the mask

Grímuklæddi grallarinn

Greining á kvikmyndinni The Mask í ljósi norrænnar goðafræði
Hrefna Rún Kristinsdóttir

Það er ljóst að alls staðar sem mannlíf þrífst, þar dafnar þjóðfræðin. Fagið teygir anga sína inn í heim nútíma myndmiðla og sjónvarpsefnis, þó að það sé fjöldaframleitt afþreyingarefni þá eru venjulegir einstaklingar á bak við tjöldin og hugmyndaheimur þeirra hlýtur á einhvern hátt að endurspeglast í því efni sem gefið er út. Kvikmyndin The Mask er þar engin undantekning.

Mynd 1

The Mask kom út árið 1994 undir leikstjórn Chuck Russell. Jim Carrey fer með aðalhlutverkið en önnur stór hlutverk eru í höndum Cameron Diaz, Peter Greene, Richard Jeni, Peter Riegert og Amy Yasbeck (The Mask). Aðalsöguhetjan, Stanley Ipkiss, býr ein með hundinum sínum og er almennur bankastarfsmaður, bilgjarn og bældur. Af tilviljun finnur hann dularfulla grímu og setur hana upp. Við það breytist hann í skrípafífl, grænt í framan, sem enginn kemst upp með að beita yfirgangi. Honum verða engin takmörk sett, ekki einu sinni af eðlisfræðilegum lögmálum raunveruleikans. Svo virðist sem að gríman hjálpi hans innra sjálfi að brjótist fram með stórkostlegum hætti. Þegar Ipkiss ráðfærir sig við sérfræðing á sviði grímna kemur í ljós að gríman á tengsl við norræna goðið Loka. Svo fer að gríman kemur Ipkiss í klandur með öfgafenginni hegðun sinni, en allt fer þó vel að lokum (Engelman og Russell, 1994).

Mynd 2

Mynd 2

Grímur og gervi eru fyrirbæri sem hafa hlotið verðskuldaða athygli innan skyldra faga þjóðfræðinnar. Grímur hafa að öllum líkindum verið notaðar til hátíðabrigða frá steinöld og hafa m.a. miklar fornleifar fundist á norðlægum slóðum sem renna stoðum undir þá staðhæfingu (Gunnell, 2007: 29). Ýmis nærtæk dæmi sýna fram á að grímuskemmtanir hafi löngum verið stundaðar hér á landi, eins og heilleg trégríma sem fannst við Stóruborg undir Eyjafjöllum og er líklega frá 16. öld. Er hún sennilega sú elsta sem fundist hefur á Norðurlöndunum (Gunnell, 1995: 146) og er ekki ósvipuð grímunni í The Mask (sjá myndir 1 og 2).

Gríman er merkileg fyrir margar sakir, bæði sem hlutur og hugtak. Með því einu að setja upp grímu er grundvallar leiklist framin, eins og Richard Southern benti á (1968). Þegar ég set upp grímu er ég komin í annað hlutverk en mitt eigið og verð tímabundið að framandi persónu sem sker sig frá sjónarvottum sínum á meðan þeir taka sér ytri stöðu áhorfenda (Southern, 1968, 28–32).

Terry Gunnell hefur skrifað um það hvernig hinn grímuklæddi kemst í ákveðna valdastöðu með því að fela raunverulega andlitsdrætti sína (Gunnell, 2007: 28). Með notkun grímunnar getur áður stöðugur hversdagur hlotið jaðareinkenni leikja og kennimerki hátíðlegrar ringulreiðar (e. carnival) (Gunnell, 2007: 30; Bakhtin, 1984: 9–12, 276 og 370–371). Manni er það ljóst um leið og maður mætir einhverjum grímuklæddum að ekki er allt með felldu. Það á við í tilfelli The Mask, enda eru eiginleikar grímunnar þar stórkostlegri en gengur og gerist.

Yfirnáttúrulegt eðli umræddrar grímu er útskýrt þegar fram kemur að líklega eigi hún tilurð sína að rekja til Ásgarðs og hins brögðótta Loka. Að minni vitund er engin frásögn til í fornritum um að Loki eigi grímu og því myndu margir halda því fram að þarna væri um svokallaða gerviþjóðfræði (e. fakelore) að ræða (Dorson, 1959; Gunnella og Koven, 2011: 187–200). Eins og Gunnella Þorgeirsdóttir og Mikel Koven hafa fært rök fyrir má alltaf brúa bilið á milli gerviþjóðfræði og ,,ekta“ þjóðfræði í nútíma afþreyingarefni t.a.m. með hugtakinu sjónvarpsþjóðfræði eða televisual folklore (Gunnella og Koven, 2011: 190). Með tilkomu The Mask hefur tenging á milli Loka og grímunnar orðið til. Skýringin á göldrum grímunnar er beintengd hugmyndum um hrekkjóttan guð og er persónuleiki Loka tilvalinn til að byggja á.

Loki telst til svokallaðra bragðarefa, sem hafa verið taldir til erkitýpa í alþýðusögnum og kvikmyndum hvaðan sem er úr heiminum. Erkitýpurnar eru: hetjan, lærifaðirinn, vörðurinn, boðberinn, hamskiptirinn, skugginn og grallarinn/bragðarefurinn (e. the hero, mentor, threshold guardian, herald, shapeshifter, shadow og trickster) (Cambell, 2004; Vogler, 1997: 49–101). Af þessum erkitýpum, eða erkipersónum, hefur fræðimönnum reynst sérstaklega erfitt að staðsetja bragðarefinn á lyndiseinkunnaskalanum. Í minnaskrám finnast fjölmörg minni sem útskýra fjölbreytta hegðun hans (Clinton, 2005: 472). Í grein um bragðarefi reynir Esther Clinton að varpa ljósi á sameiginleg eðliseinkenni bragðarefa og hefst greinin svo: ,,The term trickster, when used by social scientists, refers to more than simply a deceptive character. Tricksters are destroyers and creators, heroes and villains, often even both male and female“ (Clinton, 2005: 472). Lýsingin er eins og sniðin fyrir norræna guðinn Loka (sjá til dæmis söguna um borgarsmiðinn (Snorri Sturluson, 1954: 60–63)).

Loki hefur ætíð verið lastaður og tignaður til skiptis. Líkt og flestir bragðarefir er hann ekki beinlínis illur, en þó bæði brögðóttur og uppátækjasamur sem kemur honum og öðrum gjarnan í klípu. Í Gylfaginningu Snorra Sturlusonar segir svona frá Loka:

Sá er enn talðr með ásum, sumir kalla rógbera ásanna ok frumkveða flærðanna ok vömm allra goða bauta jötuns. […] Loki er fríðr ok fagr sýnum, illr í skaplyndi, mjök fjölbreytinn at háttum. Hann hafði þá speki um fram aðra menn, er slægð heitir, ok vélar til allra hluta. Hann kom ásum jafnan í fullt vandræði, ok oft leysti hann þá með vélræðum (Snorri Sturluson, 1954: 46).

Loki er enginn fyrirmyndarguð, en þegar hann veldur vandræðum þá gerir hann það sem hann getur til að leysa þau aftur. Á eftir lýsingunni fylgja frásagnir úr Ásgarði og nágrenni, m.a. af ódæðum Loka og einnig segja sumar frá fórnfýsi hans. Saga sem segir frá greiðvikni Loka er t.d. sú í Skáldskaparmálum af því þegar jötunninn Þjasi var drepinn og dóttir hans, Skaði, fór til Ásgarðs í hefndarhug. Til að ná sáttum fékk hún að velja sér mann úr röðum Ása auk þess sem Loki lauk því erfiða verkefni að hlægja hana. Það gerði hann með því að binda geitarskegg við hreðjar sínar þannig að ískraði bæði í honum og geitinni. Þegar Loki féll á hnén eftir hamaganginn hló Skaði (Snorri Sturluson, 1954: 100).

Loki er ekki aðeins bragðarefur í goðsagnaheiminum, heldur má segja að hann hafi hlotið sess við hlið Kalla kanínu, Bart Simpson, Jack Sparrow og annarra bragðarefa í nútíma myndmiðlum. Birtingamyndir hans má finna í ýmsu afþreyingarefni. Sumstaðar er nákvæmlega byggt á frásögnum fornrita, en annarsstaðar er tengingin lauslegri, eins og í sci-fi þáttunum Stargate, þar sem Loki kemur fram sem gráleit geimvera sem stundar ósamþykktar tilraunir á manneskjum (Loki – Stargate Wiki). Einnig hafa verið gerðar japanskar myndasögur og þáttaseríur um Loka í hlutverki einhvers konar goðsagnaspæjara (e. mythical detective) sem sinnir verkefni á jörðu niðri eftir að hann var sendur þangað í útlegð (Mythical Detective Loki Ragnarok). Í kvikmyndinni Erik the Viking eftir Terry Jones er Loki ekkert nema illa til hafður svikahrappur og í myndasögunum og kvikmyndunum frá Marvel er Loki einskært illmenni, prýtt djöfullegum hornum, sem reynir meðvitað að valda glundroða í heiminum (Loki: Comics). Í þáttunum Supernatural er Loki (eða the Trickster/Gabriel) þorpari sem þó býður fram hjálparhönd sína í baráttunni gegn heimsendi (Kripke og Bota, 2010).

Það má lengi deila um það hvort Loki sé raunar skúrkur, en að mínu mati er það fremur hvatvísi sem háir honum. Evan A. Lieberman er á sama máli, en hann bendir á að Loki virðist ekki hugsa verknaði sína til enda né ráða alveg við þá og hann þurfi að leggja mikið á sig til að valda ekki eigin tortímingu með gjörðum sínum (Lieberman, 1994: 21). Þetta passar við þá mynd sem dregin er upp af Loka í Snorra Eddu og einnig í dönsku myndasögunum og teiknimyndinni Valhalla (Mastrup, Madsen og Varab, 1986) og ekki síst í kvikmyndinni sem hér er til athugunar, The Mask.

Mynd 3

Mynd 3

Þegar Stanley Ipkiss setur upp grímu Loka verða á honum mikilfenglegar breytingar. Útlit hans og fas verður afar litríkt og er hið sjónræna gildi myndarinnar er gífurlegt (e.t.v. vegna þess að hún er gerð eftir teiknimyndasögum). Áður en Ipkiss setur upp grímuna í kvikmyndinni kemur fram að hann er mikill teiknimyndaunnandi. Nokkrir hlutir í íbúð hans benda til þess og einnig sést hann njóta teiknimyndar um úlf (eftir teiknarann Tex Avery) og hafa gaman að framferði hans. Úr verður að þegar hið innra sjálf Ipkiss brýst út í gegnum grímuna líkist hann fyrrnefndum teiknimyndaúlfi mikið í hegðun, ekki síst þegar kemur að rómantík. Á einum tímapunkti breytist jafnvel höfuðlag Ipkiss og verður eins og á téðum úlfi. Þarna á sér stað krosstextaverkun, eða textatengsl (e. intertextuality) þar sem heilmikið er vitnað í teiknimyndina, bæði beint (brot sýnd úr henni) og óbeint (Ipkiss sýnir sömu takta og teiknimyndapersónurnar). Sem dæmi um þetta eru myndir 3 og 4, sem báðar eiga sér stað í bíómyndinni, önnur á sjónvarpsskjá Ipkiss en hin hjá honum sjálfum.

Mynd 4

Mynd 4

Eins og áður sagði er myndin litskrúðug og gefur það heildarútliti hennar ævintýralegan blæ. Greiningar Bengts Holbæks um sameiginlega eiginleika ævintýra sem gengið hafa í munnlegri hefð (Holbek, 1987: 405) hafa þær Pauline Greenhill og Sidney Eve Matrix yfirfært yfir á greiningu ævintýrakvikmynda:

First, fairy tales are told by “skilled specialists” ([Holbek,] 1998, 405), not by everyday tellers, a characteristic that underlines the place of fairy tale film […] as a recognizable fairy tale variation. Second, they are texts appreciated primarily by “the lower… strata of traditional communities,” […] (Ibid.). Fairy tale film, too, with a few exceptions, is associated with contemporary popular culture, rather than with elite art. Third, fairy tales “are told by and for adults. Children may listen… but they are not the primary audience” (Ibid). […]. Fourth, “male and female repertoires differ” (Ibid.). Holbek suggests that men “prefer masculine fairy tales, whereas women’s repertoires are more evenly distributed” […] Though male film auteurs overwhelmingly outnumber females, we argue that women directors’ versions of fairy tales […] make gendered statements that qualitatively differ from those of men. Fifth, fairy tales are viewed as fictional, and storytellers and audiences “identify themselves with the heroes or heroines of the tales” (Ibid.). In sum “fairytales [provide] a means of collective daydreaming” (Greenhill og Matrix, 2010: 4).

Sé fyrsti liðurinn skoðaður með tilliti til myndarinnar er ljóst að hinu mikla sjónarspili sem hún býður uppá gæti enginn sögumaður slegið við með munnlegri frásögn. Annan liðinn þarf varla að tíunda frekar, en popp-menningin skín í gegn alla myndina fram yfir ,,hámenninguna“. Þrátt fyrir þetta á þriðji liðurinn einnig við hér, þar sem kvikmyndin er ekki ætluð börnum, en það er þó margt í fari hennar sem laðar að unga áhorfendur (eins og litadýrð og töfrabrögð). Fjórða liðinn er erfitt að ákvarða fyrir eina kvikmynd, sérstaklega þar sem leikstjórinn er karlmaður, en fimmta liðinn þarf ekki að færa frekari rök fyrir; það er auðséð að sagan er skáldskapur og áhorfendur taka henni sem slíkri. Síðasta setning efnisgreinarinnar á svo kannski sérstaklega vel við í þessu tilfelli; að ævintýrið veiti okkur tækifæri til að njóta sameiginlegra dagdrauma, sem við gerum vissulega þegar lítilmagninn rís upp úr athafnaleysi sínu með yfirnáttúrulegum hætti, sigrast á ,,drekanum“ og eignast ,,prinsessuna“.

Þar sem aðalsöguhetjan er bæði lítilmagni og bragðarefur er virkni áhorfsins margslungin (Clinton, 2005: 474). Að fylgjast með bragðarefnum brjóta reglur og hegða sér á skjön við viðurkennda hegðun veitir okkur ákveðna útrás fyrir eigin löngun til þess. En bragðarefurinn kemst aldrei upp með framferði sitt, heldur hlýtur einhverskonar refsingu fyrir og þannig er áhorfandinn einnig minntur á mikilvægi þess að virða reglur samfélagsins, skrifaðar og óskrifaðar (Clinton, 2005: 474).

Heimildir

Prentað efni

Bakhtin, Mikhail. (1984). Rabelais and his world. Bloomington: Indiana University Press.

 

Cambell, Joseph. (2004). The Hero with a Thousand Faces. New Jersey: Princeton University Press. (Upphaflega gefið út 1949).

 

Clinton, Esther. (2005). The Trickster: Various Motifs. Í Jane Garry og Hasan El-Shamy (ritsjt.), Archetypes and Motifs in Folklore and Literature: A Handbook. (472–479). New York og London: M.E. Sharpe.

 

Davidson, H.R. Ellis. (1979). Loki and Saxo’s Hamlet. Í Paul V.A. Willliams (ritstj.). The Fool and the Trickster: Studies in Honour of Enid Welsford (3–18). Cambridge og Totowa: D.S. Brewer og Roman & Littlefield.

 

Dorson, Richard. (1959). American Folklore. Chicago: University of Chicago Press.

 

Greenhill, Pauline; Matrix, Sidney Eve. (2010). Introduction: Envisioning Ambiguity: Fairy Tale Films. Í Greenhill, Pauline; Matrix, Sidney Eve (ritstj.). Fairy Tale Films: Visions of Ambiguity. Logan, Utah: Utah State University Press.

 

Gunnell, Terry. (2007). Introduction. Í Gunnell, Terry (ritsj.). Masks and Mumming in the Nordic Area. Uppsala: Kungl. Gustav Adolfs Akademien för svensk folkkultur.

 

Gunnell, Terry. (1995). Origins of Drama in Scandinavia. Cambridge og Rochester: Brewer/Boydel & Brewer.

 

Gunnella Þorgeirsdóttir; Koven, Mikel. (2011). Televisual Folklore: Rescuing Supernatural From the Fakelore Realm. Í Stacey Abbott og David Lavery (ritsj.), TV Goes to Hell: An Unofficial Roadmap of Supernatural (187–200). Toronto: ECW Press.

 

Holbek, Bengt. (1998). Interpretation of Fairy Tales: Danish Folklore in a European Perspective. Helsinki: Academia Scientarium Fennica. (Upphaflega gefið út 1987).

 

Lieberman, Evan A. (1994). Charlie the Trickster. Journal of Film and Video, 46. árgangur, 3. tölublað, 16–28.

 

Snorri Sturluson. (1954). Snorra Edda. Guðni Jónsson bjó til prentunar. Akureyri: Íslendingasagnaútgáfan.

 

Southern, Richard. (1968). The Seven Ages of the Theatre. London: Faber.

 

Vogler Christopher. (1997). Ferð höfundarins; hugmyndaheimur goðsagna í kvikmyndum og skáldskap. Sigurgeir Orri Sigurgeirsson þýddi. Reykjavík: Mál og mynd.

Óprentað efni

Mythical Detective Loki Ragnarok. Sótt þann 1. apríl, 2013 af: http://www.animenewsnetwork.com/encyclopedia/anime.php?id=75

 

The Mask. Sótt þann 28. mars, 2013 af: http://www.imdb.com/title/tt0110475/

 

Engelman, Bob (framl.) og Russell, Chuck (leikstj.). (1994). The Mask. Milwaukie: New Line Cinema/Dark Horse Entertainment.

 

Kripke, Eric (framl.) og Bota, Rick (leikstj.). (2010). Supernatural (Hammer of the Gods). U.S.: Warner Bros. Television/Wonderland Sound and Vision.

 

Loki; Comics. Sótt þann 2. apríl, 2013 af: http://marvel.com/comics/characters/1009407/loki

 

Mastrup, Anders (framl.) og Madsen, Peter; Varab, Jeffrey J. (leikstj.). (1986). Valhalla. København: Metronome.

 

Loki – Stargate Wiki. Sótt þann 1. apríl, 2013 af: http://stargate.wikia.com/wiki/Loki

Myndir

Titilmynd:
Ray’s World. (2013). Sótt þann 20. febrúar, 2013 af: http://raysworld12.blogspot.com/2013/01/my-50-favorite-comic-book-movies-mask.html

 

Mynd 1: Gríman frá Stóruborg:
Gunnell, Terry. (1995). Origins of Drama in Scandinavia. Cambridge og Rochester: Brewer/Boydel & Brewer. Bls 146.

 

Mynd 2: Ipkiss og Dr. Neuman með grímu Loka:
IMDb (Internet Movie Database). (1990–2012). Sótt þann 28. mars, 2013 af: http://www.imdb.com/media/rm2090842624/tt0110475?ref_=tt_pv_md_1

 

Mynd 3: Úlfurinn með augun á stilkum:
Mama Pop. (2013). Sótt þann 31. mars, 2013 af: http://www.mamapop.com/2010/11/top-ten-retractable-objects-in-movies.html

 

Mynd 4: Ipkiss með augun á stilkum:
Groucho Reviews. (2000–2013). Sótt þann 31. mars, 2013 af: http://www.grouchoreviews.com/reviews/3292

Senda athugasemd

Netfangið þitt mun ekki verða sýnilegt á síðunni.

*

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>