Partur þrjú: Hvað eru þjóðfræðinemar að gera í sumar?

Kreddur

Og áfram höldum við að forvitnast um sumarannir þjóðfræðinema og nýútskrifaðra.

Aldís Gunnarsdóttir, BA nemi, fjarnemi

AG„Fræðafélag um forystufé var stofnað hinn 13.apríl 2010 af áhugafólki með það að markmiði að gera veg forystufésins sem mestan en kynið þykir einstakt á heimsvísu. Fræðafélagið fékk gamalt samkomuhús á Svalbarði afhent fyrir starfsemina og hefur unnið að því ötulum höndum að gera það upp. Á setrinu verður öllum fróðleik um forystufé ,sem félagið nær að koma höndum sínum yfir, safnað saman og gert aðgengilegt fyrir almenning og fræðimenn. Fræðasetrið opnar nú 28.júní ef allt gengur upp.

Starf mitt mun felast í því að vísa ferðamönnum um setrið fræða þá um forystufé og hlutverk þess nú og áður fyrr. Þegar rólegt er mun ég sinna skrásetningu á efni um forystufé og uppskriftum á viðtölum því tengt, auk þess að hella upp á kaffi, sjá um þrif og fleira tilfallandi. Við verðum 1-3 að vinna hverju sinni en það fer algjörlega eftir aðsókn. Þar sem fræðasetrið er rétt að opna er ekki komin mikil reynsla á það ennþá en vonandi verður bara brjálað að gera. Eftir sumarið verður maður orðin margs fróðari um þessar vitru skepnur. Þá er auðvitað að benda áhugasömum á heimasíðuna: forystusetur.is/ og svo er félagið að finna á facebook undir nafninu Fræðafélag um forystufé.“

Andri Guðmundsson, þjóðfræðingur BA

OLYMPUS DIGITAL CAMERA„Ég verðað vinna á byggðasafninu á Skógum í sumar sem leiðsögumaður þar sem ég tek á móti hópum og segi þeim frá hinu og þessu um safnið en. Skógasafnið er eina safnið á landinu, samkvæmt minni vitneskju, sem býður upp á stanslausar leiðsagnir á hverjum degi. Ég mun hafa leiðsagnirnar mínar á ensku og þýsku og það verður nokkur traffík í sumar, allavega fór gestafjöldinn oft yfir 600 manns á dag síðasta sumar. Það verður samt líklega aðeins minni traffík í sumar bæði vegna flugverkfalla (fólk nennir ekki að lenda í því að festast á Íslandi) og vegna HM í fótbolta sem verður haldið núna í Brasilíu. Oft erum við samt að taka (allt að) upp í tíu leiðsagnir á dag sem er bara fínt, gott að hafa nóg að gera. Það er virkilega gaman að sýna fólki safnið og taka hópa í leiðsagnir en það sem er áhugaverð við þessi byggðasöfn hér á Íslandi og víðar er að þessi saga er svo nálægt okkur í tíma að margir gestanna muna eftir því að hafa strokkað smjör (sérstaklega gestir frá Bandaríkjunum hef ég tekið eftir). Það er líka áhugavert að taka eftir því hvað sumir hóparnir hafa mikinn áhuga, eða hvernig þeir sýna það líkamlega og með orðum miðað við suma sem hafa kannski ekki sýnilegan áhuga að utanverðu en finnst efnið samt áhugavert og tjáir það öðruvísi. Oft hef ég tekið hópa í leiðsögn um safnið sem sýna engan sýnilegan líkamlegan áhuga en hrósar mér fyrir leiðsögnina og spyrja síðan spurninga, það hefur í raun áhuga en sýnir það á öðruvísi máta. Það er líka menningalegur munur á því hvernig við tjáum okkur líkamlega og andlega.

Stofnandi safnsins, Þórður Tómasson, hefur formlega sagt upp störfum en var þó að vinna ennþá þegar ég var að byrja. Þórður er lifandi goðsögn meðal okkar og Skógasafn væri líklega ekki til staðar ef ekki væri fyrir hann en hann hóf söfnun sína aðeins fimmtán ára gamall, árið 1935, með munum sem hann fékk frá sínum nánustu. Þórður hefur staðið vaktina á safninu síðan frá stofnun þess í Héraðsskólanum í Skógum árið 1949 en þá voru sýningarnar fyrst hafðar yfir sumartímann fram til ársins 1954–55 þegar „norðurhlutinn“, eins og hann er kallaður í dag, var byggður yfir safnið.

Helsta vandamálið við hópkomur á safnið eru það að þeir hafa ekki nægan tíma til þess að geta notið þess að skoða og fræðast. Kannki er vandamálið þó fólgið í því að safnið er í raun alltof stórt. Byggðasafnið er á þremur hæðum og með tveimur stórum sýningasölum, síðan er útisafnið sem eru torfbæir sem hafa verið endurbyggðir á Skógum eftir að þeir voru yfirgefnir. Í útisafninu er einnig Skógakirkja sem var byggð 1998, ný að utan en gömul að innan eins og við segjum oft. Innvolsið í henni er mest úr Kálfholtskirkju en einnig eru munir frá Steinskirkju og upprunalegu Skógakirkjunni en Skógar hafa verið kirkjustaður frá kristnitökunni. Skál í Síðu er einnig merkilegur burstabær með fjósbaðstofu og Holt á Síðu er fyrsta timburhúsið sem var reist í Vestur-Skaftafellssýslu einungis úr rekavið og viði frá skipsbroti. Loks er gamli grunnskólinn frá Litla-Hvammi eitt af útihúsunum í útisafninu. Síðan má ekki gleyma samgöngusafninu sem sýnir sögu samgangna og póst og fjarskipta á Íslandi allt frá 19.-20. aldar og einnig örlítið um slysavarnarfélagið Landsbjörgu. Spurningin er hvort þetta sé ekki alltof lítill tími fyrir 30 manna hóp sem byrjar á því að fá 30 mínútna leiðsögn um byggðasafnið og hefur síðan 30 mínútur til að eyða annaðhvort á byggðasafninu eða í útihúsunum og samgöngusafninu. En flestir þessra hópa eru í þéttri dagskrá og hafa ekki mikinn tíma til að staldra við og njóta safnsins. En ég verð hér í sumar og bið ykkur endilega að koma á safnið og komast í kynni við íslandssöguna og þjóðhætti Eyfellinga.“