Prófannapistill ritstjórnar

Kreddur

Kreddur verða bráðlega eins árs en eru þó löngu farnar að skríða, standa upp og eru svo sannarlega farnar að tala. Frá því að síðan fór í loftið hafa 22 greinar verið birtar sem gera tvær á mánuði að meðaltali. Við getum ekki annað en talið það nokkuð gott þar sem talsverð orka fer í hverja grein hjá öllum þeim höfundum sem hafa lagt hönd á plóginn.
Vefsíða sem þessi á ekki von á að fá mikla umferð fyrir utan það þegar nýjar greinar koma inn en að jafnaði fær síðan 50-100 heimsóknir þegar nýtt efni birtist. Utan þess tíma fær síðan þó alltaf nokkra gesti á hverjum degi sem verður líka að teljast ágætt í ljósi þess að hún uppfærist aðeins um það bil tvisvar á mánuði.

 

Núna er mikið að gera hjá öllum þjóðfræðinemum, prófalestur í gangi og fjölmargar ritgerðir sem þarf að klára í mánuðinum. Það er því rólegt hjá Kreddum en við viljum minna á að allar ritgerðir sem verða til innan fagsins, jafnt stórar sem smáar hafa að geyma efni sem á skilið að fá eitthvað meira en bara einkunn innan námskeiðs. Við viljum því hvetja samnemendur okkar til að vinna ritgerðir áfram og koma þeim í greinaform. Kreddur eru kjörinn vettvangur til að koma skrifum ykkar lengra, til að öðlast færni til að skrifa almennar greinar og til að auka þekkingu innan samfélagsins um það hvað þjóðfræðingar eru nú eiginlega að gera.
Netfangið okkar er kreddur@gmail.com og við minnum á að hér eru ágætis upplýsingar um það ferli sem á sér stað þegar grein hefur verið móttekin.