Föstudagskvöldið 4.október

Pöbbaspurningar um dollarakalla og fagur söngur
Sigurlaug Dagsdóttir
Meistaranemi í þjóðfræði

Síðastliðið föstudagskvöld hittust fagrir þjóðfræðingar og þjóðfræðinemar af öllum stærðum og gerðum og fögnuðu upphafi vetrarstarfs Félags Þjóðfræðinga. Ég var svo heppin að fá að njóta samvista þessa fagra hóps þessa kvöldstund og er enn að jafna mig á spurningum um sjálfstæðisborgarstjóra Reykjavíkur. Kvöldið átti í smá byrjunarerfileikum þar sem skemmtistaðurinn sem átti að hýsa þennan viðburð hafði tvíbókað sig og við blasti óþekkt og einkennileg dýrategund (viðskiptafræðinemar) þegar þjóðfræðinganna dreif að. Í stað þess að taka þá áhættu að þjóðfræðinemar yrðu kapitalískri hugsun að bráð þá reddaði stjórn Félags Þjóðfræðinga umsvifalaust öðrum stað og þar tók gleðin völdin. Bjór var veittur af miklum metnaði af barþjóni Ölsmiðjunnar og eftir kynningu á metnaðarfullri dagskrá vetrarins hjá Félagi Þjóðfræðinga þreyttum við pöbbaspurningakeppni sem stýrt var af hinum víðfrægu pöbbaspekingum og þjóðfræðingum. Tryggva og Óla. Eftir að spurt hafði verið um allskyns hluti t.d. bláleita bæjarstjóra, bæjarnöfn, kalla á dollaraseðlum og opnunartíma sundlauga Reykjavíkur, lauk keppninni með glæstum sigri eða 17 stigum sigurliðsins. Eitthvað var það haft í flimtingum að þetta hefði verið svínslega erfitt en þar sem þjóðfræðingar er afskaplega gáfulegt fólk þá fór þetta allt saman vel að lokum. Síðan tók við spjall og hópurinn hóf að lokum upp raust sína og tók að syngja en það er algengur fylgikvilli þjóðfræðinema að verða söngvin þegar líða tekur á kvöldið. Eflaust hafa aðrir gestir Ölsmiðjunnar orðið þess varir þegar fagrar englaraddir tóku að óma í fimmunda útgáfu á Krummavísum (sem reyndar var umdeilt hvort að væri ekki frekar eins og níund eða jafnvel bara tugund) en þegar Maístjarnan tók að hljóma hafa flestir sjálfsagt tárast af einskærri gleði. Slíkur var tilfinningahitinn og innlifunin. Eftir þetta tók hópurinn að sundrast í allar áttir eins og vill verða við enda slíkra gleðistunda en gestir Ölsmiðjunnar sem eftir sátu hafa eflaust keypt vel á barnum, svo uppnumdir voru þeir af samvistum við þennan söngglaða og fagra hóp.

Dagskráin hjá Félagi Þjóðfræðinga er glæsileg á alla kanta og framundan eru snilldarlegir viðburðir sem vert er að sækja. Má nefna að 11.október verður Valdimarsvaka þar sem Valdimar Hafstein mun kynna Evrópusamtök þjóðfræðinga, SIEF og 16. Október verður Gísli Sigurðsson með fyrirlestur um fornar bækur. Við fögnum starfi Félags Þjóðfræðinga og hafi þau ævarandi þökk fyrir skemmtilegt upphafskvölds þessa vetrar.

Sigurlaug Dagsdóttir