnir eru þeir villidýr sem eiga það til að ráðast inn í heim mannsins og hverfa svo aftur eftir að hafa sett mark sitt eftirminnilega á heimilið eða fjölskylduna. Þetta voru dýr sem drápu, skildu eftir sig eyðileggingu og rændu mat en fólk vissi samt ekki alveg hvort þau voru raunveruleg eða ekki.

Heimildir

Árni Björnsson. Hvað merkir þjóðtrú? Skírnir, 170, 1996, 79-104.

 

Handrit.is: Samtíningur: Handrit. Sótt 15. október 2011 á http://handrit.is/is/manuscript/view/JS08-0392

 

Hastrup, Kirsten. Nature and policy in Iceland 1400-1800 : An Anthropological Analysis of History and Mentality. Oxford: Clarendon Press, 1990.

 

Jóhannes Friðlaugsson. Hvítabjarnaveiðar í Þingeyjarsýslum. Eimreiðin, 41, 1935, 388-403.

 

Jonsson, Lars. Birds of Europe: with North Africa and the Middle East. London: Christopher Helm, 1999.

 

Jón Árnason. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. 1-4 bindi. (Ný útgáfa). Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfu. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1960.

 

Kristinn H. Skarphéðinsson. Vöktun arnarstofnsins : Fuglar : Dýrafræði : Náttúrufræðistofnun Íslands. Sótt 14. október 2011 á http://www.ni.is/dyralif/fuglar/Voktunarnarstofnsins/

 

Kristinn Haukur Skarphéðinsson. Fréttir af haförnum. Fuglar: ársrit fuglaverndar. 2, 2005, 16-17.

 

Oddur Einarsson: Íslandslýsing: Qualiscunque descriptio Islandiae. Sveinn Pálsson þýddi. Reykjavík: Menningarsjóður, 1971.

 

Ólafur Davíðsson. Íslenzkar þjóðsögur. 2. bindi. Bjarni Vilhjálmsson annaðist útgáfu. Reykjavík: Þjóðsaga, 1987.

 

Sigfús Sigfússon. Íslenskar þjóðsögur og sagnir. 1. og 4. bindi. Grímur M. Helgason og Helgi Grímsson önnuðust útgáfu. Reykjavík: Þjóðsaga, 1988.

 

Snorri Sturluson. Snorra-Edda. Heimir Pálsson annaðist útgáfu. Reykjavík: Mál og Menning, 2006.

 

Stefán Einarsson. Íslensk Bókmenntasaga 874-1960. Reykjavík: Snæbjörn Jónsson, 1961.

 

Ævar Petersen og Þórir Haraldsson. Komur hvítabjarna til Íslands fyrr og síðar. Í Villt íslensk spendýr. Ritstj. Páll Hersteinsson og Guttormur Sigbjarnarson. Reykjavík: Hið íslenska náttúrufræðifélag: Landvernd, 1993.

Senda athugasemd

Netfangið þitt mun ekki verða sýnilegt á síðunni.

*

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>