Partur tvö: Hvað eru þjóðfræðinemar að gera í sumar?

Kreddur

Við höldum áfram að forvitnast um sumarstörf þjóðfræðinema, hérna koma þrjú dæmi.

Guðlaug Guðmunda Ingibjörg Bergsveinsdóttir, BA nemi

1394180_10202267981520129_1057104696_n„Aðalstarf mitt í sumar er á Arnarsetrinu, ásamt því að vera upplýsingahorn (s.s. örlítið lægra sett en að vera upplýsingamiðstöð) og pranga handavinnu inn á túrista í gamla kaupfélaginu í Króksfjarðarnesi. Á fyrrverandi skrifstofu þar er vísirinn að því sem kallast Arnarsetur Íslands og er fyrirtæki sem var stofnað fyrir u.þ.b. 7 árum. Grunnurinn að fyrirtækinu var vefmyndavél á arnarhreiður í Breiðafirði, en nú er búið að setja upp litla sýningu þar sem aðalgripurinn er uppstoppuð assa (kvenkyns örn). Mitt starf felst í því að sýna fólki þessa sýningu, svara spurningum og segja eins mikið frá erninum og hægt er. Að sjálfsögðu er það mikið tengt líf- og náttúrufræði, en það er einnig til mikið af goð- og þjóðsögum þar sem örninn spilar lykilhlutverk og finnst fólki það ekki minna athyglisvert. Ég sé því um að koma með þjóðfræðina inn í fyrirbæri sem væri annars einskorðað við náttúrufræði.“

Sigurlaug Dagsdóttir, MA nemi

Mynd0673„Í sumar líkt og síðastliðin sumur er ég að vinna í Safnahúsinu á Húsavík. Þar er ég í gestamóttöku og leiðsögn ásamt því að hugsa um umhirðu gripa og þrif þegar þess gerist þörf. Starfið bíður uppá að kynna íslenska þjóðmenningu fyrir ferðamönnum og kynnast sýn þeirra á land og þjóð sem er alltaf skemmtilegt. Fastar sýningar safnsins eru tvær, önnur tengist sjávarháttum en hin er meira í tengslum við gamla sveitasamfélagið og síðan eru gestasýningar sem koma við hjá okkur í öðrum sýningarrýmum safnsins. Það sem er skemmtilegast við starfið er að fá innsýn gestanna gagnvart íslenskri menningu, margir eru mjög áhugasamir og ekki síst um Ísland dagsins í dag. Ég hef vissulega grætt á því að hafa þjóðfræðina á bak við mig í þessu starfi auk þess sem ég er að vinna með fólki sem hefur langa reynslu af því að vinna í kringum söfn og skjalavörslu. Hitt starfið, sem ég sinni með vinnunni í Safnahúsinu, er að vera bóndi eða hobbýbóndi eins og það kallast það víst. Á vorin og sumrin nýt ég þeirra forréttinda að fá að hjálpa til við sveitastörf hjá pabba mínum í Aðaldalnum en þau felast m.a. í því að taka á móti lömbum, gera við girðingar, skrölta um á gamla nallanum úti á túni og hirða bagga. Þetta er náttúrulega fyrst og fremst afsökun fyrir því að fá að vera sem mest útí íslenskri náttúru og njóta fegurðarinnar í Aðaldalnum.“

Gerður Sif Ingvarsdóttir, MA nemi

946019_10152260541509838_1515187714_n„Sumrinu mínu verður varið í rannsóknarvinnu fyrir meistaraprófsritgerðina mína sem skoðar svartrokksmenningu á Íslandi. Ég mun taka viðtöl við fólk sem er og var virkt í íslensku þungarokkssenunni og tengir sig við svartrokk. Einnig mun ég skoða hvernig umfjöllun um efnið hefur verið í íslenskum fjölmiðlum í gegnum tíðina og að lokum sækja þá svartrokkstónleika sem í boði verða og skoða þá með tilliti til kenninga sviðslistafræðinnar.“