lúsaskipti

Lúsaskipti

Um fortíðarhyggju og skítugar nærbuxur
Hrefna Díana Viðarsdóttir
Þjóðfræðingur sem nú rýnir í bókhald

„Um nærföt var skipt á hálfsmánaðar fresti, oftar á sumrin, þá svitnuðu menn gjarnan við heyskap.“ÞÞ 4687

Í nútíma samfélagi þar sem hvert heimili hefur þvottavél þá fer minna fyrir því að fólk veigri sér við það að þrífa það sem skítugt er, þótt misjafnar séu hugmyndir manna um hvað sé skítugt. Flestir eiga líka nóg til skiptanna. Fólk á tvennar eða fleiri buxur, marga boli og peysur og enn fleiri nærföt og sokka. En hvenær verða föt skítug? Þegar búið er að ganga í þeim einu sinni? Tvisvar eða oftar?

Þegar við heyrum tilvitnun eins og þessa að ofan þá er ekki ólíklegt að einhver gapi. „Þvílíkir skítapésar“ missir kannski einhver út úr sér og finnur hroll læðast eftir bakinu. En skipti það yfir höfuð máli að halda sér hreinum þegar fólkið gekk um á moldargólfum heima hjá sér, allt var í sóti eftir lýsislampann og fúkkalyktin fyllti vit manna?

Hreinlæti sveitasamfélags þessa tíma, á lítið sameiginlegt með hreinlæti samtímans. Hvað sé óhreint er afstætt og helst í hendur við það samfélag sem búið er í, sem síðan getur verið ólíkt öðrum menningarheimum. Við lærum að sjá óhreinindi í umhverfi okkar því menningin kennir okkur það. Því hlýtur það að vera æði ósanngjarnt að líta til baka og dæma forfeður okkar samkvæmt nútíma gildum hreinlætis. Mary Douglas segir í bók sinni Purity and Danger að: Óhreinindi sé hlutur á röngum stað.Douglas. Purity and Danger. 44. Allir hlutir eiga heima einhvers staðar. Til dæmis er mold í blómabeði ekki óhreinindi en mold á eldhúsgólfi er það. Á tímum torfhúsa voru gólfin úr mold. Hreinlæti sveitasamfélagsins kallaðist því ekki á við hreinlæti borgarbúa sem bjuggu í híbýlum með gólffjölum.

En hreinlæti hafði ekki aðeins með umhverfi fólksins að gera heldur einnig líkamann sem svo hafði áhrif á tilfinningar þess. Í bókinni Culture Builders segir Jonas Frykman frá því að börn borgarastéttarinnar í Svíþjóð, á árunum 1880-1910Frykman. Culture Builders. Viii. , voru alin upp við hreinlæti og þjálfuð í því. Í uppeldi sínu lærðu þau að skortur á hreinlæti væri forsenda útskúfunar og andúðar.Frykman. Culture Builders. 260. Verkmannastéttin hafði ekki tileinkað sjálfsaga borgarastéttarinnar hvað varðar hreinlæti og það verkfæri sem notað var til að greina óhreinlæti var nefið. Sá sem lyktaði illa var viðbjóðslegur. Það var sama þótt hann væri gáfaður eða viðkunnalegur, ef hann lyktaði illa þá var ekki hægt að líka vel við hann.Orwell. The Road to Wigan Pier. 112. Nefið varð því að tæki til að greina stétt og manngerð. Að finna til ónotalegra tilfinninga í maga vegna vondrar lyktar er hluti af líkamsmótun okkar.

Hvernig tilfinningu vekur það með fólki þegar að langa langaafi konu einnar, sem svarar spurningalista nr.37, Háttumál, svefnhættir, fótaferð, frá Þjóðháttasafni Þjóðminjasafnsins, hafi haft það að vana að berhátta í rúmið því hann hefði:

„…ekki haft fataskipti nema einu sinni á ári og það á Þorláksmessu og þvegið þá nærfötin sín upp úr hangiketssoðinu, en eftir hálft árið hefði hann snúið þeim við og farið í þau úthverf.“ ÞÞ 5527.

Vera má að þetta sé ýkjusaga sem foreldrar hennar sögðu henni en hún er nálægt sannleikanum. Til hliðsjónar höfum við frásögn Jónasar frá Hrafnagili í bókinni Íslenzkir þjóðhættir, þar segir hann frá Eiríki á Þursstöðum sem var í sömu skyrtunni allt árið, en hann klæddist henni á fjóra vegu.Jónas Jónasson. Íslenzkir þjóðhættir. 31. Þessar frásagnir af mönnum og hreinlætisvenjum þeirra tilheyra tíma sveitasamfélagsins á 18. öld og við upphaf 19. aldar. Það getur reynst erfitt fyrir nútíma manninn að skilja og setja sig í spor forvera okkar, sérstaklega í ljósi þess að fólk í dag þjáist af allskyns ofnæmi vegna skorts á umgengni við óhreinindi. Híbýli nútímans eru byggð með steypu, timbri, einangrunarull og bárujárni. Nú verður hins vegar skyggnst inn í líf fólks sem fæddist í kringum aldamótin 1900, þegar fólk bjó enn í torfbæjum, með fyrrnefndri spurningaskrá.

Allir upp í rúm

Þeir voru nokkrir sem komu til hingað til Íslands að ferðast og skrifuðu svo eftirleiðis bók um dvöl sína hér. Margar þeirra lýsa helst því menningarsjokki sem þeir urðu fyrir í dvöl sinni hér á landi. Enda margir að koma úr aðstæðum þar sem borgarastéttin hafði rutt sér til rúms með tilheyrandi mannasiðum og hreinlæti. Einn þeirra var Ebenezer Henderson.

Henderson dvaldist hér á landi 1814-1815. Í bók hans kemur fram að hann hafi farið að Kambi í Króksfirði. Þar kom hann árla að morgni og fékk þar að sofa. Þegar hann kom inn í baðstofuna lá honum við köfnum vegna loftleysis. Fólkið þar reis þá upp í rúmum sínum, án nokkurra klæða til að virða fyrir sér gestinn. Þegar allir lögðust til svefns aftur þá var varla gerlegt að sofna vegna þess hvað fólkið klóraði sér mikið og hátt. Henderson virðist hafa blöskrað þetta blygðunarleysi og einnig haft miklar áhyggjur af því hvort hans rekkjuvoðir væru ekki örugglega hreinar.Henderson. Ferðabók: frásagnir um ferðalög um þvert og endilagt Ísland árin 1814 og 1815 með vetursetu í Reykjavík. 286. Fólk fætt rétt fyrir og um 1900 segir flest frá því að nánast aðeins eldri menn hafi að staðaldri berháttað í rúmið. Einn karlmaður segir þó frá því að margir hafi nú berháttað í rúmin á sumrin en mest hafi það verið gamalt fólk. Þau gerðu það vegna lúsanna, svo þær biti þau ekki í svefni.“ÞÞ 5037. Það virtist vera sjaldséðara að konur væru berháttaðar í rúmum sínum og því virðist vera að þær hafi verið fyrri til að klæðast náttskyrtu eða kjól fyrir svefninn. Ekki er gott að segja til um það hvort einhver muni vita það eftir 100 ár hvort fólk á okkar tímum svaf í náttfötum, því í dag sofum við öll í sitt hvorum herbergjunum og ekki gott að vita hverju við klæðumst, eða klæðumst ekki, bak við luktar dyr. En kannski, einmitt vegna sérherbergjanna, myndi það ekki teljast til tíðanda.

Fólk átti það til að tengja saman svefn og lús í máltæki um svefnmál. Það gat verið að fólk tæki til orða eins og: „láta sig líta í lúsakassann“ÞÞ 5354. , „sofa á sig lús“ÞÞ 4523. og „að skríða í lúsina“ÞÞ 4678. þegar mál var að fara að hátta. Einnig sagði fólk um einhvern í fastasvefni, að sá væri að „liggja á sig lús.“ÞÞ 4523. Á þessum tíma voru lýs og flær hluti af hversdagslegu lífi fólks og sýndist sitt hverjum. Til voru ýmis ráð til að reyna að losna við lýs en þó voru sumir sem töldu það tilgangslaust því þær spryttu innan úr holdi þeirra og þar með partur af þeim og jafnvel til heilsubótar.Jónas Jónasson. Íslenzkir þjóðhættir. 33. Algengt var að fólk fann málsbætur fyrir því sem það hafði litla sem enga stjórn á, eins og það sé hollt að vera með lús.

Fjarri nútímaþægindum

Mörg verk voru nauðsynleg að vinna til þess að lifa af en hreinlæti kannski ekki mjög hátt skrifað á þessum tíma. Sjaldgæft var að fólk ætti föt til skiptanna eða rúmföt svo fólk var mjög bundið af því að það væri þurrkur úti. Sum heimili höfðu það að venju að stórþvottar væru á tveggja vikna fresti en önnur mun sjaldnar enda voru rekkjuvoðir úr vaðmáli mjög þungar í þvotti.ÞÞ 5190 Forvitnilegt væri að sjá hversu ákaft fólk væri í dag í að rífa utan af öllum sængum á heimilinu, skella í bleyti, nudda þvottinn á bretti í bala, sjóða svo í potti, skola úr í læknum og hengja svo herlegheitin upp. Það er ekki að undra að stórþvottar hafi ekki verið efstir á verkefnalistanum. Fyrir utan að þeir gáfu ekkert af sér. Nóg var af öðrum verkefnum í sveitinni. Alltaf reyndi fólk þó að þrífa sig og þvo þvott fyrir jólin og þá jafnvel á Þorláksmessu. Þá bað fólk þess oft heitt að það yrði þurrkur og kallaði fólk þann þurrk „fátækraþerrinn“ því það átti ekkert annað til skiptanna.ÞÞ 4511. Jólin voru mikill hátíðartími og vildu allir vera hreinir og með hreint á rúminu. Enn í dag reynir fólk að setja hreint á rúmin á aðfangadag og þá jafnvel að rúmfötin séu straujuð til hátíðarbrigða. Allir skulu fara í bað áður en klukkan slær sex og allt hefðinni samkvæmt.

Áður en sápur fóru að verða aðeign flestra, tíðkaðist það að þvo þvott uppúr keytu, en keyta er staðið hland húsdýra. Eftir að það hafði staðið í lengri tíma þá var það orðið svo sterkt af ammoníaki að það nýttist vel til þvotta. En þótt rúmfötin væru þá orðin hrein þá fylgdi þeim nokkur lykt í einhvern tíma eftir.Jónas Jónasson. Íslenzkir þjóðhættir. 31. En það er ekki víst að hún hafi verið neitt verri en sú venjubundna lykt sem umlukti fólkið dag frá degi.

Rómantík eða raunsæi

Það má vera að einhver þarna úti sé eins og ég. Ég hef horft á þennan tíma með rómantískum augum. Hús reist upp af náttúrunni, mold, tré og gras. Ég sé fyrir mér kvöldvökuna þar sem ég sit við rokk eða vefstól, undir súð. Í kringum mig er mild birta af lampanum og öllum líður vel. Allir eru að vinna að einhverju stórmerkilegu. Gömul kona prjónar sokka, ung stúlka bætir skó, karlmaður er að kemba ull og börn liggja í rúmum alveg við það að detta í svefn. Á meðan er einhver raddgóður karlmaður að lesa fyrir okkur í Brennu-Njáls sögu.

Það sem ég gleymi hins vegar að taka inn í þessa ofurfallegu mynd er raunveruleikinn. Að gamla konan sem er að prjóna sokkana, eflaust fimmþúsundasta sokkaparið sem hún hefur gert yfir ævina, er með vöðvabólgu upp í eyru og með tannpínu sem ekkert er við að gera nema rífa tönnina úr, og það verður ekki gert af tannlækni. Unga stúlkan sem er að bæta skóna er orðin helaum í fingrunum, en hún á enn eftir að þrífa og bæta sokka þess sem hún þjónustar. Maðurinn sem kembir ullina er síhóstandi því lungu hans eru langþreytt af reyk lýsislampanna sem hann hefur þurft að anda að sér í mörg ár. Börnin sem eru á leið í draumalandið, hrökkva upp annars lagið og klóra sér því þau eru svo grálúsug. Sá sem les fyrir okkur er með stórkostlega táfýlu sem nánast yfirgnæfir fúkkalyktina og lyktina af matnum sem er í súr. Ég sjálf er líklega að hlusta á Brennu-Njáls sögu fertugasta árið í röð, aum eftir vinnu dagsins og auk þess í skítugum nærbuxum. Næsta mál á dagskrá er svo að létta á sér í kopp og leggjast upp í rúm á lúsuga heydýnu og anda að mér angan af kúahlandi, það er að segja ef ég er svo heppin að vera að leggjast í hreint rúm. Það er ekki frá því að þegar maður lítur svona á raunveruleikann í torfbæjunum, það er að segja eins og við sjáum hann fyrir okkur miðað við þær upplýsingar sem standa til boða, að maður finni fyrir aðdáun að forfeður manns hafi yfir höfuð lifað af þessa tíma, alla vega nógu lengi til að fjölga sér. En ætli táfýla, lús og tannpína hafi nú samt ekki verið þeirra minnsta áhyggjuefni. Hjá flestum var helsta takmarkið að komast af veturinn með þann mat sem þau höfðu aflað það sumar og að láta hey skepnanna duga. Þrátt fyrir að margt væri nú ekki geðslegt að hverfa til baka þá er samt enn einhver ævintýrablær yfir þessum tíma. Hver væri ekki til í að henda sér á bert bak, í hreinum nærbuxum, og ríða út í bjarta sumarnóttina eftir farsælan vinnudag í slætti og með hálffullan maga af kjötsúpu?

Ein athugasemd við Lúsaskipti

Senda athugasemd

Netfangið þitt mun ekki verða sýnilegt á síðunni.

*

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>