Hvað eru þjóðfræðinemar að gera í sumar?

Kreddur

Þjóðfræðinemar hafa nú flestir losað sig undan oki prófanna og eru þotnir galvaskir af stað til að takast á við viðfangsefni sumarsins. Okkur langar til að kynna þau fyrir ykkur á næstu mánuðum, sem og verkefnin sem þau eru að takast á við, og óskum þeim jafnframt velfarnaðar í leik og starfi. 

Sæbjörg Freyja Gísladóttir, meistaranemi

sumar 2013Sumarstyrkur frá Nýsköpunarsjóði námsmanna fyrir verkefni sem kallast Karlmennska í 100 ár: Birtingarmyndir karlmennsku í ljósmyndum frá 1914-2014.

„Sumarið hjá mér felst í því að sitja inni á Héraðsskjalasafni Austfirðinga og Héraðsskjalasafni Ísfirðinga og skoða ljósmyndir af karlmönnum frá byrjun og ca. miðju 20. aldar. Tilgangurinn með því er að skoða líkamsstöðu karlmanna frá þessum tímabilum mikilla samfélagsbreytinga, en samkvæmt rannsóknum Valdimars Hafstein og annarra fræðimanna, þótti alls ekki töff að standa eins um miðja öldina og hafði verið gert í byrjun hennar. Hugmyndir um karlmennsku eru síbreytilegar og mótast af hverjum stað og tíma og þessar hugmyndir ætla ég að greina í gegnum ljósmyndir. Verkefnið snýst líka um að ég fari út um víðan völl og taki myndir af mönnum á förnum vegi. Þær myndir ætla ég að bera saman við hinar eldri og sjá hvort einhver munur er á. Lokaafurð verkefnisins verður síðan lítil ljósmyndasýning með afrakstri sumarsins en hún verður fyrst sett upp á Ísafirði og fer þaðan bæði til Reykjavíkur og Egilsstaða. Ástæðan fyrir því að ég vil vinna svona verkefni er sú að hugmyndir um hvað þykir karlmannlegt, alveg eins og hugmyndir um hvað er kvenlegt, eru ekki steyptar í stein og eins á öllum stöðum og innan allra hópa eins og margir gætu haldið. Þeir menn sem gætu talist vera karlmannlegri en aðrir eru líka tæplega til, þar sem þeir eru oftar en ekki tilbúnar ímyndir sem móta svo hugmyndir annarra um hvað er karlmannlegt, eins og til dæmis kvikmyndastjörnur og aðrar söguhetjur. Sama á við um konur. Aukinn skilningur á þessu gæti hugsanlega verið lóð á vogarskálar jafnréttisbaráttunnar….eða það má allavega leyfa sér að vona það.“

Dagný Hulda Valbergsdóttir, BA nemi

Dagný HuldaDagný verður leiðsögumaður í fullu starfi á Árbæjarsafni. Þar mun hún kynna íslenska menningu fyrir ferðamönnum, jafnt erlendum sem samlöndum hennar. Kynningin verður bæði í orði og í verki því hún verður klædd íslenska búningnum og mun því falla inn í umhverfi safnsins.