Lagarfljót2 (1 of 1)

Hver tilheyrir svæði og landi?

Um svæðisvitund á Fljótsdalshéraði
Sæbjörg Freyja Gísladóttir
Meistaranemi í þjóðfræði.

Greinarkornið sem hér kemur á eftir er unnið upp úr verkefni í námskeiðinu Eigindlegar rannsóknaraðferðir II en lagað og betrumbætt svo hæfi vefmiðli líkt og Kreddum. Með þessari birtingu er ætlunin að kynna áhugaverða aðferð við að greina eigindleg gögn og sýna hvernig túlkandi fyrirbæraleg nálgun getur gagnast við að túlka og skilja orð eins viðmælanda. Viðmælandinn í þessu tilviki er bóndinn Hjörtur Kjerúlf frá Hrafnkelsstöðum á Fljótsdalshéraði en hann las yfir greinina og veitti mér góðfúslegt leyfi til að birta hana.

Túlkandi fyrirbæraleg nálgun felst í því að rannsakandi reynir að skilja hvernig viðmælendur, skilja ákveðna upplifun eða reynslu. Hlutverk rannsakanda er því að vera vakandi fyrir og spyrja um túlkun viðmælanda síns á upplifuninni og geta endurvarpað henni áfram í fræðilegum skrifum. Aðaláherslan liggur þó á viðmælandanum sjálfum og persónulegri reynslu hans en aðferðin á töluvert skylt við sálfræði. Þessi nálgun er ættuð frá heimspeki fyrirbærafræði (e. phenomonology) og túlkunarfræði (e. hermeneutics). Frá fyrirbærafræðinni kemur áherslan á það að skilja lifaða reynslu einstaklingsins. Með túlkunarfræðinni aftur á móti liggur þyngdarpunkturinn á því að vera greinandi en um leið túlkandi í rannsóknum á fólki. Ferlið felst þannig í því að rannsakandi gerir sitt besta til að skilja reynslu viðmælanda síns og vera málpípa hans þegar kemur að framsetningu á gögnunum.Shaw, Interpretative Phenomenological Analysis, bls. 177-201. Í upphafi eru lagðar fram rannsóknarspurningar fyrir gögnin, sem eru þá uppskrifað viðtal við Hjört og spurningarnar voru þessar: „Hvernig skilur Hjörtur umhverfi sitt og svæði, hvernig kynnir hann þennan skilning fyrir mér og hverjir tilheyra þessu svæði og/eða landinu?“

Margfaldur smáheimur

Þemað sem ég kalla hér margfaldan smáheim lýsir því hvernig Hjörtur afmarkar heim sinn og heimili á bóndabænum. Við hittumst á Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal þann 19. júlí 2012. Áður höfðum við átt ánægjuleg samtöl í gegnum síma af því að Hirti gafst aldrei almennilega tími til að taka á móti mér fyrir viðtal. Í þessum samtölum spjölluðum við til að mynda um heyskap og refaveiðar, þar sem það voru viðfangsefnin sem héldu bóndanum uppteknum. Ég legg yfirleitt ekki í vana minn að ganga á eftir mögulegum viðmælendum heldur leyfi þeim að „sleppa frá mér“ ef mér finnst þeir gefa vísbendingar um að vilja ekki hitta mig, en kunna þó ekki við að neita. Málið leit þó öðruvísi út með Hjört því þrátt fyrir að hann frestaði í sífellu fundartíma okkar þá bað hann mig alltaf um að hringja síðar, svo sem daginn eftir, eða tveim dögum seinna. Enda varð ég ekki svikin þegar við sammældumst loksins um tíma og hittumst þetta fimmtudagskvöld í júlí.

Hjörtur Kjerúlf er fæddur árið 1945 og hefur búið alla sína ævi á Hrafnkelsstöðum sem eru austan megin í Fljótsdal. Í uppvexti hans voru aðstæður fornfálegar eins og tíðkaðist víða, þar voru hvorki vélar, sími eða rafmagn og samgöngur erfiðar. Hjörtur hefur þó heldur betur tekið tæknina í sínar hendur í dag og þegar ég kom í heimsókn til hans stóð feiknastór heytætla rétt við hlaðið og ekki laust við að ég fengi nokkra glýju í augum yfir henni. Starf hans er því augljóslega að yrkja jörð sína í búskap en auk þess þá gegndi hann stöðu oddvita í sveitastjórn Fljótsdalshrepps um lengri tíma, eyðir refagrenjum í nágrenninu þegar þess er þörf og leiðsegir hreindýraveiðimönnum af og til. Líf hans er þannig nátengt náttúru og dýralífi nágrennisins sem varð mér augljóst þegar ég steig út úr bíl mínum á hlaði Hrafnkelsstaða og var fagnað af heimalingnum. Viðtökurnar voru ekki síður hlýlegar þegar inn var komið en þegar ég bankaði var einfaldlega kallað „komdu inn“ og rétt fyrir innan dyrnar mætti mér ofurlítill yrðlingur og gestir frá nágrannabænum. Lítil skil virðast vera á milli þess hvar veröld dýranna í lífi Hjartar endar og hvar heimur mannsins tekur við. En þessir tveir heimar eru þó ekki þeir einu sem fléttast þarna saman á hlaðinu í Fljótsdal.

Sumarið 2012 skein frægðarsól Hjartar ofurlítið og jafnvel út fyrir landssteinanna því hann náði ótrúlegu myndbandi af fyrirbæri sem gæti hafa verið Lagarfljótsormurinn.Hér má sjá umfjöllun bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar ABC um málið: http://www.youtube.com/watch?v=OCXWfi5I0qI Við Hjörtur spjölluðum aðeins um þessa veru og ég spurði hann jafnframt hvort einhverjar aðrar verur kenndar við þjóðtrú fyrirfinndust á svæðinu. Hann sagði mér þá nokkrar örnefnasögur úr nærumhverfinu og svæðinu, af huldufólki og öðru, og meðal annars þessa hérna:

Nú þjóðtrúin, það átti maður að hafa grafið gull undir steini hérna úti á norðurbyggðinni. Hann heitir Árnasteinn. Hann hét Árni þessi maður og þau eru einmitt frá þessum bæ fólkið sem ég rak út þegar þú komst. En það voru álög, þetta er svona álagasteinn. Það mátti ekki grafa eftir gullinu þá átti að kvikna í og brenna ofan af fjórum stærstu bændum í Fljótsdal. Og svo tekur sig nú til samt einhver og fer að grafa þarna undir steininn, og svo er honum litið upp úr og honum litið til bæjarins á Arnheiðarstöðum, þá sýnist honum hann standa í björtu báli. Og hann hætti að grafa og þá slokknaði eldurinn… Trúlega hefur nú bara sólin speglast í gluggunum, en þetta er nú svona, veruleikinn.Hjörtur Kjerúlf, bls. 5.

Nú er það vel þekkt innan þjóðsagnafræðinnar að þjóðsögur hafi gegnt því hlutverki að vera varnaðarsögur sagðar í þeim tilgangi að kenna fólki að bera virðingu fyrir umhverfi sínu. Þetta finnst mér skína í gegnum frásagnir Hjartar af yfirnáttúrulegum fyrirbærum í Fljótsdal. Hann útilokar ekki veraldlegar skýringar en afneitar samt ekki fyrirbærunum. Þegar hann kynnir nágranna sína fyrir mér og svæðið þá eru vættirnir og dularfull fyrirbrigði óaðskiljanlegur hluti af því. Þetta, sem og náið sambýli hans við náttúru og dýr, sýnir mér að hann sér umhverfi sitt ekki sem margar aðskiljanlegar einingar heldur frekar sem eina samhangandi heild.

Margfaldur alheimur

Seinna þemað í þessari umfjöllun sem ég kalla margfaldan alheim felur í sér tengingu Hjartar við hinn stóra heim fyrir utan bóndabæinn.

Eins og ég sýndi fram á hér að ofan þá túlka ég og skil orð Hjartar þannig að hann sjái nærumhverfi sitt og verur innan þess sem hluta af einni og sömu heild. Hjörtur hefur alltaf búið á sama stað en hann segir þó að heimurinn hafi minnkað mikið og til að mynda sé lítið mál í dag að hringja til Reykjavíkur, sem gat verið erfitt hér áður fyrr. Í samtali okkar um duldar vættir þá útilokaði Hjörtur ekki að slík trú fyrirfyndist einnig í öðrum löndum og væri þannig ekki bara bundin við Ísland. Ef þetta er sett í samhengi við það sem ég skrifaði hér að ofan, þá má skilja orð Hjartar sem svo, að þar sem heimurinn í kringum bóndabæ hans er hugsanlega margfaldur og þá er ekkert því til fyrirstöðu að aðrir smáheimar séu það ekki líka. Þetta viðhorf kom enn frekar í ljós þegar tal okkar barst að innflytjendum og íslensku þjóðerni en um það segir Hjörtur:

Ég held að, og er alveg sannfærður um það, að Íslendingar … þeim líðst það ekki að einoka, til að mynda, þessar auðlindir okkar. Þetta verður svona, á eftir að verða nokkurskonar alþjóðavæðing, alheimsvæðing. Tel ég vera. Það getur ekkert hver, einhver bara smá hópur fólks setið á einhverjum miklum auðlindum og látið aðra sitja hjá sveltandi og, og þurfandi og sveltandi… Og hvað ætti eiginlega að geta, hvað ætti eiginlega að geta orðið til þess að við gætum setið á okkar, á Íslandi og látið sem að við værum bara ein í heiminum og- það væri voðalega gott ef við værum, ef við værum nógu rík og hefðum nógar auðlindir. Ha? Það er kannski hluti af þjóðernishyggjunni.Hjörtur Kjerúlf, bls. 14.

… heimurinn breytist svo hratt núna, þetta verður bara eins og ein þjóð. Heimurinn verður bara ein þjóð eftir tiltölulegan skamman tíma.Hjörtur Kjerúlf, bls. 18.

Þarna kemur í ljós sama viðhorf gagnvart erlendu fólki og smáheimunum yfirnáttúrulegu í kringum Hrafnkelsstaði. Hjörtur sér heiminn að hluta til án landamæra, bæði milli heima og landa og það sem er mikilvægt er því fyrst og fremst að lifa í sátt og samlyndi með hinum; við getum ekki látið eins og við séum ein í heiminum, eins og Hjörtur sagði. Með því að segja að Íslendingum muni ekki líðast að einoka auðlindir sínar virðist ennfremur koma fram hinn gamli boðskapur þjóðsagnanna; ef þú hjálpar ekki þeim sem eru hjálpar þurfi þá hefnist þér fyrir.

Rökin fyrir heimssýn Hjartar um einn allsherjar kosmos voru síðan gerð naglföst í viðtalinu þegar við fórum að ræða um stjórnmálaflokka. Þetta kom mér nokkuð á óvart, að heimsýnin sem ég hef lýst hér að ofan skyldi birtast svona skýrt og greinilega í samhengi við þetta umræðuefni en svo fór þó samt:

En, mér fannst sko að á sínum tíma að Framsóknarflokkurinn með sitt samhjálpartryggingarkerfi. Væri eitthvað sem að hugnaðist mér. Samvinna, sko samvinna! Að vera ekki að berjast einn eins og hérna, eitthvert villidýr úti í skógi.Hjörtur Kjerúlf, bls. 10.

Það er alveg greinilegt að Hjörtur lítur svo á að heimurinn er ekki einfaldur staður heldur með mörgum víddum og að allir deila þessari jörð saman. Hvort sem um ræðir mennska menn af allskonar þjóðernum, yfirnáttúrulegar verur eða tamin dýr, allir eru hlekkir í sömu keðju.

Heimildir

Hjörtur Kjerúlf. SFG 12,18. Viðtal Sæbjargar Freyju Gísladóttur við Hjört Kjerúlf þann 19. júlí 2012. Viðtalið er varðveitt á Miðstöð munnlegrar sögu, Landsbókasafni.

Shaw, Rachel. QM3: Interpretative Phenomenological Analysis. Í Doing Qualitative Research in Psychology. Michael Forrester ritstj. Los Angeles, London og New Delhi: Sage Publications, 2010, bls. 177-201.

Senda athugasemd

Netfangið þitt mun ekki verða sýnilegt á síðunni.

*

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>