1280px-Kuai-tiao_rat_na_mu

Kattakjöt í karrý

Flökkusagnir um austurlenska veitingastaði
Valgerður Óskarsdóttir
Meistaranemi í þjóðfræði og hagnýtri menningarmiðlun

Í gegnum tíðina hefur æði margt orðið fyrir barðinu á flökkusögnum en flökkusagnir eru sagnir sem ferðast manna á milli þvert á menningu og landamæri. Þær eru síður en svo nýjar af nálinni og í gegnum aldirnar hafa þær gengið mann fram af manni sem munnlegar frásagnir. Með tilkomu tækninýjunga samtímans hafa fleiri miðlunarleiðir flökkusagna bæst við, svo sem veraldarvefurinn, dagblöð og tímarit, útvarp og sjónvarp. Tæknin gerir það að verkum að sagnirnar berast hraðar en áður, þær flakka heimshornanna á milli og svipaðar flökkusagnir má finna hér á Íslandi og annars staðar í heiminum. Sömu minni koma fram aftur og aftur en mörg hafa tekið á sig nútímalegri mynd vegna breyttra aðstæðna frá því sem áður var.

Chinese_buffet2

 

Það kom fyrir vinkonu mömmu minnar …

Þjóðfræðingurinn Jan Harold Brunvand skilgreinir flökkusagnir í samtímanum (e. urban eða contemporary legends) sem sannar sögur sem þó eru of góðar til að vera sannar. Sagnirnar eru settar fram um atburði sem mögulega gætu verið sannir og byrja gjarnan á orðunum „það kom fyrir vin vinar míns“. Möguleikinn á að sagnirnar séu sannar er mikilvægur því þeir sem segja þær vilja koma ákveðnum skilaboðum á framfæri til áheyrenda.Brunvand, Too Good to be True: The Colossal Book of Urban Legends, 19.

Flökkusagnir fjalla um allt milli himins og jarðar, allt frá álfum og tröllum til útlendinga, kynlífs og morðingja og þær fjalla um venjulegt fólk í aðstæðum sem við þekkjum sjálf. Virkni þeirra er fjölþætt en margar þeirra eru ein birtingarmynd fordóma, vanþekkingar og hræðslu við hluti sem við þekkjum ekki eða skiljum.

Þjónn, það er sæði í súpunni minni!

Eitt af því sem varð allverulega fyrir barðinu á flökkusögnunum voru austurlensku veitingastaðirnir sem ruddu sér til rúms hér á landi um miðjan 9. áratuginn. Austurlensk matargerð var ólík því sem Íslendingar áttu að venjast og maturinn því framandi í augum flestra landsmanna. Það gaf tilefni til árekstra á milli ólíkra hefða sem birtust meðal annars í flökkusögnum um innflytjendur sem vændu þá um að nota rottu- og kattakjöt eða annað slíkt í matargerð sinni. Fljótlega eftir að fyrstu austurlensku veitingahúsin opnuðu hér á landi fór að bera á sögnum um hina framandi matargerð. Slíkar sagnir voru mjög vinsælar um tíma og enn má jafnvel finna stöku flökkusögn um slíka staði ef vel er að gáð.

Árið 2001 gaf Rakel Pálsdóttir út bókina Kötturinn í örbylgjuofninum og fleiri flökkusagnir úr samtímanum. Þar er að finna aragrúa af sögnum sem safnað hefur verið úr samtíma okkar. Margar þeirra fjalla um matarhætti og er eftirfarandi sögn ein þeirra:

Hópur fólks fór út að borða á austurlenskum veitingastað hér í Reykjavík. Einn úr hópnum fann fyrir miklum óþægindum í maga þegar hann kom heim, sem ágerðist svo að hann leitaði læknis. Var hann sendur með hraði á sjúkrahús þar sem hann greindist með svæsna matareitrun. Þegar læknarnir rannsökuðu innihald magans komust þeir að því að sjúklingurinn hafði innbyrt rottukjöt.Rakel Pálsdóttir, Kötturinn í örbylgjuofninum og fleiri flökkusagnir úr samtímanum, 97.

Margar sagnir líkar þessari er að finna í sagnasöfnum víðsvegar um heim. Þær má túlka á ýmsa vegu en oftar en ekki sýna þær ótta fólks við að hið framandi sé á einhvern hátt eitrað eða skemmt. Önnur sögn segir af óheppinni konu sem varð fyrir heldur óskemmtilegri lífsreynslu.

Kona nokkur fór út að borða á kínverskum veitingastað. Fáum dögum seinna var hún sár í munni og fleiður byrjuðu að myndast. Hún fór til læknis sem sagði henni að hún væri með herpes. Konan varð ráðvillt við þessar fréttir því hún hafði alltaf verið manni sínum trú. Gekk hún þá á eiginmann sinn sem neitaði staðfastlega að hafa haldið fram hjá henni og fór í próf sem sýndi að hann var ekki smitaður. Þá tóku þau að leita skýringa annars staðar og fóru með afganginn af matnum á rannsóknarstofu og létu greina hann. Í honum fannst smitað sæði.Rakel Pálsdóttir, Kötturinn í örbylgjuofninum og fleiri flökkusagnir úr samtímanum, 103.

Í þessu tilfelli var það starfsmaður veitingahússins, sem var að öllum líkindum af erlendu bergi brotinn, sem var eitraður. Innflytjendurnir sem hingað komu fengu þannig að kenna á flökkusögnunum líkt og matargerð þeirra.

Sumir telja að ákveðin félagsleg spenna í samfélaginu skapi jarðveginn sem flökkusagnir dafna svo í. Sagnirnar verða til þegar grundvöllur er fyrir þær og eru þær því afleiðing ákveðinna félagslegra aðstæðna. Þótt það sé í raun ógerningur að finna áþreifanlegt samband á milli ákveðinnar spennu eða vanda í samfélaginu og vissra sagna þá hafa fræðimenn gjarnan notað sagnirnar til að rannsaka samfélagið.Best og Horiuchi, The Razor Blade in the Apple: The Social Construction of Urban Legends, 119-124. Það má því líta á sagnirnar sem nokkurs konar spegilmynd samfélagsins; það sem ber hæst hverju sinni verður efniviður sagnanna, hvort sem það eru geðsjúkir, álfar eða innflytjendur.

Kattakássa og fleiri gómsætir réttir

IMG_2522

 

Flökkusagnir kallast á við annað munnlegt efni og finna má brandara sem minna um margt á sagnir er fjalla um mat og matarhætti austurlensku innflytjendanna. Í bók Rakelar Pálsdóttur birtist þessi brandari er fjallar um meint kattakjötsát austurlenska innflytjenda:

Hjón fóru á austurlenskan veitingastað á brúðkaupsafmæli sínu. Maðurinn pantaði sér fiskrétt en konan fékk sér kjötrétt. Þegar maturinn kom hafði konan orð á því hvað rétturinn hennar væri góður. Hún hafði borðað í stutta stund þegar hún fékk eitthvað hart upp í sig. Þegar hún tók það út úr sér þá sá hún að þetta líktist lítilli dýratönn. Það fyrsta sem henni datt í hug var rotta því hún hafði oft heyrt þannig sögur um austurlenska veitingastaði. Hún kallaði strax á þjóninn og sagði honum að hún hefði fundið rottutönn í matnum. Þjóninn var fljótur að svara: „Það getur ekki verið frú mín góð, við notum nefnilega aðeins kattarkjöt hér!Rakel Pálsdóttir, Kötturinn í örbylgjuofninum og fleiri flökkusagnir úr samtímanum, 99-100.

Þótt í brandaranum sé slegið á létta strengi kemur þar fram óttinn við hið framandi. Í öllum dæmunum er á undan fóru koma einmitt fram áhyggjur fólks af stöðugri viðleitni „hinna“ við að skemma matinn okkar og eitra þannig fyrir grandlausum veitingahúsagestum. Þannig getur hræðslan við eitthvað framandi eða jafnvel gremja í garð innflytjenda brotist út í gaman- og flökkusögnum.

Flökkusagnir gefa okkur vísbendingu um ákveðin viðhorf í samfélaginu. Þær geta þannig skýrt frá ótta eða fordómum fólks. Sögnunum um austurlenska veitingastaði hefur fækkað töluvert í seinni tíð ætla ég mér að fullyrða þótt enn megi vafalaust finna nokkrar á stangli. Það er augljóst merki um að slíkir staðir þyki ekki eins framandi og áður. Það þýðir þó ekki að flökkusagnir hverfi af yfirborði jarðar, við taka aðeins ný umfjöllunarefni og ný fórnarlömb.

Heimildir

Best, Joel og Horiuchi, Gerald T. The Razor Blade in the Apple: The Social Construction of Urban Legends. Í Contemporary Legend: A Reader. Ritstj. Gillian Bennett og Paul Smith. New York og London: Garland Publishing, Inc., 1996. 113-133.

 

Brunvand, Jan Harold. Too Good to be True: The Colossal Book of Urban Legends. New York: Norton, 1999.

 

Rakel Pálsdóttir. Kötturinn í örbylgjuofninum og fleiri flökkusagnir úr samtímanum. Reykjavík: Bjartur, 2001.

 

Myndirnar af austurlenska matnum eru báðar merktar CC eða Creative Commons og fengnar á www.wikipedia.org.

Senda athugasemd

Netfangið þitt mun ekki verða sýnilegt á síðunni.

*

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>