Kreddur fara í loftið

Kreddur

Vefritið Kreddur hefur litið dagsins ljós eftir langt en skemmtilegt ferli. Í desember 2012 runnu saman hugmyndin nokkurra þjóðfræðinema sem töldu þörf á einhvers konar vettvangi til að koma á framfæri öllu því áhugaverða efni sem þjóðfræðin fæst við. Núna nokkrum mánuðum síðar er vefsíðan orðin að veruleik.

Í þessari fyrstu „útgáfu“ má finna greinar sem ná nokkuð lauslega yfir viðfangssvið okkar. Þær koma til dæmis við í norrænni trú í grein Gerðar um Loka, Eva Þórdís veltir almenningssamgöngum fyrir sér með tilliti til fatlaðra og Trausti lýsir nóttinni í baðstofunni. Sóley Björk fjallar um húmor eiturlyfjafíkla, Hrefna Díana fjallar um hreinlæti og setur það í samhengi við íslenska bændasamfélagið og loks er umfjöllun um Þjóðlagahátíðina á Siglufirði eftir Berglindi Gestsdóttur.

Sérstakur flokkur hjá okkur nefnist Grettistak en þar verða greinar eftir lengra komna fræðimenn í faginu. Fyrsta Grettistakið skrifar Aðalheiður Guðmundsdóttir, dósent í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Grein hennar fjallar um heimildarmenn ævintýra í safni Jóns Árnasonar og tengslanet þeirra.

Ritstjórn.