karlar og kerlingar

Karlar og kerlingar

Um heimildarmenn ævintýra og tengslanet Jóns Árnasonar
Aðalheiður Guðmundsdóttir
Dósent í þjóðfræði við Háskóla Íslands

Í eftirfarandi umfjöllun verður sjónum beint að því samfélagi sem mótaði og varðveitti íslensk ævintýri. Litið verður til sagnaþula og hvernig fræðimenn hafa leitast við að tengja ævi þeirra og lífshlaup þeim sögum sem þeir tileinkuðu sér og miðluðu til annarra.
Í samfélagslegum þjóðsagnafræðum líta menn meðal annars til þess hvaða hlutverki sögur og sagnaskemmtun gegndu í samfélagi fyrri alda og hvaða gildi sögurnar gátu haft fyrir menningu tiltekinna svæða. Í þessu samhengi skiptir búseta heimildarmanna miklu máli og sér í lagi leitist menn við að rannsaka héraðs- og landshlutabundin einkenni þjóðsagna og með hvaða hætti þær laga sig að umhverfinu. Í þeirri rannsókn sem hér er kynnt verður litið til heimildarmanna þeirra ævintýra sem skráð voru í þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar (1819–1888), og landfræðilegrar dreifingar þeirra. Þetta verður þó ekki einungis gert í þeim tilgangi að kortleggja íslenska sagnamenn og búa þannig í haginn fyrir frekari samfélagslegar rannsóknir, heldur verður athugað hvort eitthvað bendi til þess að ævintýri hafi verið sögð á einu landsvæði fremur en öðru. Einkum verður þó dvalið við landsvæði þar sem fáir heimildarmenn bjuggu og spurt hvaða ástæður gætu hugsanlega legið að baki þeim mun sem virðist hafa verið á virkni sagnamennsku eftir landsvæðum. Sérstök áhersla verður lögð á að skoða byggðina umhverfis Breiðafjörð og útbreiðslu ævintýra þar um það leyti sem Jón Árnason stóð að þjóðsagnasöfnun sinni á 19. öld.

 

Ævintýri má skoða út frá ýmsum sjónarhornum. Í huga flestra eru þau blanda af fróðleik og skemmtun, en í huga fræðimanna heimildir um hugsanakerfi mannsins jafnt sem mennskuna sjálfa. Þau fela í sér upplýsingar um samfélög fyrri alda, um lífskjör fólks og drauma, eða lífsgæði og skort á lífsgæðum. Það er því kannski ekki að undra að þau veki áhuga okkar, sem þau vissulega gera – án tillits til aldurs okkar, stéttar og menntunar.

Í þjóðfræðinni vinna menn með hefðir sem berast á milli fólks og samfélaga og athuga með hvaða hætti efniviðurinn breytist, bæði með tíð og tíma og í samhengi við hlutverk sitt hverju sinni. Í samræmi við þetta leitast þjóðsagnafræðingar við að lesa í samfélag fyrri alda með því að skoða tiltekna sagnamenn og lífsviðhorf þeirra út frá því hvernig þeir tjá sig með sögum sínum og kvæðum. Sérstaklega getur verið forvitnilegt að skoða ævintýri þeirra, sem er í sjálfu sér sá farvegur sem gerir fólki kleift að tjá drauma sína í gegnum sammannlegar formgerðir og tákn. Í víðara samhengi má svo lesa í samfélag sagnamannsins og „andlegt ástand“ – ef svo má segja – tiltekins hóps, sem skilgreina má út frá búsetu, stétt og tímabili, og að sjálfsögðu kyni og aldri líka.

Áður en ævintýri voru skráð niður og prentuð innan um annars konar þjóðfræðaefni gengu þau í munnmælum, sínu eiginlega miðlunarformi. Með munnlegum flutningi gat sagnaþulurinn haft mikið um það að segja hvernig áheyrendum tókst að lifa sig inn í söguna, og hvaða áhrif söguefnið hafði. Þar sem frásagnarform ævintýra er í rauninni mjög krefjandi, krefst það þess að sagnaþulurinn sé hinum ýmsu eiginleikum gæddur, s.s. að hafa gott minni, hæfileika til að spinna í kringum efnið og að sjálfsögðu, þá þarf hann að búa yfir lífsreynslu til að miðla. Síðast en ekki síst þarf hann að geta haldið athygli áheyrenda óskiptri, og jafnvel í drjúga stund, því að ævintýri geta sum hver tekið langan tíma í flutningi. Ævintýri verða því að vera vel sögð; þau þurfa að „orka“ í því umhverfi sem þau eru sögð í og í raun verður til einhvers konar samspil á milli sagnaþular og áheyrenda, þar sem sagnaþulur miðlar af áhuga sínum og reynslu, og því sem hann miðlar til áheyrenda fær hann til baka í formi ólíkra viðbragða (Dégh 1989: 173–183). Jákvæð viðbrögð, sem bera vott um að sagnaþulinum hafi tekist að kveikja neista hjá áheyrendahópnum, kalla svo á jafnvel enn líflegri og skemmtilegri frásögn, á meðan dræm eða neikvæð viðbrögð geta framkallað enn lélegri frammistöðu sagnaþularins sem væntanlega styttir söguna, kunni hann að lesa í áheyrendahóp sinn (sbr. Lord 1960: 16–17). Sagnaskemmtun með ævintýrum byggir því á þessu mikilvæga samspili sagnaþular og áheyrenda, og að því leytinu til verður hver sagnaskemmtun viðburður – einstakur viðburður, bæði í tíma og rúmi, og algerlega háð því umhverfi sem hún sprettur úr. Sagnaskemmtunin sem slík gæti því aldrei orðið nákvæmlega eins á öðrum stað og á öðrum tíma.

Aldur og eiginleikar sagnaþula

Sumir fræðimenn eru þeirrar skoðunar að besta leiðin til að nálgast ævintýri sé að taka mið af einstökum sagnaþulum og því samfélagi sem þeir búa í. Eitt af því sem þarf að athuga í slíkum rannsóknum er efnisskrá sagnaþulanna, eða sagnasjóður. Efnisskrá einstakra þula samanstendur af öllum sögum, eða jafnvel kvæðum, sem tiltekinn einstaklingur geymir í minni sínu og hefur á takteinum. Efnisskráin sem slík getur verið afar misjöfn; hún getur verið samsett úr ævintýrum eingöngu, eða ævintýrum og annars konar þjóðfræðaefni líka, s.s. sögnum og kvæðum. Kunnátta sagnafólksins er líka afar misjöfn. Af mjög ítarlegri rannsókn sem ungversk-bandaríski þjóðfræðingurinn Linda Dégh gerði á ungverskum sagnaþulum kom í ljós að stöku þulir geta búið yfir fjórum til sex sögum, á meðan meðalsögumaður kann að minnsta kosti 40 sögur, en þeir allra minnugustu kunnu 120 og 236 sögur. Meðal annarra þjóða hefur efnisskrá einstakra þula komist upp í 500 sögur (Dégh 1989: 168–169).

Undantekningalítið voru þeir sagnaþulir sem Dégh rannsakaði með áherslu á ævintýrakunnáttu eldri karlar og konur, oftast á milli 60 og 80 ára, og mjög sjaldan undir fertugu. Margir þeirra voru fátækir og gerðust ekki þulir fyrr en á efri árum. Söguefni þessa eldra fólks er þó oftast nær ævintýri sem það heyrði sem börn. Þar sem sögur fólks á öllum aldri hafa verið rannsakaðar þykir augljóst að frásagnarstíllinn slípast með aldrinum. Sagnaskemmtunin virðist þannig almennt séð hafa verið fyllri og yfirvegaðri hjá þeim eldri en hjá hinum yngri sem höfðu meira að gera dags daglega. Það er því mikilvægt fyrir sagnaþul að vera í góðu jafnvægi. Dégh tók meðal annars viðtal við unga konu sem sagði að börnin sín hefðu oft beðið sig um sögur; sagðist hún vera vel fær um að segja sögur, en að hún hafi iðulega haft svo miklar áhyggjur af hinu og þessu að hún átti það til að gleyma. Hún gat náð sér á strik og miðlað öðrum af því sem hún kunni, en þá þurfti að liggja þannig á henni – sagði hún, hún þurfti að ná sér aðeins niður (Dégh 1989: 104, 169 og 179). Þessi kona er dæmi um það sem þjóðfræðingar kalla óvirkan sagnaþul; hún kann sína efnisskrá, en miðlar þó ekki af henni nema við sérstakar aðstæður.

Ekki er ólíklegt að þessu hafi verið svipað farið hérlendis, þótt ekki hafi það verið athugað sérstaklega. Ef við tökum t.d. heimildarmenn þeirra ævintýra sem prentuð eru hjá Jóni Árnasyni, og reiknum aldur þeirra út frá árinu 1861, þ.e.a.s. því ári sem Jón birti Hugvekju sína endurbætta í tímaritinu Íslendingi, og bað sérstaklega um „æfintýri, eða sögur af kóngi og drottningu …“ (Jón Árnason 1861: 91–93), kemur í ljós að það er mikil breidd í aldri heimildarmanna, sem virðast hafa verið frá tíu ára aldri til sjötugs, miðað við fyrirframgefnar forsendur, með meðalaldur um 34 ár.Jón Árnason hafði áður sent úr „hugvekju“ árið 1858 og gera má ráð fyrir að hluti ævintýranna hafi borist honum þá, þótt hann hafi ekki beðið um þau sérstaklega. Sé meðalaldur heimildarmanna miðaður við árið 1858 lækkar hann um þrjú ár. Nokkrir heimildarmenn eru fæddir eftir viðmiðunarárin tvö, og eru þá ekki teknir með í reikninginn. Hins vegar ber að athuga að hér er um að ræða heimildarmenn ævintýra, en ekki endilega virka sagnaþuli sem gáfu sig út fyrir að segja ævintýri og voru þekktir sem slíkir. Heimildarmaður getur þannig verið óvirkur hefðberi, og ef til vill ekki kunnað annað en eina tiltekna sögu, sem skrásetjari hefur svo sett á blað eftir umleitan. Meðalaldur virkra sagnaþula gæti því hæglega verið annar, og þá líklega hærri. Auk þess er það úrtak sem hér um ræðir takmarkað við safn Jóns, og vel má vera að meðalaldurinn yrði allt annar ef önnur söfn yrðu tekin með í reikninginn; það gefur með öðrum orðum ekki endilega rétta mynd af meðalaldri íslenskra sagnaþula á 19. öld.

Þótt ekki hafi verið gerð á því nein heildarrannsókn hvað íslenskir sagnaþulir kunnu almennt mikið af sögum, má gera ráð fyrir að margir þeirra hafi ekki verið eftirbátar kollega sinna frá öðrum þjóðum, enda blómstraði sagnamenning á Íslandi svo öldum skipti, bæði innan baðstofunnar sem utan. Af rannsóknum Rósu Þorsteinsdóttur, þjóðfræðings á Stofnun Árna Magnússonar, má sjá að stór hluti heimildarmanna íslenskra ævintýra hefur eingöngu skilið eftir sig eina eða örfáar sögur (2011: 66–67). Hér ber þó að hafa í huga að tilgangur þeirra sem skráðu var sjaldnast sá að skrá niður efnisskrána alla, og stundum voru þeir jafnvel á höttunum eftir tilteknum sögum og létu þá annað vera. Að sjálfsögðu hefur efnisskrá sagnafólks þó verið misstór og líklegt er að sögur hafi farið af fólki sem kunni óhemjumikið frekar en því sem lítið kunni. Það er t.d. sagt að Hannes nokkur Hannesson (1822–1906) hafi sagt þrjár sögur á kvöldi alla vetrarvertíðina, frá því 2. febrúar til 12. maí og var þó ekki þurrausinn (Jónas Jónasson 1945: 245–246); þar sem um er að ræða um það bil hundrað daga tímabil gera þetta alls um 300 sögur. Annar sagnamaður, sr. Finnur Þorsteinsson (1818–1888), kunni utan að: Íslendingasögur allar eða flestar, Þúsund og eina nótt, Þúsund og einn dag, fornaldarsögur, útilegumannasögur, tröllasögur, draugasögur og meira að segja Don Quixote sem hann sagði lengi einn vetur (Benedikt Gröndal 1965: 106–107). Þótt sagnamenn á borð við þessa hafi væntanlega verið vinsælir og velkomnir hvar sem þeir komu, voru þeir litnir hornauga af menntamönnum 18. og 19. aldar, og jafnvel fyrr, sér í lagi þó af upplýsingarmönnum, sem töldu sagnaskemmtunina sóa tíma fólks frá nytsamlegri lærdóm (sbr. t.d. Driscoll 1997: 13–25, sbr. einnig Jón Árnason 1954: xviii).

Búseta

Á síðasta áratug eða svo hefur það færst nokkuð í vöxt að íslenskir þjóðfræðingar hafi lagt sig eftir að skoða einstaka sagnamenn og rannsaka sögur þeirra í samhengi við það samfélag sem þeir lifðu í. Í samfélagslegum rannsóknum er m.a. litið til þess hvaða hlutverki sögur og sagnaskemmtun gegndu í samfélagi fyrri alda og hvaða gildi sögurnar gátu haft fyrir menningu tiltekinna svæða. Í þessu samhengi skiptir búseta heimildarmanna miklu máli og sér í lagi þar sem fræðimenn leitast við að rannsaka héraðs- og landshlutabundin einkenni þjóðsagna og með hvaða hætti þær laga sig að umhverfinu (Rósa Þorsteinsdóttir 2011: 38). Það er svo margt sem slíkar rannsóknir geta upplýst, enda varpa þær ekki einungis ljósi á samfélagið sem slíkt, heldur geta ævintýrin verið nokkurs konar samfélagsspegill, og út úr þeim má lesa djúpt inn í það samfélag sem þau tilheyra. Þótt þau séu bæði aldagömul og sammannleg, og í þeim skilningi tímalaus, þá endurspeglar hvert tilbrigði þrengra tímabil, enda getur það ekki annað en að litast af samfélaginu, því að á einhverjum tíma hefur það orðið hluti af manneskju sem gefur það svo frá sér aftur.

Þegar Jón Árnason og Magnús Grímsson (1825–1860) hófu söfnun á íslenskum þjóðsögum um miðja 19. öld kom í ljós að í landinu gekk meðal fólksins aragrúi sagna og ævintýra, sem sum hver rötuðu svo í safn Jóns, Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri, sem gefið var út í Leipzig árin 1862–1864. Hins vegar kom einnig í ljós að mönnum þótti þjóðfræðaefni landans vera mismerkilegt, og þar sem upplýsingarmenn höfðu haldið því mjög að fólki að taka upp nytsamara afþreyingarefni en að segja sögur af tröllum og öðrum hégóma, þarf ekki að koma á óvart að ævintýrin þóttu sums staðar ekki merkilegur pappír. Þótt meirihluti þeirra menntamanna sem skráðu sögur landsins og sendu Jóni Árnasyni hafi verið karlmenn, var meirihluti ævintýranna ýmist skráður eftir konum, eða þá körlum sem sögðust hafa lært þau af konum, oftar en ekki ömmu sinni.Um kynjahlutfall íslenskra sagnaþula, sjá Rósa Þorsteinsdóttir 2011: 64–66. Ævintýrin voru því sumpart skilgreind sem kerlingabækur og stimpluð sem hver önnur ónytsamleg vitleysa, og ætli þau hafi ekki stundum verið álitin jafn óþörf og kerlingarnar sem sögðu þau.

Þegar litið er á búsetu heimildarmanna og þar með landfræðilega dreifingu þeirra ævintýra sem prentuð eru í safni Jóns, kemur í ljós nokkurt misræmi á milli landshluta. Í fyrstu verður ekki betur séð en að ævintýrahefðin hafi þrifist misjafnlega í hinum mismunandi fjórðungum landsins, og jafnvel sýslum. Það er þó ýmislegt sem þarf að athuga nánar í þessu sambandi. Jón Árnason var ekki þess háttar safnari sem lagði land undir fót og ferðaðist um allt Ísland í þeim tilgangi að sanka að sér efni frá öllum byggðalögum. Það er ekki þar með sagt að hann hafi ekki lagt sig eftir því að fá sögur alls staðar að, heldur einfaldlega að hann var ekki vettvangssafnari sjálfur; hann fór því ekki í sveitirnar í leit að sagnaþulum og söguefni, heldur sendi hann út boðsbréf til presta og menntamanna víðs vegar um land og bað þá um að skrá fyrir sig munnmæli úr sinni sveit og senda sér (Jón Árnason 1954: xx–xxi). Það má því segja að hann hafi safnað sögunum með kerfisbundnum hætti, svo sem með því að koma sér upp ákveðnu „tengslaneti“ skrásetjara – þar sem hann sjálfur var miðlægur og eins konar primus motor – en þar að auki var hann ritstjóri safnsins. Hann flokkaði það efni sem til hans barst, valdi svo úr því þær sögur sem honum þótti best henta, raðaði þeim niður og gekk frá textum til prentunar.

Misjafnt var hvernig menn tóku í erindi Jóns og fjöldi sagna frá hverju svæði hlýtur að hafa ráðist mjög af viðhorfi menntamanna til verkefnisins, og jafnvel móttöku húsbændanna, því að líklega hafa húsbændurnir oftast nær tekið sjálfir á móti erindrekum Jóns, en ekki vinnufólkið. Það getur því hafa verið tilviljunum háð hvort ævintýrin sem gengu á milli vinnukvennanna við spunastörfin eða þau sem karlar og kerlingar sögðu börnunum í rökkurstundinni hafi yfirleitt náð eyrum þeirra sem skráðu eftir húsbændunum, sem lumuðu jafnvel sjálfir á „merkilegra“ þjóðfræðaefni. Það var því hvort tveggja, að þeir sem skráðu ævintýrin hirtu ekki alltaf um að geta um heimildarmenn sína, og að fjölmörg ævintýri rötuðu hreinlega aldrei á pappír. Um hið mikla þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar sagði frændi hans Ólafur Davíðsson (1862–1903) t.d.: „Eg sá fljótt, að flestar sögur, sem Steinvör gamla, svarta Sigga og aðrar sögukellíngar sögðu okkur krökkunum, vantaði í Þjóðsögurnar …“ (1888–1892: 4). Það er því ekki ólíklegt að ævintýrin hafi sums staðar setið á hakanum. Samkvæmt séra Jóni Þórðarsyni (1826–1885) dugði það þar að auki skammt að biðja bændur um að skrifa upp fyrir sig þjóðfræðaefni. Í bréfi til Jóns Árnasonar segist hann hafa leitast eftir efni hjá bændum sem höfðu í heimili sínu „gamlar og fróðar kerlingar“, en að þeir séu bæði „latir og seinir að skrifa“. Auk þess segir hann fólkið tregt að segja frá og finnist þjóðfræðaefnið „auðvirðilegt“ (Jón Árnason 1950: 86). Og einn þeirra presta sem skráði fyrir Jón Árnason, Jón Þorleifsson (1825–1860), segir í bréfi til hans að menntamennirnir hafi drepið gömlu sögurnar og að þeir „hinir greindustu, þora eigi að segja traditionis, sem lygilegar eru … Af þessu fást ekki sögurnar, þó einhver kunni þær, nema máske hjá bjánum, sem þá kunna ekki að segja þær“ (Jón Árnason 1950: 70). Ástandið hefur því sums staðar verið þannig að þeir sem kunnu ævintýri veigruðu sér við að láta þekkingu sína í ljós, af ótta við einhvers konar lágkúrustimpil.

Varðandi þau ævintýri sem skráð voru á Íslandi á síðari öldum getur verið erfitt að segja til um hvaðan sum þeirra koma og hver sagði þau, en í safni Jóns Árnasonar fylgja þó í mörgum tilvikum upplýsingar um heimildarmenn og jafnvel búsetu; búsetu fólks má reyndar alltaf grafa upp með hjálp annarra heimilda – svo að auðvitað er mest um vert að hafa upplýsingar um það hver skráði og sér í lagi eftir hverjum. Listi yfir heimildarmenn og skrásetjara safnsins er prentaður í VI. bindi útgáfunnar frá 1954–1961 (hér eftir JÁ), og gefur til kynna að hlutverk fólks hafi afdráttarlaust legið í framlagi þess á öðru hvoru sviðinu. Þær upplýsingar sem finna má í skýringum aftast í viðkomandi bindi og varða uppruna sagnanna og bakgrunn eru hins vegar afar mismunandi, en þær helstu eru eftirfarandi:

  1. Skrásetjara er getið eingöngu.
  2. Skrásetjara er getið, og skráir hann eftir eigin minni.
  3. Skrásetjara er getið, sem og heimildarmanns.
  4. Skrásetjara er getið, sem og upprunasvæði sögu.
  5. Heimildarmanns er getið eingöngu.
  6. Heimildarmanns er getið, sem og upprunasvæði sögu.
  7. Upprunasvæði sögu er getið eingöngu.

Annað sem þarf að taka með í myndina og varðar skrásetjara sérstaklega er að:

  1. Skrásetjari skrifar efni heimildarmanns samviskusamlega niður.
  2. Skrásetjari skráir efni heimildarmanns lauslega.
  3. Skrásetjari breytir uppskriftinni, t.d. með eigin innskotum.

Líkt og hér má sjá getur í sumum tilvikum verið erfitt að greina á milli heimildarmanna og skrásetjara; í einhverjum tilvikum skrá heimildarmenn sögur eftir eigin minni, og eru þar af leiðandi hvorutveggja í senn, heimildarmenn og skrásetjarar – og breyti skrásetjari sögu heimildarmanns hefur hann þar með sett mark sitt á söguna, og spurning hvort hann sé þá orðinn heimildarmaður að hluta. Óvissa sem þessi gerir úrvinnslu þeirra upplýsinga sem gefnar eru upp í safni Jóns að vísu bæði vandasama og varasama, og verður sá fyrirvari hafður á þeirri rannsókn sem hér er gerð, enda miðast hún – líkt og fyrr segir – eingöngu við heimildarmenn en ekki skrásetjara.Hugsanlega má skera úr um vafaatriði af þessu tagi með nákvæmri athugun á handritunum sjálfum, sem e.t.v. myndi þó ekki alltaf duga. Sú meginregla sem hér hefur verið fylgt er að taka heldur færri en fleiri heimildarmenn, þ.e. leiki vafi á þætti þeirra í varðveislu ævintýranna. Það verður því ekki farið eftir þeirri meginreglu Rósu Þorsteinsdóttur að telja skrifara handritanna til heimildarmanna, geti þeir ekki heimildarmanns síns (2011: 64).

Sé tekið mið af safni Jóns Árnasonar einu saman má heimfæra tæplega helming ævintýranna upp á ákveðna heimildarmenn og þar með sýslur. Algengast er þó að hver sýsla státi einungis af einum heimildarmanni, ef miðað er við upprunasýslu, þ.e. fyrstu búsetu, hafi viðkomandi flust á milli sýslna; að vísu er einnig algengt að enginn þekktur heimildarmaður sé skráður með fyrstu búsetu í tilteknum sýslum. Í framtíðinni er nauðsynlegt að gera heildarrannsókn á tengslaneti Jóns Árnasonar, en þangað til má styðjast við viðmiðunartölur, sem gætu hæglega breyst við nánari athugun. Eins og sjá má á þessari töflu – sem er eingöngu hugsuð og sett fram til bráðabirgða – koma u.þ.b. fimm heimildarmenn frá Austur-Húnavatnssýslu, fjórir úr Gullbringusýslu, Rangárvallasýslu og Skagafirði og þrír frá Norður-Múlasýslu, en færri frá öðrum sýslum:Greiningin miðast við sýsluskipan á þeim tíma þegar efninu var safnað. Tölulegar upplýsingar eru unnar upp úr skránni Íslensk ævintýri: Drög að skrá yfir útgefin ævintýri, sem gefin var út í takmörkuðu upplagi árið 2006, en er í stöðugri þróun (Aðalheiður Guðmundsdóttir 2006). Skráin telur nú hátt í 500 prentuð tilbrigði ævintýra. Fleiri tilbrigði eru varðveitt óútgefin, í handritum og á segulböndum.

Heimildarmenn Búseta
0> Da.; Hnapp.; Mýr.; N-Þing.; V-Barð.; V-Skaft.; S-Þing.; V-Ís.; Vestm.
<1> A-Barð.; A-Skaft; Árn.; Borg.; Eyf.; Kjós.; N-Ís.; S-Músl; Snæf.; V-Hún.
<2> Strand.
<3> N-Múl.
<4> Gullbr.; Rang.; Skag.
<5> A-Hún.

Tafla 1. Bráðabirgðatafla um heimildarmenn, skv. upplýsingum í safni Jóns Árnasonar.

 

Sautján ævintýri eru þar að auki skráð á viðkomandi sýslur, án þess að heimildarmanns sé getið, og takist að nafngreina þá með frekari rannsóknum mun fjöldi heimildarmanna væntanlega aukast. Að sjálfsögðu er afar misjafnt hversu mörg ævintýri hver heimildarmaður leggur til, enda verður hlutfallið, sé miðað við fjölda ævintýra á hverja sýslu, svolítið annað, þótt reyndar sé talsverð fylgni þarna á milli, en eins og sjá má búa flestir heimildarmenn í þeim sýslum sem einnig státa af flestum ævintýrum, á bilinu 13–29 (með fyrirvara). Ef við lítum einungis til þeirra ævintýra sem rakin verða til ákveðinna sýslna – jafnvel þótt upplýsingar um heimildarmann vanti – sjáum við að dreifingin er afar misjöfn, en að sjálfsögðu getur það líka skipt máli hversu fjölmennar sýslurnar voru:

Fjöldi ævintýra Sýsla
0> Hnapp.; Mýr.; N-Þing.; S-Þing.; V-Barð.; V-Skaft.; V-Ís.; Vestm.
<1> A-Barð.; A-Skaft.; Eyf.; N-Ís.; Snæf.
<2> Árn.; V-Hún.; S-Múl.
<3> Kjós.
<4> Strand.; Borg.
<4 (+7)> Dal.
<6> A-Hún.
<9> Skag.
<13> Gullbr.
<20> N-Múl.
<29> Rang.

Tafla 2. Bráðabirgðatafla um fjölda ævintýra pr. sýslu, skv. upplýsingum í safni Jóns Árnasonar.

 

Ef við lítum svo á tiltekið landsvæði í þrengra samhengi, kemur einn sagnaþulur úr Austur-Barðastrandasýslu og Snæfellsnessýslu, hvorri fyrir sig, og enginn úr Dalasýslu og Vestur-Barðastrandasýslu, eða svæðunum umhverfis Breiðafjörð, þ.e.a.s. samkvæmt fyrri töflunni. Samtals koma þó sex ævintýri frá sýslunum fjórum, eða tvö eftir nafngreinda heimildarmenn og fjögur eftir ókunna heimildarmenn, svo sem í síðari töflunni; sjö ævintýri eru af heldur óljósari uppruna, líkt og nánar verður vikið að hér á eftir (sbr. sviga við ævintýri frá Dalasýslu).

Í einni af umfjöllunum sínum um íslensk ævintýri segir Hallfreður Örn Eiríksson (1932–2005) að á síðari hluta 19. aldar hafi enn verið sagðar sögur í Breiðafirði, sem hluti af skemmtun fullorðinna. Á flestum öðrum svæðum hefði sagnamenning hins vegar dalað eða bókmenning tekið við, og bækur þá annað hvort lesnar eða endursagðar (Hallfreður Örn Eiríksson og Henning K. Sehmsdorf 1999: 267). Þessi fullyrðing kemur þó svolítið spánskt fyrir sjónir, sé miðað við fjölda sagnamanna og varðveittra ævintýra úr safni Jóns Árnasonar og það er því kannski spurning hvort fullyrðingin um langlífa sagnaskemmtun við Breiðafjörð sé annað hvort ýkt eða hreinlega mýta, eða hvort vera megi að tölurnar segi ekki alla söguna? Við skulum líta nánar á þær upplýsingar sem að baki þeim liggja.

Dalasýsla

Með því að þrengja sjónarhornið enn frekar og athuga heimildarmenn – eða réttara sagt skort á heimildarmönnum – úr Dalasýslu, kemur í ljós að enginn heimildarmaður er þar skráður með fyrstu eða fyrri búsetu (sbr. tafla 1). Við nánari athugun kemur þó í ljós að einn heimildarmaður er aðfluttur Dalamaður, auk þriggja skrásetjara sem vera má að hafi skráð eftir eigin minni (skrásetjarar/heimildarmenn). Strangt til tekið teljast þessir heimildarmenn því til annarra sýslna, enda miðast úrvinnslan – líkt og fyrr segir – við fyrri eða fyrstu búsetu hvers og eins, sem þýðir að heimildarmenn eru kenndir við þá sýslu sem þeir ólust upp í, séu upplýsingar um slíkt fyrirliggjandi, enda mestar líkur á að þeir hafi lært ævintýrin í æsku. Í Dalasýslu bjó með öðrum orðum fólk sem kunni ævintýri, þótt ekki væri það Dalamenn í húð og hár. Þetta eru þau Hildur Arngrímsdóttir, sem á tvær sögur í safninu, sr. Guðmundur Gísli Sigurðsson sem á líklega eina sögu, og þau Einar Einarsson og Ragnhildur Guðmundsdóttir, sem eiga e.t.v. einhverjar sögur – eftir því hvernig á það er litið, þar sem þau virðast fyrst og fremst hafa verið skrásetjarar, þótt sumt af efninu sé vafalaust skráð eftir þeirra eigin minni. Hér kemur nánari greinargerð fyrir heimildarmönnunum og efni þeirra:

 

Hildur Arngrímsdóttir (um 1643–1725) bjó í Víðidalstungu í Vestur-Húnavatnssýslu, en fluttist síðar að Hvammi í Hvammssveit, Dalasýslu. Hún var stórættuð kona, dóttir sr. Arngríms Jónssonar lærða (1568–1648), kona Jóns Þorlákssonar lögréttumanns (1635–1695) og móðir þeirra Páls Vídalíns (1667–1727) og Sigríðar (1671–1717) sem gift var Magnúsi Magnússyni prófasti í Hvammi (1669–1720), bróður Árna Magnússonar handritasafnara (1663–1730). Tvær sögur voru skráðar eftir Hildi á árunum 1707 og 1726; þær eru því eldri flestum öðrum ævintýrum í safni Jóns Árnasonar, enda tilheyra þær ekki söfnunarátaki hans, heldur söfnun sem Árni Magnússon stóð fyrir. Sögurnar eru engu að síður prentaðar í safni Jóns. Önnur þeirra var skráð af barnabarni Hildar, Þórði Magnússyni gullsmíðanema (1705–1727), syni þeirra Sigríðar og Magnúsar, ári eftir að Hildur lést. Þetta eru:Vísað er í AT-númer (AT/ATU) skv. greiningu í Einar Ól. Sveinsson, Verzeichnis isländischer Märchenvarianten.

Sögurnar eru báðar tvær afar merkilegar. Þótt Árna Magnússyni hafi ekki fundist mikið til koma um þau ævintýri sem honum bárust í þjóðsagnasöfnun sinni, telur hann að e.t.v. megi græða eitthvað á Brjáms sögu, þar sem hún tengist fornu sagnaefni um Amlóða Danaprins (Bjarni Einarsson 1955: cxxvii), þann sama og William Shakespeare notaði sem fyrirmynd að leikpersónu sinni Hamlet. Sagan er því bæði gömul og víða þekkt. Sagan af Finnu forvitru er hins vegar eitt þeirra ævintýra sem talið er mjög íslenskt og er eins konar sambland álfasögu og hefðbundins ævintýris (ibid.: cxl). Söguhetjan Finna er kannski ekki alveg dæmigerð ævintýrahetja, því að þótt hún breyti rétt, svo sem kvenhetjur ævintýranna yfirleitt gera, er hún íslensk lögmannsdóttir. Þetta má e.t.v. að einhverju leyti rekja til umhverfis Hildar og staðfærslu hennar á efninu, því að sjálf var hún gift lögréttumanni, auk þess sem Páll sonur hennar var lögmaður og dóttir hans – og ömmubarn Hildar – því lögmannsdóttir.

Þess má til gamans geta að þar sem önnur sagan er skráð af barnabarni Hildar, Þórði, má teljast líklegt að Hildur hafi sagt fleiri barnabörnum sínum ævintýri. Eins og fyrr segir, þá var Hildur ættstór og barnabörn hennar því kannski svolítið betru vön en þau kotbörn sem ævintýri segja gjarnan frá og þurfa að sýna bæði dugnað og útsjónarsemi til að farnast vel í lífinu. Börn Páls, sonar hennar, voru jafnvel enn ættstærri en Hildur sjálf og er líklega óhætt tala um íslenskan aðal í því sambandi. Langamma þeirra í móðurætt var t.d. Hólmfríður Sigurðardóttir hin mikilláta (1617–1692), sem var m.a. þekkt fyrir að láta færa sér gylltan lit að utan, svo hún gæti litað á sér hárið. Þá mun hún ávallt hafa látið þjónustustúlku þvo sér ef hún tók á nokkru óhreinu, og þegar hún gekk með fyrsta barn sitt, átti hún að hafa sagt um barnsfæðinguna sem framundan var: „Mun ég þá verða að segja: æ?“ (Jón Ólafsson 1950: 147). Langamma barnanna hafði greinilega ekki þurft að hafa mikið fyrir lífsbaráttunni og spurning hvort barnabörn Hildar hafi e.t.v. átt auðveldara með að samsama sig konunga- eða höfðingjabörnum ævintýranna en kotungabörnunum. Það má a.m.k. gera ráð fyrir að börn Páls hafi alist upp við sögur, enda á hann að hafa sagt: „Viljir þú hygginn verða, þá lestu sögur“ (Jón Ólafsson 1950: 163).

 

Sr. Guðmundur Gísli Sigurðsson (1834–1892) var frá Gufudal, Austur-Barðastrandasýslu, en fluttist – eftir að hafa þjónað í nokkrum prestaköllum – að Kleifum í Gilsfirði, einhvern tímann eftir 1871 (Páll Eggert Ólason 1949: 181). Hann safnaði sjálfur efni árin 1861–1862, þ.e. áður en hann flutti í Dalina. Sr. Guðmundur Gísli var fyrst og fremst skrásetjari. Mest af efni hans er að finna í Lbs. 424 8vo, og eru alls fjögur ævintýri þaðan prentuð hjá Jóni, auk eins úr Lbs. 420 8vo (JÁ VI: 57–59). Einungis eitt af þeim ævintýrum sem hann skráði verður rakið til hans sjálfs, og þó með fyrirvara. Þetta er ævintýrið:

Auk þeirra Hildar og Guðmundar Gísla er vert að minnast á Einar Einarsson (1835–1891) frá Munaðarnesi í Strandasýslu. Einar, sem var til sjóróðra á Gjögri og vinnumaður á Stað í Steingrímsfirði í einhvern tíma, a.m.k. í kringum árið 1862, fluttist að Saurum í Laxárdal árið 1888 og bjó þar til dauðadags árið 1891, eða í um þrjú ár. Einar skráði niður sögur eftir öðru fólki, en vera má að eitthvað hafi hann skráð eftir eigin minni. Ævintýri hans eru varðveitt í Lbs. 537 4to, og eru alls tíu þeirra prentuð hjá Jóni Árnasyni; fimm þeirra eru endurútgefin hjá Einari Guðmundssyni, með svolitlum orðamun og fráviki í titlum.Sjá, Einar Guðmundsson, Íslenzkar þjóðsögur frá árunum 1943–47. Þar er talað um að ævintýrin séu eftir „syrpu Einars“, sem bendir til þess að Einar Einarsson hafi skráð sögurnar sjálfur, jafnt ævintýri sem annað efni. Upplýsingar um Einar eru m.a. fengnar í gegnum Íslendingabók (islendingabok.is). Í safni Jóns Árnasonar er hans eingöngu getið sem skrásetjara, auk þess sem þrír heimildarmenn hans eru nafngreindir. Tekið er fram að hann hafi skráð „kerlingasögurnar“, þ.e. ævintýrin, eftir Ragnhildi Andrésdóttur á Gjögri (um 1819–1882) (JÁ VI: 57 og 151). Af þeim sökum eru litlar líkur á að hann hafi skráð ævintýri eftir eigin minni.

 

Samkvæmt því sem getið er í skýringum við útgáfu að safni Jóns Árnasonar frá 1954–1961 var Ragnhildur Guðmundsdóttir (1836/7–1921) ættuð vestan úr Dölum (JÁ VI: 151), en erfitt er að koma þeirri ættfærslu heim og saman við manntöl. Ragnhildar er getið í manntölum allt frá árinu 1840, og þótt þeim beri ekki öllum saman um fæðingarstað hennar, bendir flest til þess að hún sé fædd í Úthlíðarsókn í Biskupstungum, þar sem foreldrar hennar, þau Helga Jónsdóttir Bachmann (1808–1881) og Guðmundur Guðmundsson (1805–1873), bjuggu á bænum Brekku (Páll Eggert Ólason 1950: 58). Samkvæmt manntalinu frá 1840 hafa þau hins vegar látið hana frá sér og er hún það ár sögð tökubarn að Bóli í Árnessýslu. Í næsta manntali á eftir, frá 1845, er hún hins vegar komin til prestshjónanna að Stað í Grindavík, Gullbringusýslu, þar sem hún er áfram skráð sem tökubarn, en presturinn, sr. Geir Jónsson Bachmann (1804–1886), var móðurbróðir hennar. Geir þjónaði á Stað fram til 1850, í Hjarðarholti í Laxárdal, Dalasýslu, á árunum 1850–1854,Í bókinni Dalamenn: æviskrár, er hann sagður í Hjarðarholti frá 1850–1855 (Jón Guðnason 1961: 443–444). og í Miklaholti í Hnappadalssýslu frá 1854–1882 (Páll Eggert Ólason 1949: 30). Ragnhildur kemur aftur fram í manntalinu 1850 (skráð 1. febrúar) hjá prestshjónunum á Stað, og 1855 hjá sömu prestshjónum í Miklaholti, þannig að væntanlega hefur hún verið hjá þeim í Hjarðarholti líka, á aldrinum 13/14–17/18 ára. Eftir það var hún vinnukona hjá Helga Guðmundssyni Thordersen biskupi Íslands (1794–1867) og konu hans Ragnheiði Stephánsdóttur (1795–1866) í Reykjavík á árunum 1860–1863, samkvæmt því sem fram kemur í manntalinu frá 1860, en Guðmundur, faðir Helga (1766–1803), var ættaður frá Sámsstöðum í Laxárdal. Síðar giftist hún Þorvarði Helgasyni beyki í Keflavík (1836–1894), Gullbringusýslu. Talið er að Ragnhildur hafi skráð ævintýrakver í handritinu Lbs. 533 4to, sem er nú varðveitt ásamt öðrum handritum Jóns Árnasonar á Landsbókasafni Íslands-Háskólabókasafni. Sjálfur vann Jón hjá Helga biskupi um tíma frá 1856 (JÁ VI: 151 og Jón Árnason 1950: 13–14), og líklegt að hann hafi komist í kynni við hana þar.
Lbs. 533 4to er samansafn uppskrifta úr ýmsum áttum. Það kver sem nær yfir bls. 315–396 hefur að geyma tólf sögur alls, og þar af tíu ævintýri. Í kverinu sjálfu er hvergi að finna upplýsingar um uppruna þess, en í skýringum við útgefin ævintýri í safni Jóns Árnasonar eru uppskriftirnar sagðar koma úr Dalasýslu, og í nokkrum tilvikum er nafn Ragnheiðar Guðmundsdóttur sett við, með spurningarmerki. Um er að ræða eftirfarandi ævintýri:Titlar í Lbs. 533 4to eru að nokkru leyti frábrugðnir útgefnum titlum. Ásmundur kóngsson og Signý systir hans er án titils, Sagan af Gríshildi góðu, Sagan af Hildi og Haraldi og Sagan af flókatrippunum eru með sams konar titli, en aðrir titlar eru: „af geirlaugu og grædara“, „Sagan af Blákápu“, „Sagan af Jóni og Þorsteini“, „Sagan af olinpiu og tíu Bræðrum hennar“, „Sagan af Búkollu“ og „Af Tistram og Ísól Björtu“.

Auk þess er í handritinu Sagan af Þorsteini karlssyni, AT 471 (JÁ II: 421–424), sem einnig er sögð vera vestan úr Dölum, og nafn Ragnhildar skammstafað aftan við. Þessi saga er þó talsvert aftar í handritinu en hinar tíu, eða á bls. 440 (JÁ II: 579). Í skýringum við safn Jóns Árnasonar eru fimm þessara uppskrifta eignaðar Ragnhildi með spurningarmerki, og tvær með upphafsstöfum hennar án þess að spurningarmerki sé sett aftan við.Blákápa, Jón og Þorsteinn, Ólinpía og tíu bræður hennar, Sagan af flókatrippunum og Búkolla: „hdr. vestan úr Dölum (Ragnhildar Guðmundsdóttur?)“ (JÁ V: 487, 490 og 495); Sagan af Gríshildi góðu og Sagan af Þorsteini karlssyni: „Eftir sögn vestan úr Dölum. R[agnhildur] G[uðmundsdóttir]“ (JÁ II: 579, sbr. einnig Jón Árnason 1864: 414. Í útgáfu Jóns Árnasonar frá 1864 (bls. 442) vantar þó upphafsstafi Ragnhildar við Söguna af Þorsteini karlssyni). Fjórar uppskriftir eru sagðar eftir sögn vestan úr Dölum, án þess að getið sé um skrásetjara/heimildarmenn.Í skýringum aftast í viðeigandi bindi stendur: Ásmundur kóngsson og Signý systir hans, Sagan af Geirlaugu og Græðara og Sagan af Tístram og Ísól björtu: „Eftir sögn úr Dalasýslu“ (JÁ II: 578, sbr. einnig Jón Árnason 1864: 320, 332 og 379); Sagan af Hildi og Haraldi: „hdr. vestan úr Dölum“. Augljóst er að ævintýrin fjögur má rekja til sama skrásetjara, enda rithönd sagnanna áþekk öðrum úr sama kveri, en þar sem skrásetjara/heimildarmanns er ekki getið í skýringum aftanmáls, hafa þessi fjögur ævintýri verið heimfærð upp á Dalasýslu, sbr. töflu 2;Tvö fyrstu ævintýrin, Ásmundur kóngsson og Signý systir hans og Sagan af Geirlaugu og Græðara, eru vafalaust með sömu rithönd. Nokkur skil verða svo frá og með þriðju sögunni, Blákápu, sem virðist skrifuð með fínlegra skriffæri og þéttari skrift. Eftir því sem blaðsíðunum fjölgar verður skriftin þó gleiðari, og líkist sífellt meir skriftinni á fyrstu sögunum tveimur, þannig að ekki er ólíklegt að allar sögurnar séu skrifaðar af sama einstaklingi. hin ævintýrin eru þar höfð innan sviga.

Ævintýrin í Lbs. 533 4to eru af ýmsu tagi. Ef hægt væri að halda því fram að eitt þeirra væri merkilegra öðru af einhverjum ástæðum, mætti segja að Sagan af Gríshildi góðu væri ómetanleg heimild um munnmælaævintýri af efni sem varðveitt er í formi kvæðis, rímna og almúgasögu (Reynir Þór Eggertsson 2006: 817–825). Önnur merkileg saga er Ólinpía og tíu bræður hennar, sem varðveitt er í tveimur tilbrigðum á Íslandi (Einar Ól. Sveinsson 1929: 47), en er líklega einna þekktust sem ævintýrið um hrafnana sjö í safni Grimms-bræðra. Búkollusagan er auðvitað merkileg líka, en saga Ragnhildar er þó einungis eitt af fjórum til fimm prentuðum tilbrigðum Búkollusögunnar hér á landi,Auk Búkollusagnanna fjögurra hjá Jóni Árnasyni skráði Hallfreður Örn Eiríksson sögu af Búkollu meðal Vestur-Íslendinga (Hallfreður Örn Eiríksson 2012: 475–477). Fleiri tilbrigði eru varðveitt á segulbandssafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og aðgengileg á vefnum ismus.is. þannig að varðveisla sögunnar stendur ekki og fellur með þeirri frásögn sem skráð er í Lbs. 533 4to.

Ekki liggur í augum uppi hvort líta beri á Ragnhildi sem skrásetjara eða heimildarmann. Í VI. bindi safns Jóns Árnasonar er hún talin upp meðal skrásetjara en ekki heimildarmanna (JÁ VI: 50), en sjálfur hafði Jón þó talið hana á meðal heimildarmanna sem hafi kunnað margar sögur (JÁ VI: 62) – enda ekki víst að hann hafi gert jafn afdráttarlausan mun á skrásetjurum og heimildarmönnum og síðari útgefendur safnsins.Í handritinu Lbs. 540 8vo, 8. kveri, telur Jón upp 21 sögu sem hann segir að Ragnhildur Guðmundsdóttir hafi kunnað (sbr. JÁ VI: 62): „Sögu af Gríshildi góðu“, „... Geirlaugu og Græðara kóngs syni“, „... Ásmundi og Signýu“, „... Sigurði Kögu⸌r?⸍ḷbarni“, „... Haraldi kóngssyni“, „... Hildi góðu stjúpu“, „... Kóngsbörnunum“, „... Gullin Krossi“, „... Hvítíhafiðút“, „... Flókatryppunum“, „... Kóngsdætrunum“, „... Tistram og Ísól björtu“, „... Helgu karlsdóttur“, „... Ellefu kóng⸌s⸍soniṇru“, „... Þorsteini og taflinu góða“, „... Agnatífus og Vísir jómfrú“, „... Sveini lata“, „... Jóni og Þorsteini“, „... Tíu hröfnunum“, „... Hökuláng og Lángarváng“ og „... Nýársnótt“. Sjö sögum ber saman við sögur úr Lbs. 533 4to, og vera má að Sagan af Haraldi kóngssyni og Sagan af Hildi góðu stjúpu eigi að samsvara Sögunni af Hildi og Haraldi; ekki er heldur ólíklegt að Sagan af kóngsdætrunum sé sama saga og Blákápa, og að Sagan af Helgu karlsdóttur samsvari Búkollu. Umframsögur listans eru þá Sagan af Sigurði kögurbarni, Sagan af kóngsbörnunum, Sagan af Gullin-Krossi, Sagan af Hvít í hafið út, Sagan af ellefu kóngssonum, Sagan af Þorsteini og taflinu góða, Sagan af Agnatífus og Vísir jómfrú, Sagan af Sveini lata, Sagan af Hökulang og Langavang og Sagan af nýársnótt. Nokkrar þessara sagna, að minnsta kosti, eru þekkt ævintýri. Þótt Ragnhildur verði að vísu ekki talin til heimildarmanna með fyrstu búsetu í Dalasýslu, og þótt hún hafi reyndar eingöngu búið á þessum slóðum í fjögur ár á unglingsaldri, er handritið sagt vestan úr Dölum.

Svo sem umfjöllunin hér að framan ber með sér getur verið erfitt að segja til um fjölda þeirra ævintýra frá 18. og 19. öld sem verða með einum eða öðrum hætti tengd Dalasýslu; fjögur þó ef nafnlausu ævintýrin úr Lbs. 533 4to verða eingöngu sett á sýsluna (þrátt fyrir að vera vafalaust af sama meiði og önnur ævintýri handritsins), ellefu ef öðrum ævintýrum sama kvers er bætt við, og fjórtán með ævintýrum þeirra Hildar og Guðmundar Gísla. Að frátöldum ævintýrum Lbs. 533 4to verður ekkert þeirra þó rakið til Dalasýslu (sbr. regluna um fyrstu búsetu), og varðandi Lbs. 533 4to leikur stór vafi á heimildarmönnum, og séu sögurnar skráðar af Ragnhildi og eftir hennar eigin minni, hljóta þær allar að teljast til æskustöðva hennar í Árnessýslu. Þá er Hildur Arngrímsdóttir ekki samtímamaður Jóns Árnasonar, og tilheyrir strangt til tekið ekki tengslaneti hans, enda varpa ævintýri hennar tvö ekki ljósi á það söfnunarstarf sem Jón stóð fyrir um miðja 19. öld.

Líklegt er að fjöldi þeirra ævintýra sem rekja má til Dalasýslu færi upp á við ef skrásetjarar, búsettir á svæðinu, yrðu teknir með í myndina líka, en líkt og fyrr segir liggur áherslan þó á sagnaþulunum hér og því fólki sem kunni sögurnar.Auk þeirra sagnaþula og skrásetjara sem hér hafa verið taldir upp mætti nefna Ebenezer Matthíasson snikkara í Flatey, sem skráði tvö ævintýri fyrir Konrad Maurer, sem ferðaðist um Ísland og safnaði sögum árið 1858; Ebenezer var alinn upp í Hergilsey. Þar sem eyjurnar tvær tilheyra þó Austur-Barðastrandasýslu en ekki Dalasýslu, verða ævintýri Ebenezar strangt til tekið ekki talin með. Líkt og fyrr segir taldi Hallfreður Örn Eiríksson að sagnamenning hefði lengi þrifist við Breiðafjörðinn (Hallfreður Örn Eiríksson og Henning K. Sehmsdorf 1999: 267–268) og reyndar er almennt talið að sögu- og bókmenning hafi verið sérlega ríkuleg á öllum norðvesturhluta landsins um aldir. Þetta má t.d. sjá af fjölda varðveittra handrita bóksagna, svo sem riddara- og ævintýrasagna frá miðöldum jafnt sem síðari öldum. Þar að auki eru Dalamenn þekktir fyrir fræðimenn á borð við Saurbæingana Magnús í Tjaldanesi (1835–1922) og Guðbrand Sturlaugsson úr Hvítadal (1821–1897), sem báðir söfnuðu sögum af mikilli elju og skrifuðu niður. Þeir Magnús og Guðbrandur voru þó ekki eiginlegir sagnaþulir sem skráðu eða sögðu ævintýri, svo vitað sé, og því auðvitað spurning hvort munur sé á ritmenningunni, sem getur verið sterk, og munnmælahefðinni, sem þarf ekki endilega að haldast í hendur við fræðistörf einstaklinga. Samt sem áður, þá hefur því verið haldið fram að munnleg sagnahefð hafi lifað lengur í Dölunum en annars staðar á landinu – hversu lengi er erfitt að segja, og e.t.v. hefur þetta bæði verið misjafnt eftir tímum, jafnt sem hreppum eða jafnvel einstökum bæjum.

Tengsl Jóns Árnasonar við Dalamenn

Líkt og samantektin hér að framan sýnir er enginn þeirra heimildarmanna sem eiga ævintýri í safni Jóns Árnasonar með fyrri eða fyrstu búsetu í Dalasýslu, en fjórir aðfluttir Dalamenn ýmist sögðu ævintýri eða skráðu þau, og þá jafnvel eftir eigin minni. Einungis þrír þessara einstaklinga voru samtímamenn Jóns Árnasonar. Miðað við þetta væri kannski ekki úr vegi að spyrja: leitaði Jón Árnason ekki til þeirra Dalamanna sem líklegt er að hefðu getað útvegað honum ævintýri?

Frá Breiðafirði. Ljósm. höf.

Frá Breiðafirði. Ljósmynd höfundar.

Einn af menntamönnum Dalasýslu, þann tíma sem Jón Árnason stóð fyrir söfnun sinni, var sr. Friðrik (Eggertsson) Eggerz (1802–1894), prestur í Skarðsþingum. Friðrik var dóttursonur Magnúsar Ketilssonar sýslumanns, og bjó í Akureyjum á árunum 1851–79.Akureyjar höfðu lengi verið í eyði, og fram yfir 1800 voru þær nytjaðar frá Búðardal á Skarðsströnd. Eftir það settust afkomendur Magnúsar Ketilssonar (1732–1803), sýslumanns, þar að og gerðu eyjarnar að stórbýli. Friðrik var mikill áhugamaður um þjóðlegan fróðleik, og skráði niður fjölda sagna og annars konar munnmælaefni, sumt eftir minni, en annað eftir öðrum handritum, s.s. Gísla Konráðssonar. Sumt af efni hans er prentað í þjóðsögum Jóns Þorkelssonar (t.d. Lbs. 2005 4to, sbr. Einar G. Pétursson 1991: 175–177) og sitthvað mun líka prentað í Gráskinnu þeirra Sigurðar Nordals og Þórbergs Þórðarsonar. En, þrátt fyrir þann sagnasjóð sem Friðrik virðist hafa legið á hafði Jón Árnason einfaldlega ekki samband við hann, samkvæmt því sem sagnfræðingurinn Einar G. Pétursson segir. Ástæðan mun hafa verið sú að „Jón var kvæntur Katrínu dóttur Þorvalds Sívertsens í Hrappsey og Friðrik var ekki vinur Þorvalds og það dugði til að Friðrik lagði ekki neitt af mörkum í Þjóðsögurnar“, segir Einar (1991: 177).Einar G. Pétursson hefur einnig skrifað um Friðrik í Breiðfirðingur 2002: 52–66. Hins vegar ber að taka það með í reikninginn að þar sem Jón kvæntist Katrínu (1829–1895) ekki fyrr en árið 1866, mætti ætla að hann hefði getað leitað til Friðriks fyrir tíma fjölskylduhagsmuna, og á þeim tímum sem söfnun hans stóð sem hæst; þetta virðist hann þó ekki hafa gert.

Hafi ástæðan fyrir samskiptaleysi þeirra Jóns og Friðriks verið ágreiningur manna á milli, gæti skýringin legið í vinskap Jóns við jafnaldra sinn Eirík Kúld (1822–1893), son Ólafs Sívertsen (1790–1860), en Ólafur var bróðir Þorvalds (1798–1863), og ekki óhugsandi að hann – eða þeir feðgar – hafi tekið upp þykkjuna fyrir bróður sinn og frænda. Þeir Jón og Eiríkur höfðu verið skólafélagar um árabil, og útskrifuðust saman úr Bessastaðaskóla árið 1843, og af öllum skólabræðrum Jóns þau sex ár sem hann var í námi, minnist hann Eiríks sérstaklega, og af hlýhug (Pálmi Pálsson 1891: 8 og 23); Eirík segir hann hafa verið sér eins og bróðir, og að hann hafi verið hvað samrýmdastur honum (Jón Árnason 1950: 12). Það voru, með öðrum orðum, náin tengsl á milli Jóns og Sívertsenfjölskyldunnar fyrir tíma mægða, en hvort þau hafi haft bein áhrif á söfnun hans er erfitt að fullyrða. Hitt er þó víst að Friðrik þótti bæði afturhaldssamur og gagnrýninn (sbr. Einar G. Pétursson 1991: 176–177), og ekki er ólíklegt að honum hafi sinnast við samtímamenn sína, enda var honum sérstaklega illa við menntamenn og siðferði þeirra (Erna Eggerz 1968: 175). En hvað ætli Sr. Friðrik hafi þekkt af ævintýrum?

Frá Breiðafirði. Ljósmynd höfundar.

Frá Breiðafirði. Ljósmynd höfundar.

Engin ævintýri eru varðveitt í handritum Friðriks, en í ævisögu sinni, Úr fylgsnum fyrri aldar, segist hann hafa kunnað slíkar sögur svo hundruðum skipti. Í ævisögunni segir:

Friðrik var sér á uppvaxtarárunum allsstaðar úti um karla- og kerlingasögur og hafði svo gott minni, að þær komu aldrei í rifinn sjóð, hversu sem hann fjölgaði þeim frá umferðafólki. Með sögum þeim skemmti hann foreldrum sínum í rökkrunum, er lögðu sig um litla stund til svefns, og gat Friðrik haft nóg til þess alla þá tíð, sem í rökkrinu var sofið af vetrinum, því þær sögur kunni hann hundruðum saman og gjörði síðar registur yfir þær, sem nú er týnt (Friðrik Eggerz 1952 I: 14).

Það hefði verið forvitnilegt að sjá þetta registur, þessa skrá Friðriks, þ.e.a.s. ef hann kunni á annað borð karla- og kerlingasögur í hundraðatali.Sr. Friðrik er ekki einn um að státa sig af að kunna mikið magn sagna og ævintýra. Fleiri menn sögðust hafa kunnað – eða vita af fólki sem kunni – þjóðfræðaefni sem gæti fyllt heilu bækurnar. Séra Sigurður Gunnarsson frá Desjarmýri (1812–1878) sagði t.d. í bréfi til Jóns Árnasonar að dætur hans kynnu nógu mikið af „kerlingasögum“ í stóra bók, þótt hann sendi honum ekki nema nokkrar arkir (Jón Árnason 1950: 281–282). Þá sagðist Jón Yngvaldsson (Ingjaldsson) á Nesi í Aðalreykjadal (1799–1876) hafa þekkt nóg af „alþýðlegum fornræðum“ til að setja saman tvær bækur, en hafi þó gleymt því flestu, líkt og haldið var að honum (Aðalheiður Guðmundsdóttir 1997: 211–212). Það er reyndar til skrá með hendi Friðriks, yfir það sem hann kallar „historias fabulosas“, eða skrá yfir skáldaðar, og þá líklega heldur ótrúlegar sögur, u.þ.b. frá árinu 1822, þ.e. þegar Friðrik hefur verið um tvítugt og talsvert fyrir tíma skipulagðrar þjóðsagnasöfnunar. Þótt sú skrá feli ekki í sér nein hundruð ævintýra, heldur einungis 27–28 sögur, er hún býsna merkileg heimild (Einar Ól. Sveinsson 1929: lxxv–lxxvi og Einar G. Pétursson 1991: 177). Það er reyndar erfitt að bera kennsl á sumar sögurnar. Fyrsta sagan er sögð vera bóksaga, en af titlunum að dæma gæti flest annað verið ævintýri, og mörg þeirra virðast eiga sér samsvörun í þekktum ævintýragerðum, a.m.k. að einhverju leyti, svo sem Einar Ól. Sveinsson hefur áður bent á, og merkt hefur verið með stjörnu í listanum hér að neðan.Skráin er prentuð í þýskri þýðingu í ævintýraskrá Einars Ól. Sveinssonar, Verzeichnis isländischer Märchenvarianten (1929: lxxv–lxxvi), og telur Einar Ólafur að flest ævintýrin eigi sér samsvörun annars staðar. Sum ævintýranna eru vel þekkt, s.s. ævintýrin um Lauphöfðu (e.t.v. sbr. AT 313 C), hestinn Gullskó (AT 328), Kisu kóngsdóttur (AT 711) og Viðfinnu Völufegri (AT 706), og titill sögunnar af Hildi þolinmóðu minnir á söguna af Gríshildi góðu (AT 887). Aðrar sögur eru af heldur óljósara efni.

Líkt og sjá má kennir hér ýmissa grasa. Forvitnilegir titlar eru t.d. Sagan af Hött, Sagan af græna drengnum, Sagan af drengnum sem sagðist heita Merumrass og Sagan af drengnum sem vakti upp kóngsmóðurina:

 

Lbs. 939 4to, 75v–76r. Registur yfir historias Fabulosas sem eg hefi bædi heyrt og kann i gleímsku samantínt

 

*Sagan af Hac. Norræna [ɔ: bóksaga. sed valde fabulosa. hann for til Sveíns kóngs i danmork og þádí heílrædí at honum. Þadadan til Englands og giỏrdi hỏll etc.]

Sagan. af Fortunatus. filii Theodori Italiensis [perqvam fabulosa]

*Sagan. af. Lauphỏfdu og Mána fỏdr helgu drottníngar -

*Sagan af.. Stiỏrnu meistaranum [sem ól upp barn þad sem hann fyri spádí i kotinu <–> á skógen<,> þegar hann reisti med kónginum <–> þad sem sidar vard drottning kóngs hvỏrt hann adr hafdi tekid af. foreldre þess. og skar þess hásinar]

Sagan. af Audun kóngi [sem Audurupp fostradi<.>fyri hannspadi Stiỏrnu meístari]

*Sagan. af Sigurdi og Vegvís -

Sagan af. Hỏtt. sem lék á kongin og dóttr hans [facile est barbato imponere regi]

*Sagan af hestinum Gullsko, og sverdi Sigurfiỏdr, [af þremur Þórum]

*Sagan af Kisu kongsdottur.

Sagan af blákapu græn. og Rauðkapum

Sagan af Ingibiỏrgu illu

Sagan af Flosagrimi Tóu

*Sagan af. Vidfijnu Volu fegri

Sagan af. dreingnum þeim sem alldrei vildi vera hia þeim húsbonda sem hræddist

Sagan af Ingi bjỏrg og Helgu sem voru hía Trỏllkonunni

*Sagan af prestinum sem aldrei vildi skyra nema á midvikud

*Sagan af kerlíngunni sem vann fyri drottninguna

Sagan af Græna dreníngnum  -

*Sagan af. Raud illa sem áttí Ingibiỏrgu fyrir dottr sem drottning vard

*Sagan af þremur kongssonum Þorsteini Sigurdi og Sigm sem soktu vatnid [ɔ: lifsins vatn handa fodr sinum]

Sagan af Sigurdi þeim sem giỏrdi undirgangin med Risonum,

*Sagan af prestinumm sem skollan veidd<i>

*Sagan af smidnum sem tók ur kongshúsinu og hans þremur Sonum

*Sagan af. dreingnum sem sagdist heita merumrass

*Sagan af Hlín. þeim sem feck. helgu karlsdóttir sem þegia átti fyrir trỏllskessonum

*Sagan af Hildi þolin módu [ɔ: þeirri sem helt á liosinu kongsins et<c. o>g. af drottn sem atti barn þad sem latid var i húsid þar sem þad æpti hia stulkunni en þessi hildr var sem af þvi tók þrädin -]

*Sagan af dreíngnum þeím sem vakti upp kóngsmódrina

 

Hefði Jón Árnason leitað til Friðriks Eggerz, eða kannski öllu heldur, hefði Friðrik þá orðið við beiðni Jóns, þrátt fyrir stirðleika milli hans og vina Jóns og tengdafólks, mætti ætla að þau ævintýri sem hér eru talin upp – og jafnvel fleiri – hefðu bæst við önnur ævintýri sem rekja mætti til Dalasýslu, og hugsanlega hefðu fylgt þeim upplýsingar um heimildarmenn Friðriks, eins minnugur og hann var. Það hefði munað um minna, og þótt framlag Friðriks samkvæmt varðveittri skrá hans hefði tæpast náð að koma Dalasýslu eða svæðinu umhverfis Breiðafjörð á kort meðal blómstursveita íslenskra ævintýra, hefði það líklega nægt til þess að koma í veg fyrir þann misskilning, sem sprottið gæti af fyrirliggjandi upplýsingum um fjölda heimildarmanna og þar með varðveitt ævintýri í safni Jóns Árnasonar, að íbúar þessara svæða hafi lítið verið gefnir fyrir ævintýri. Skráning ævintýra hefur með öðrum orðum verið tilviljunum háð og gloppur í tengslaneti Jóns Árnasonar virðast hafa valdið því að ævintýrin voru skráð eftir sumum sagnaþulum á meðan ævintýri karla og kerlinga í koti hér og þar féllu í ævarandi gleymsku.

Heimildir

Aðalheiður Guðmundsdóttir. 1997. (Ó)traustar heimildir. Um söfnun og útgáfu þjóðkvæða. Skáldskaparmál 4: 210–226.

 

Aðalheiður Guðmundsdóttir, ritstj. 2006. Íslensk ævintýri: Drög að skrá yfir útgefin ævintýri. Reykjavík.

 

Benedikt Gröndal. 1965. Dægradvöl. Reykjavík: Mál og menning.

 

Bjarni Einarsson. 1955. Munnmælasögur 17. aldar. Reykjavík: Hið íslenzka fræðafélag.

 

Dégh, Linda. 1989. Folktales and Society. Story-telling in a Hungarian Peasant Community. Bloomington and Indianapolis: Indiana University Press.

 

Driscoll, Matthew. 1997. The Unwashed Children of Eve. The Production, Dissemination and Reception of Popular Literature in Post-Reformation Iceland. Middlesex: Hisarlik Press.

 

Einar G. Pétursson. 1991. Úr syrpum séra Friðriks Eggerz. Breiðfirðingur 49: 168–178.

 

Einar Ól. Sveinsson. 1929. Verzeichnis isländischer Märchenvarianten. FF Communications 83. Helsinki: Academia Scientarium Fennica.

 

Einar Ól. Sveinsson. 1940. Um íslenzkar þjóðsögur. Reykjavík: Sjóður Margrétar Lehmann-Filhés.

 

Erna Eggerz. 1968. Friðrik Eggerz og séra Sigvaldi í sögu Jóns Thoroddsens. Tíminn, sunnudagsblað, 8. tbl. 3. mars.

 

Friðrik Eggerz. 1952. Úr fylgsnum fyrri aldar II. Útg. Jón Guðnason. Reykjavík: Iðunn.

 

Hallfreður Örn Eiríksson og Henning K. Sehmsdorf. 1999. Herdís Jónasdóttir: Tales from Húsafell, Iceland (1966–1967). All the Worldʼs Reward: Folktales Told by Five Scandinavian Storytellers. Ritstj. Reimund Kvideland og Henning K. Shemsdorf. Seattle og London: University of Washington Press.

 

Hallfreður Örn Eiríksson. 2012. Sögur úr Vesturheimi: Úr söfnunarleiðangri Hallfreðar Arnar Eiríkssonar og Olgu Maríu Franzdóttur um Kanada og Bandaríkin veturinn 1972–1973. Útg. Gísli Sigurðsson. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

 

Jón Árnason. 1861. Hugvekja um alþýðleg fornfræði. Íslendingur 2/12: 91–93.

 

Jón Árnason. 1864. Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri II. Leipzig: J.C. Hinrichs.

 

Jón Árnason. 1950. Úr fórum Jóns Árnasonar: Sendibréf I. Útg. Finnur Sigmundsson. Reykjavík: Hlaðbúð.

 

JÁ: Jón Árnason. 1954–1961. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri I–VI. Ný útg. Útg. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga.

 

Jón Guðnason. 1961. Dalamenn: æviskrár 1703–1961 I. Reykjavík: höf.

 

Jón Ólafsson. 1950. Um þá lærðu Vídalína. Merkir Íslendingar. Ævisögur og minningargreinar IV. Útg. Þorkell Jóhannsson. Reykjavík: Bókfellsútgáfan. Bls. 70–179.

Jónas Jónasson. 1961. Íslenzkir þjóðhættir. Útg. Einar Ól. Sveinsson. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja. [3. útg.]

 

Lord, Albert B. 1960. The Singer of Tales. Cambridge og London: Harvard University Press.

 

Maurer, Konrad. 1860. Isländische Volkssagen der Gegenwart vorwiegend nach mündlicher Überlieferung gesammelt und verdeutscht. Leipzig: J.C. Hinrichs.

 

Ólafur Davíðsson. 1888–1892. Íslenzkar skemtanir. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmentafélag.

 

Páll Eggert Ólason. 1949. Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940, II. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.

 

Páll Eggert Ólason. 1950. Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940, III. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.

 

Pálmi Pálsson. 1891. Æfiágrip Jóns Árnasonar landsbókavarðar. Andvari 17: 3–26.

 

Reynir Þór Eggertsson. 2006. The Griselda story: The transformation from ʻthe Patient Griseldaʼ to ʻGríshildur the Goodʼ in Icelandic Tradition. The Fantastic in Old Norse / Icelandic Literature. Sagas and the Brithis Isles I. The 13th International Saga Conference. Ritstj. John McKinnell, David Ashurst and Donata Kick. Durham: The Centre for Medieval and Renaissance Studies. Bls. 817–825.

 

Rósa Þorsteinsdóttir. 2011. Sagan upp á hvern mann. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Aðrar heimildir

Íslendingabók: http://www.islendingabok.is <skoðað 25. 3. 2013>

 

Manntalsvefur Þjóðskjalasafns Íslands: http://www.manntal.is/?#/?bla=MTg3MCtFaW5hciBFaW5hcnNzb247Ozs7Ozs7c2ltcGxlOzEw <skoðað 26. 3. 2013>

Handrit á Landsbókasafni Íslands-Háskólabókasafni

Lbs. 540 8vo

 

Lbs. 533 4to

Senda athugasemd

Netfangið þitt mun ekki verða sýnilegt á síðunni.

*

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>