Móttaka greina

Við tökum við greinum á netfangið kreddur@gmail.com og er öllum frjálst að senda inn, hvort sem um er að ræða nemendur, fræðafólk eða áhugafólk svo fremi að efnið tengist þjóðfræði og standist kröfur ritstjórnar. Sérstaklega óskum við eftir áhugaverðum greinum unnum upp úr námsritgerðum úr áföngum innan þjóðfræðinnar.

Engar kröfur eru gerðar um lengdarmörk en til viðmiðunar má hafa 500-2000 orð. Ritstjórn mun gera tillögu að styttingu greinar ef tilefni þykir. Málfar skal vera vandað og vísa skal í heimildir eftir því sem við á. Höfundar skulu notast við APA eða MLA heimildakerfin. Athygli er vakin á Staksteinagreinum en þær bjóða upp á grein í formi hugleiðingar þar sem áherslan er á vangaveltur tengdum þjóðfræðilegu efni frekar en að ákveðnar niðurstöður liggi fyrir.

Þegar grein hefur verið móttekin fer hún í yfirlestur hjá tveim ritstjórnarmeðlimum. Yfirlesarar athuga málfar, stafsetningu, fræðilegt gildi og gera mögulega athugasemdir. Við yfirlestur höfum við í huga að stíll höfundar fái að njóta sín en athugasemdir verða gerðar við málfar ef nauðsyn þykir. Eftir yfirlestur fær höfundur greinina til baka til lagfæringar en getur að sjálfsögðu kosið að fylgja ekki athugasemdum yfirlesara.

Ritstjórn áskilur sér rétt til að vísa greinum frá ef við teljum þær ekki standast gæðakröfur og í þeim tilvikum sem höfundur kýs að fara ekki eftir ábendingum yfirlesara biðjum við höfunda um að rökstyðja þá ákvörðun.

Hafa skal í huga að vefurinn er ætlaður öllum, jafnt fræðafólki, nemendum og almenningi og óskum við eftir því að texti sé aðgengilegur fyrir þessa markhópa.

Myndir

Með öllum greinum birtist ein titilmynd eins og sést á síðunni. Ef höfundur óskar sérstaklega eftir ákveðinni mynd skal hún vera í sér skjali, ekki í ritvinnsluskjalinu. Ef höfundur óskar ekki sérstaklega eftir ákveðinni mynd verður hún valin af ritstjórn og borin undir höfund fyrir birtingu.

Myndir skulu vera jpg eða png skrár í þokkalegri upplausn eða 1000 pixlar á breidd og 250 pixlar á hæð að lágmarki. Ef óskað er eftir því að aðrar myndir birtist í greininni skulu þær einnig fylgja með í sér skrá en þá skiptir upplausn ekki höfuðmáli. Engar myndir sem eiga að birtast með greinum eiga að vera í ritvinnsluskrám. Ritstjórn áskilur sér rétti til að vísa titilmyndum frá ef þær þykja ekki henta heildarútliti vefsíðunnar.