Ráðstefna SIEF í Tartú 2013

Áki Guðni Karlsson

Tartú er falleg hundrað þúsund manna háskólaborg í suðausturhluta Eistlands. Háskólinn var stofnaður af herkonunginum mikla, Gústafi 2. Adolf, árið 1632 skömmu eftir að Svíar unnu borgina af Pólsk-litháíska samveldinu. Þjóðfræðideild háskólans var stofnuð árið 1919 og fyrsti prófessor deildarinnar var þjóðsagnafræðingurinn Walter Anderson. Núverandi prófessorsstöður þar eru í höndum Ülo Valk og Kristin Kuutma sem átti mestan veg og vanda af skipulagi ráðstefnunnar.
Ég var nýkominn úr fjölskyldufríi og átti nótt á Leifsstöð áður en ég flaug til Kaupmannahafnar. Þar hitti ég Védísi Ólafsdóttur, nýkomna frá Kína, og við urðum samferða til Eistlands í flugvél sem minnti á Flugfélag Íslands til Egilsstaða. Á flugvellinum í Tallinn biðum við eftir lausri rútu, en vegna þess hve margir voru á leið á ráðstefnuna lengdist sú bið um klukkustund. Við komum því seint og um síðir til Tartú eftir þriggja tíma rútuferðalag, og misstum af opnunarhátíðinni á sunnudagskvöldið.
Fyrsta SIEF-ráðstefnan sem ég sótti var í Lissabon 2011. Það var, að mér skilst, langstærsta ráðstefnan í sögu samtakanna með yfir þúsund þátttakendur. Fram að því höfðu ráðstefnur SIEF verið nógu litlar til þess að allir gætu nokkurn veginn kannast við alla. Ráðstefnan í Tartú var helmingi minni en Lissabonráðstefnan. Samt var þarna hægt að sjá um 400 fyrirlestra sem skiptust niður á 60 málstofur. Hver málstofa var yfirleitt ein 90 mínútna löng lota með þremur til fjórum fyrirlestrum en sumar teygðu sig yfir fleiri en eina lotu. Það var því hægt að velja um sextán til átján málstofur á hverjum tíma og oft erfitt að ákveða hvar maður vildi helst vera. Skipuleggjendur hverrar málstofu kynntu fyrirlesara og leiddu umræður á eftir. Allar málstofurnar voru haldnar í húsnæði Háskólans í Tartú á sama svæðinu í miðbænum. Lykilfyrirlestrar voru svo í hátíðarsal aðalbyggingar háskólans en sameiginlegir hádegisverðir og hátíðarkvöldverðir í veislusal spölkorn frá.
Nokkrir Íslendingar sóttu ráðstefnuna auk okkar Védísar. Júlíana Magnúsdóttir, Jón Þór Pétursson, Valdimar Hafstein, Rósa Þorsteinsdóttir, Guðni Óskarsson og Katrín Anna Lund voru meðal þeirra. Sumir höfðu farið á sagnaráðstefnu ISFNR sem var haldin í Vilníus vikuna áður. Ráðstefnurnar tvær voru skipulagðar með það fyrir augum að fólk gæti með sem auðveldustum hætti sótt þær báðar. Margir töluðu um það hversu ólíkar áherslurnar væru á þessum tveimur viðburðum. Ég upplifði dálítið hvað þjóðfræðin er í raun klofin í margar sérgreinar þar sem hugtakanotkun og sjónarhorn eru mótuð af þeirri nálgun sem fólk kýs á ólíkt viðfangsefni.
Annars var efni ráðstefnunnar gríðarlega fjölbreytt, enda einkennast ráðstefnur SIEF af því hve margar ólíkar greinar mannvísinda koma þar saman auk þjóðfræði; þar á meðal mannfræði, menningarsagnfræði, skjalfræði, landfræði, ferðamálafræði og fleiri greinar. Áherslan var líklega töluvert á samtímaviðfangsefni. Fyrir utan matarmálstofuna sem Jón Þór skipulagði með fleirum (og var án efa girnilegasta málstofa ráðstefnunnar) sótti ég fyrirlestra um menningararf, menningareign og hagnýta þjóðfræði. Það var líka töluvert um áhugaverða fyrirlestra um skjalfræði, skjölun rannsókna og rannsóknarskjalasöfn (eins og þjóðfræðisöfn), og greinileg hreyfing í þá átt að skoða þessa mikilvægu hlið rannsókna á okkar samtíma og nýliðinni fortíð.
Líkt og í Lissabon voru nokkrar ,,kanónur” fengnar til að halda lykilfyrirlestur á ráðstefnunni. Þeir sem mér þóttu minnistæðastir voru fyrirlestrar Robert G. Howard frá Wisconsin-háskóla sem fjallaði um þekkingarsamfélög á Internetinu og Alessandro Portelli frá Rómarháskóla sem talaði um götutónlist innflytjenda á Ítalíu. Eftir fjóra daga af fyrirlestrum stóðu upp úr þeir fyrirlesarar sem höfðu lagt jafnmikla áherslu á undirbúning flutningsins og innihaldið. Það er enda einn mikilvægur kostur við að sækja stórar fagráðstefnur að læra um þýðingu góðs flutnings og vandaðs undirbúnings fyrir fyrirlestrahald. Það var þó líka gaman að sjá, óháð gæðum flutningsins, rannsóknir í mótun og upplifa þá tískustrauma sem renna um fagið í Evrópu og víðar. Það var til dæmis áberandi tilhneiging í þá átt að nýta landfræðiupplýsingar í rannsóknum og framsetningu.
Ef ég ætti að draga saman í fáum orðum helstu kostina við að sækja alþjóðlega mannvísindaráðstefnu á borð við SIEF-ráðstefnurnar þá væri það að fá tækifæri til að ræða um eigið rannsóknarefni við fólk úr ólíkum áttum. Fyrir mitt rannsóknarefni, sem snýst um höfundarétt og alþýðumenningu, er til dæmis mjög mikilvægt að geta átt faglega samræðu við mannfræðinga sem oft eru að fást við nátengt rannsóknarefni frá öðrum sjónarhóli. Það er líka gaman að upplifa að þótt þjóðfræðin sé engin risafræðigrein þá er hún mjög mikilvæg í alþjóðlegu ekki síður en staðbundnu samhengi. Svo er vissulega bónus að fá tækifæri til að rölta milli öldurhúsa með fræðimönnum á borð við Diarmuid Ó Giollain og Pertti Anttonen og rökræða við þá um efni bókanna sem við lesum í grunnnáminu.
Það gladdi okkur Íslendingana í Tartú þegar við fréttum á miðvikudagskvöld að Valdimar Tryggvi Hafstein hefði verið kosinn forseti SIEF á aðalfundi samtakanna sem haldinn er í tengslum við ráðstefnuna. Valdimar hefur verið í stjórn SIEF um árabil og var einn af þeim sem talaði fyrir því að taka slaginn í Lissabon fyrir tveimur árum þegar aðrir í stjórninni vildu helst draga í land þar sem skráningar á ráðstefnuna höfðu farið langt fram úr væntingum. Hann hefur auk þess verið talsmaður þess að halda hugtakinu ,,folklore” inni í nafni samtakanna með öllum þeim sögulega pakka sem því fylgir. Valdimar hefur líka verið talsmaður þess að þjóðfræðin sé fræðigrein sem er opin fyrir þverfaglegri samræðu. Það er því ekki annars að vænta en að næsta ráðstefna SIEF, sem verður haldin í Zagreb í Króatíu árið 2015, verði jafnfrjó og skemmtileg og ráðstefnan í Tartú.

Frekari upplýsingar um SIEF og ráðstefnuna er að finna á vef félagsins, siefhome.org. Þar er meðal annars hægt að skoða upptökur af lykilfyrirlestrunum í Tartú.

Áki Guðni Karlsson