Kreddur á Þorraþræl í Þingeyjarsýslum

Sigurlaug Dagsdóttir
Meistaranemi í þjóðfræði

Í febrúar 2014 stóð hópur þjóðfræðinga að þjóðfræðidegi í Safnahúsinu á Húsavík. Á bak við daginn stendur félag þjóðfræðinga og þjóðfræðinema í Þingeyjarsýslum. Þetta er í annað sinn sem „Þjóðfræði á Þorraþræl“ hefur verið haldin, fyrirlestrarröð tileinkuð þjóðfræðinni þar sem fólki í Þingeyjarsýslum gefst tækifæri til þess að koma og hlýða á og fræðast um þjóðfræði sem nám og starfsgrein. Þessi tvö ár hefur aðsókninni verið góð, mikið er um spjall og spurningar og um kvöldið hafa þjóðfræðingarnir á svæðinu styrkt böndin enn frekar, borðað saman góðan mat og spjallað um heima og geima. Sjálf tilheyri ég þessum hópi og hefur þetta verið afskaplega ánægjuleg reynsla, að koma heim á sitt svæði til að sýna fólki hvað þjóðfræðingar leggja stund á í rannsóknum sínum og starfi og fá tækifæri til að greina frá eigin verkefnum. Í febrúar síðastliðnum ákvað ég að nýta tækifærið og ræða um Kreddur, veftímarit um þjóðfræði og hér fyrir neðan birtist ágrip af þeim fyrirlestri. Var von mín að þetta yrði til að vekja enn frekari áhuga á þessu frábæra vefriti sem góður hópur þjóðfræðinga hefur komið að, ekki síst greinarhöfundar sem lagt hafa vinnu í að skrifa bæði skemmtilegar og fróðlegar greinar.

Þjóðfræði á Þorraþræl, erindi flutt á þjóðfræðidegi í Þingeyjarsýslum 22. febrúar 2014

Í dag ætla ég að kynna fyrir ykkur veftímarit sem að fór í loftið vorið 2013 en það ber heitið Kreddur. Að baki tímaritinu stendur stór hópur fólks, grunn- og framhaldsnemar í þjóðfræði við Háskóla Íslands, en markmið hópsins er að kynna rannsóknir innan greinarinnar fyrir almenningi.
Veturinn 2012-2013 stóð hópur MA nema í þjóðfræði og nema með BA gráðu í þjóðfræði að málstofu um siðareglur og þjóðfræði. Efnið hafði lengi verið okkur hugleikið þ.e. hvernig þjóðfræðingar, sem í sí auknum mæli eru að fást við samtíma sinn og sitt nánasta samfélag, eiga að taka á siðferðislegum álitamálum sem upp geta komið þegar fengist er við rannsóknir á fólki, hópum og samfélögum. Málstofan var mjög gagnleg, ýmsar hliðar málsins ræddar og vissulega greindi fólk á um hvernig ætti að takast á við siðferðislegar skyldur rannsakanda en málefnaleg umræða er alltaf góð og skilar aukinni meðvitund. Við erum mjög hreykin af því að hafa staðið saman að slíku framtaki og lagt þjóðfræðinni lið með þessum hætti en næg orka var þó eftir í hópnum í önnur verkefni.

Í kjölfar þessa málþings spruttu upp umræður innan hópsins um skyldur háskólans við samfélagið, skyldur okkar sem nemenda við almenning. Hvernig eru rannsóknir kynntar út á við? Hvernig er hægt að miðla því sem að við gerum? Okkar sameiginlega skoðun var sú að háskólasamfélaginu bæri skylda til þess að miðla til almennings því starfi sem að þar fer fram en ýmsar leiðir eru vissulega til þess. Þá kom upp sú hugmynd að stofna einhverskonar miðil sem yrði aðgengilegur öllum, veftímarit þar sem þjóðfræðingum stæði til boða að kynna verkefni sín og rannsóknir. Kosturinn við slíkt tímarit er að kostnaðurinn er lítill, miðillinn er frekar aðgengilegur, auðvelt að setja inn nýjar greinar og stjórna uppsetningunni og ekki var þá slæmt að í hópi okkar leyndist Trausti Dagsson sem setti síðuna upp fyrir okkur og stóð að hönnun hennar. Hugmyndin var sú að þetta yrði í léttari kantinum, efnið sem færi í loftið væri búið að fara í gegnum yfirlestur en ætlunin var að hafa það aðgengilegt, fræðilegt og fyrir alla.

Veftímarit líkt og Kreddur hefur þó fleiri kosti en að kynna hvað þjóðfræðingar eru að fást við. Í gegnum grunn- og framhaldsnám í þjóðfræði verða til ótal verkefni, ritgerðir og skriflegar hugleiðingar hjá nemendum. Flest endar þetta ofan í skúffu eða möppu og er aldrei kynnt öðrum en kennara og nemendum í viðkomandi áfanga. Nemendur fá sjaldan tækifæri til þess að vinna meira úr efninu eða koma því á framfæri þótt að þarna liggi að baki margar vinnustundir, lestur og rannsóknarvinna. Síðan er það góð æfing fyrir nemendur að skrifa grein en þeir sem að vilja síðar vinna markvisst í rannsóknum tengdum þjóðfræði þurfa að koma sér á framfæri með greinarskrifum í ritrýndum tímaritum og þá er það auðvitað kostur að hafa áður þurft að glíma við að koma stóru og viðamiklu efni fram á stuttan og hnitmiðaðan máta.

Ferlið sem greinarhöfundar hjá Kreddum fara í gegnum er þeir senda inn grein, greinin fer nafnlaus í gegnum yfirlestur hjá tveimur meðlimum ritstjórnar. Þar er litið til málfars og efnisinnihalds og þá sérstaklega hvort að greinarhöfundi tekst að koma efninu til skila á frambærilegan og skiljanlegan máta. Greinarhöfundur fær síðan greinina til baka, les yfir leiðréttingar og tillögur um umbætur, getur sjálfur komið með rök því að halda einhverju óbreyttu og sendir síðan greinina til baka þar sem ritstjórnin tekur afstöðu til þess hvenær greinin skuli birtast.
Ritstjórnin hefur verið í mótun alveg frá upphafi og er það enn, en reynt er að hafa ákveðna hluti að leiðarljósi þegar lesið er yfir. Ferlið hefur verið lærdómsríkt fyrir ritstjórnarmeðlimi, við höfum fengið aukna æfingu í að rýna í texta annarra, spá og spekúlera hvernig greinar sem birtast hjá okkur ættu að vera og hvaða markmið við getum sjálf sett okkur til að bæta okkar aðkomu að efni annarra.

Í vetur stóð Kredduhópurinn og Þjóðbrók, nemendafélag þjóðfræðinema, að notalegu útgáfuteiti veftímaritsins og þar ríkti mikil gleði. Kreddur hafa slitið barnsskónum og hafa náð eins árs aldri og við erum ákaflega ánægð með að það sé enn á floti, allt er þetta unnið í sjálfboðavinnu og krefst þess að fólk sjái af tíma sínum til þess að sinna þessu, þá hjálpar að hópurinn er góður og stór.

Sigurlaug Dagsdóttir, MA nemi í þjóðfræði