Málstofa BA-nema, 14. nóvember 2014

Kreddur

Síðastliðinn föstudag stóð Félag þjóðfræðinga á Íslandi fyrir málstofu BA-nema þar sem nýútskrifaðir nemar sögðu frá lokaritgerðum sínum. Hér má finna örfáa punkta úr fyrirlestrum þeirra.
Fyrst í pontu var Áslaug Heiður Cassata en í BA-ritgerð sinni Hógværð og hugrekki. Um birtingarmyndir kven- og karlhetja í völdum ævintýrum Jóns Árnasonar rannsakaði hún birtingamyndir kven- og karlhetja í sex ævintýrum úr þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar. Hún studdist meðal annars við kenningar úr kynjafræðinni en undanfarið hefur oftar verið bent á að staðalmyndir karla í ævintýrum geti verið álíka skaðlegar og staðalmyndir kvenna sem mikið hefur verið skrifað um. Hún minnir á að hafa verður í huga að ævintýrin eru skráð á 19. öld og því miðast hegðun og verðleikar hetjanna að því sem var samþykkt af samfélagi þess tíma. Bíómyndir nútímans séu þó fyrst nýlega farnar að breyta staðalmynd kvenna í myndum á borð við Brave og The Hunger Games.

Búi Stefánsson tók við af Áslaugu en hann rannsakaði breytingu á tónlist sem spiluð er við jarðarfarir og ber ritgerð hans nafnið Dauðatónar. Um þróun útfarartónlistar, breytt viðhorf og hlutverk popp-, rokk- og dægurtónlistar í útförum 21. aldarinnar. Nokkur togstreita virðist vera á milli hefðbundinna siða og áhrifa nútímans. Einstaklingar hafa í auknum mæli áhrif á eigin útfarir og velja þeir þá gjarnan lög sem þykja táknræn fyrir þá á einhvern hátt. Til að mynda var Búa sögð saga af manni sem skipulagði sína eigin útför og var lagavalið mjög húmorískt í anda hins látna. Auk viðtala gerði Búi könnun á Facebook þar sem kom fram að 66% sögðust hafa lag í huga sem þau vildu láta spila við útför sína og voru 75% þeirra popp- rokk- eða dægurlög. Hefðirnar vega enn þungt en fólk er þó almennt jákvætt gagnvart breytingum á lagavali.

Efemía Hrönn Björgvinsdóttir skrifaði ritgerðina Gjafir frá huldufólki. Rannsókn á veraldlegum hlutum úr hulduheimi sem segir frá gjöfum frá huldufólki og sagnahefðinni í kringum þá muni. Hún tók sérstaklega fyrir ljósmæðrasagnir og hún sá að skipta mætti gjöfum álfanna í tvennt, annars vegar í efnisleg verðlaun og óáþreifanleg, svo sem lukku í lífi eða gæfu í starfi. Hún rannsakaði sérstaklega tíu muni sem henni tókst að leita uppi og eru sagðir vera efnisleg verðlaun frá álfum. Meðal þessara hluta má nefna tvo messuhökla, álfkonudúk, álfapott, greiðu og skæri og silfurnisti sem var í eigu langafa hennar. Öllum mununum nema einum fylgdu sagnir. Helstu niðurstöður hennar voru að elstu sagnirnar væru flökkusagnir sem hefðu aðlagað sig að umhverfi sínu og staðarháttum og færðu yfirleitt siðferðisboðskap. Yngri sagnirnar voru hins vegar reynslusagnir sem útskýra hvaðan hlutirnir eru komnir.

Fjóla María skrifaði ritgerðina „Þetta er lítið leikrit sem allir ganga inn í.“ Þjóðfræðileg tilviksrannsókn á upplifun þátttakenda hlutverkaspils og ferli spilastunda þar sem hún rannsakaði hlutverkaspil út frá kenningum sviðslistafræðinnar. Hún tók fyrir einn fjögurra manna spilahóp og fylgdist með tveimur spilakvöldum þeirra auk þess að taka viðtöl við alla meðlimi hópsins. Þrátt fyrir að þessir einstaklingar hefðu spilað lengi saman var athyglisvert hversu mismunandi hugmyndir þeirra voru um tilgang spilsins og um hvað þau fengju út úr því að spila. Þau voru sammála um að skemmtun, sagna- og persónusköpun og það að halda ímyndunaraflinu lifandi væru mikilvægir þættir. Hins vegar lögðu þau mismunandi áherslur á aðra þætti svo sem vægi spilsins til að styrkja vináttubönd, leið til að sleppa frá raunveruleikanum eða krefjandi hugarleikfimi.

Jóhanna S. Hannesdóttir skrifað BA ritgerð um ísskápshurðir og ber ritgerðin nafnið Ísskápshurðir og eigendur þeirra. Rannsókn á efnismenningu eldhússins. Niðurstöður hennar voru meðal annars að þeir hlutir sem á ísskápinn fara, eru yfirleitt táknrænir fyrir eigendur þeirra og að ísskápshurðin tilheyrir fyrst og fremst konunni á heimilinu. Sé boðskort á ísskáp er nokkuð ljóst að heimilisfólkið ætli sér að mæta í boðið, enda óþarft að passa upp á boðskort ef enginn ætlar sér að mæta. Sumir hlutir hanga mun lengur upp á ísskápshurðinni en aðrir og eru það helst þeir sem fengið hafa tilfinningalegt gildi, þó slík gildi hafi ekki endilega verið til staðar þegar munirnir rötuðu fyrst á hurðina. Síðast en ekki síst er áberandi hversu ringulreið á ísskápshurðum eykst eftir því sem börnunum fjölgar.

Síðust í pontu var Steinunn Birna Guðjónsdóttir. BA ritgerð hennar ber nafnið Björn, bersi, bangsi. Birtingarmyndir hvítabjarna í íslenskum þjóðsögum og miðaldabókmenntum og eins og nafnið ber með sér skoðaði hún birtingarmyndir bjarndýra í íslenskum þjóðsögum og miðaldabókmenntum. Í elstu heimildum komu birnir helst fyrir þegar íslenskur lítilmagni gefur erlendum höfðingja ísbjörn að gjöf. Í þjóðsögunum verða birnirnir mun persónulegri og þeir sýna reglulega mannlega hegðun. Rökhugsun og persónueinkenni sem voru víðsfjarri í eldri textum koma skýrt fram í þjóðsögum 19. og 20. aldar. Þó ísbirnirnir séu oftast grimmir og ótti við þá mikill geta þeir þó einnig sýnt á sér betri hliðar og bjargað fólki.

Allir voru fyrirlestrarnir skemmtilegir og áhugaverðir og þökkum við fyrirlesurum kærlega fyrir. Áhugasömum er bent á að ritgerðirnar er allar að finna á skemman.is auk ritgerða annarra útskrifaðra nema. Aðeins þarf að leita eftir nafni höfundar eða heiti ritgerðar. Við þökkum Félagi þjóðfræðinga á Íslandi sérstaklega fyrir málstofuna, sem og veitingarnar sem boðið var upp á að fyrirlestrum loknum, og vonum að málþing þessi séu komin til að vera.