EinarOrn_Ghostigital

„Málið er ekki hvað maður getur, heldur hvað maður gerir“

Farvegur pönkara til fullorðinsára
Snjólaug G. Jóhannesdóttir
Þjóðfræðingur og MA-nemi í þjóðfræði.

Smelltu hér til að fá greinina á PDF formi.

Inngangur

Snemma á síðastliðnu ári mátti lesa í helstu fréttamiðlum landsins, að Heiðursverðlaun hinna íslensku tónlistaverðlauna árið 2015 hefðu fallið í skaut hljómsveitarinnar Sykurmolanna. Bíddu, er það ekki bara einhverjum gamlingjum úr hinni menningarlegu elítu sem hlotnast slíkur heiður, hugsaði ég með mér þegar ég las fréttina, en ekki einhverjir róttækir pönkarar? Hljómsveitin var raunar ekki eiginleg pönkhljómsveit en einhverjir meðlimir hennar voru þó yfirlýstir pönkarar. Þau eru að vísu ekki nein unglömb lengur og þar af leiðandi varla áhangendur unglingamenningar eins og pönkið var, eða hvað? Tímabili unglingsáranna fylgir oft uppreisn gegn valdi foreldranna og viðteknum gildum samfélagsins, auk þess sem margir unglingar eru móttækilegir fyrir ýmsum nýjungum. Það er því oftar en ekki að þegar einstaklingar leita í jaðarmenningarhópa, eins og pönkið, þá gerist það á þessum mótunarárum unglingsins. Hvað gerist svo þegar unglingurinn verður fullorðinn? Heldur hann tryggð við þá menningu sem hann aðhylltist á unglingsárum eða lætur hann af bernskubrekum og „fullorðnast“?

Til að leita svara við þessum spurningum var rætt við Einar Örn Benediktsson, einn meðlima Sykurmolanna, sem ungur aðhylltist menningarkima pönksins og margir tengja hann við upphafsár þess hér á landi. Farið er yfir feril hans og fengið hans persónubundna viðhorf innan úr heimi jaðarmenningar og kannað hvort og hvernig hann hefur aðlagað unglingamenningu sína að fullorðinsárunum. Niðurstöður úr einstaklingsviðtali sem þessu er ekki hægt að alhæfa um né yfirfæra á aðra, því þær sýna einungis persónulega aðkomu viðmælandans að menningarkimanum (Félagsvísindastofnun, 2014).

Einar Örn er nú kominn á miðjan aldur, í sambúð og faðir þriggja drengja, sem eru fæddir á árunum 1992–2001. Hann hefur víða komið við í þjóðlífinu, meðal annars í menningu þess, viðskiptum og stjórnmálum. Áður en sagt verður frá því, sem fram kom í viðtalinu, verður skoðað hvað felst í hugtakinu jaðarmenning og greint frá upphafi pönksins til að fá hugmynd um þá veröld sem viðmælandi var þáttakandi í.

EinarOrn_Ghostigital

Mynd 1.

Jaðarmenning

Einföld útskýring á fyrirbærinu jaðarmenning liggur í skilningi orðsins, menning sem er fyrir utan eða á jaðri viðtekinnar menningar sérhvers samfélags. Slíkir menningarkimar hafa verið rannsóknarefni í gegnum tíðina en skilningur og merking hugtaksins hefur ekki ætíð verið hin sama. Meðal fyrstu rannsókna á menningarkimum, sem kenndar eru við háskólann í Chicago, miðuðu út frá því að jaðarmenning væri félagslegt fyrirbæri sem þyrfti að bæta og koma í lag. Talið var að jaðarmenningarhópar yrðu til við ákveðnar félagslegar aðstæður sem meðal annars leiddu til afbrota og glæpa. Jaðarmenning var því samkvæmt þessum skilningi frávik (e.deviance) frá viðteknum gildum samfélagsins og því sem var talið eðlilegt (Haenfler, 2014:3–7). Með frávikshugtakinu er vísað til félagslegra viðmiða og reglna sem samfélagið setur okkur (Becker, 1963).

Þær miklu þjóðfélagsbreytingar, sem urðu í kjölfarið á seinni heimstyrjöldinni, lögðu grunn að nýjum rannsóknum á menningu ungmenna. Í tengslum við háskólann í Birmingham fengust margir fræðimenn við slíkar rannsóknir, þar á meðal á ýmsum dæmigerðum jaðarmenningarhópum ungmenna. Eins og í fyrri rannsóknum gengu þessir fræðimenn út frá þeirri hugmynd að jaðarmenning væri félagslegt fyrirbæri sem þeir síðan töldu bundna í þjóðfélagsstéttir. Þeir rannsökuðu aðallega unga karlmenn úr verkalýðsstétt og töldu að menningarkimar yrðu einkum til vegna andspyrnu ungmenna gegn ríkjandi forystu ráðandi afla þjóðfélagsins (Haenfler, 2014:7). Pönkmenningin var meðal annars viðfangsefni þessara rannsókna, sem eins og fyrri rannsóknir gengu út frá því að þar færi jaðarfyrirbæri sem væri frávik frá norminu (Davis, 2006:64).

Helsta gagnrýnin sem hefur komið á þær rannsóknir, sem hér hafa verið nefndar, og eru kenndar við háskólana í Chicago og Birmingham, er að þær þóttu einblína of mikið á félagsleg vandamál, þjóðfélagsstéttir og horfðu of mikið til ungra karlkynsmeðlima hópanna.  Þrátt fyrir ýmsa ágalla hafa þessar rannsóknir orðið grunnur að áframhaldandi rannsóknum á menningarkimum, en með nýjum og breyttum áherslum. Í seinni tíma rannsóknum hefur sjónarhorninu í auknum mæli verið beint að innviðum menningarkimanna með því að skoða þá innanfrá með augum meðlima þeirra (Haenfler, 2014:7–14) eins og hér er gert.

Sú þróun, sem hefur verið á rannsóknum og skilningi á hugtakinu jaðarmenning, gefur ekki af sér endanlega skilgreiningu á hugtakinu, auk þess sem fræðimenn eru ekki allir á eitt sáttir um hvað og hverjir teljist til menningarkima. Ross Haenfler (2014:16) notast við þá skilgreiningu í bók sinni Subcultures: the basics að jaðarmenning sé félagslegur hópur, sem hefur sameiginlega sjálfsmynd, sem er í andstöðu við og aðgreinir sig frá viðtekinni menningu samfélags á grundvelli gilda og athafna. Þessi skilgreining á jaðarhópum innifelur einnig félagslegt frávik en gefur möguleika á að telja fullorðna einstaklinga til þeirra. Nýrri rannsóknir hafa sýnt fram á að margir þeir sem aðhyllast jaðarmenningu á unglingsárum halda tryggð við hana langt inn í fullorðinsár (Bennett, 2013). Það er öfugt við fyrri tíma rannsóknir, sem gengu út frá því að meðlimir jaðarhópa, eins og pönksins, ættu ekki möguleika á öðru en að eldast út úr menningarkimanum (Davis, 2006:64).

Joanna R. Davis hefur unnið rannsókn á því hvort og hvernig einstaklingum tekst að vera áfram pönkarar þegar þeir fullorðnast. Margir hverjir stöðnuðu í hlutverki unglings á meðan aðrir settu skil á milli pönkarans í sjálfum sér og annarrar þátttöku í samfélaginu. Einstaklingum sem tókst einna best að vera áfram pönkarar og halda í þau persónueinkenni sín á fullorðinsárum, hafði tekist að afla sér lífsviðurværis tengdu pönkinu. Þetta voru einstaklingar, sem höfðu átt góðu gengi að fagna í viðskiptum og voru nokkurs konar „goðsögn“ á meðal jafningja og einnig einstaklingar sem fundu sér starfsvettvang innan tónlistarheims pönksins (Davis, 2006:63–69). Sá einstaklingur, sem hér er rætt við, hefur alla möguleika á því að teljast til síðastnefnda hópsins. Hann er þekktur í samfélaginu sem pönkari og hefur skapað sér vettvang í tónlistarlífinu sem og viðskiptum tengdum pönkinu.

Pönk

Pönkmenningin, sem viðmælandinn aðhylltist á unglingsárum, er borgarmenning sem þróaðist bæði í New York og London sem menningarkimi ungmenna. Þetta var jaðarmenning sem var tengd uppreisn gegn ríkjandi gildum, anarkisma og ákveðnum stíl í fatnaði og tónlist. Rætur pönksins liggja í þessum borgum en dreifðust síðan víða um heim. Helsti munurinn á pönkmenningunni í þessum tveimur borgum var sú að í New York var hún tengdari listum og meiri dópneyslu en í Bretlandi (Davis, 2006:64; SJ&AC-1, 2015). Þegar breska pönkið kom fram var það á tímum mikils atvinnuleysis og þjóðfélagsóróa og því nátengt óánægju og svartsýni ungs fólks úr verkamannastétt á framtíðina. Í erlendum fréttamiðlum var dregin upp sú mynd af pönkinu að það væri lágmenning tengd rudda- og sóðaskap. Útlit pönkara stakk í augun  á góðborgurum og hegðun þeirra þótti hneykslanleg. Töluvert fjölmiðlafár skapaðist í kringum menningarkimann, sem náði inn á síður íslenskra fréttablaða (Unnur María Bergsveinsdóttir, 2015:3–14).

Stanley Cohen (2002 [1972]) hafði í rannsóknum sínum á jaðarmenningarhópum beint sjónum sínum að viðbrögðum almennings gagnvart þeim. Hann þróaði skilgreiningu á hugtakinu siðafár (e. moral panic) til að útskýra hvernig fjölmiðlaumræðan snerist um ógn sem stafaði frá menningarkimum. Ógninni var hrundið af stað með þjóðarskelfum (e. folk devils) og viðbrögð fólks mögnuðu upp hættuna. Siðafárið gat síðan leitt af sér samfélagsbreytingar eða óttinn dvínaði samhliða því sem fárið fjaraði út. Pönkarar voru slíkir þjóðarskelfar, þar sem þeir þóttu ógna samfélagslegum gildum, sem var trúlega langt umfram það sem efni stóð til um, en síðan fjaraði hræðslan við þá út, enda hurfu þeir smám saman af sjónarsviðinu. Viðbrögð og ótti samfélagsins er sjaldan í réttu hlutfalli við raunverulega ógn eða hættu sem skapast í siðafári.

Þrátt fyrir neikvæða umræðu um pönk í íslenskum sem og erlendum fjölmiðlum nam það hér land eða kannski varð þessi neikvæða umræða til þess að vekja áhuga ungmenna á þessum menningarkima. Framan af var pönkið þó einungis til í fámennum hópi sérviturra ungmenna höfuðborgarsvæðisins, en allt fram á sumarið 1980 var það í hugum flestra talið vera eitthvað sem var bara til í útlöndum (Unnur María Bergsveinsdóttir, 2015:1). Íslensk pönkmenning var aldrei tengd svartsýni á framtíðina á sama hátt og í Bretlandi, því hér var lítið um atvinnuleysi og framtíðarhorfur ungmenna hinar ágætustu (Unnur María Bergsveinsdóttir, 2015:21). Pönkið var þó róttækt hér sem annars staðar, það var uppreisn gegn foreldrum og tónlistarbransanum (SJ&AC-1, 2015) og laðaðist Einar Örn snemma að menningarkimanum og telst til hins fámenna hóps sérviturra ungmenna borgarinnar.

Ungur pönkari

Einar Örn segist hafa heyrt fyrst af pönki þegar hann var úti í garði við heimili sitt á Meistaravöllunum og einhver sagði honum frá söngvaranum með grænu tennurnar. Það hafði verið frétt í Dagblaðinu um Johnny Rotten, söngvara The Sex Pistols, sem sagði: „Til dæmis eru tennur hans grænar, – hann nennir ekki að bursta þær“ (Ásgeir Tómasson, 1977:7). Þessi frétt vakti forvitni Einars Arnar og áhuga á að vita eitthvað meira um pönkið. Árið 1977 dvaldi hann sumarlangt í London hjá föður sínum, sem þá bjó þar. Tíma sínum í London eyddi Einar Örn í að leita uppi pönkara meðal annars á Kings Road en þar var þá fatabúð í eigu Malcolm McLaren, sem seldi tískuvarning fyrir pönkara. Einar Örn segir að ekki hafi verið aftur snúið þegar heim var komið, pönkmenningin hafði náð tökum á honum. Hann var meðal þeirra fyrstu hér á landi til að tileinka sér þá menningu og var nánast sá eini í vesturbæ Reykjavíkur. Einari Erni leið þó aldrei sem hann væri utanveltu eða útundan, pönkið varð bara hans menning þó svo að nánustu vinir hans tileinkuðu sér hana ekki líka. Einhverjir pönkarar voru þó í öðrum hlutum höfuðborgarsvæðisins en Einar Örn segist ekki hafa sóst neitt sérstaklega eftir félagsskap þeirra því pönkið hafi ekki verið fjöldamenning, það hafi komið heldur seinna með kvikmyndinni Rokk í Reykjavík (SJ&AC-1:2015).

Í fyrstu snerist pönkið um tónlistina, klæðnaðinn og stutta hárið, sem oft var aflitað, segir Einar Örn. Klæðnaður og útlit pönkara var mjög áberandi og þótti róttækt sem og flest annað tengt menningarkimanum. Eitt af helstu einkunnarorðum þeirra: gerðu það sjálfur (e. DIY: Do it yourself), tengist þeirri hugmyndafræði pönksins að allt sé í raun mögulegt og ýtir undir sjálfsbjargarviðleitni einstaklingsins. Pönkarar skreyttu því og breyttu fatnaði sínum sjálfir, sem var iðulega „secondhand“.  Í Bretlandi var einkennandi á meðal pönkara að karlar máluðu sig um augun og sumir hverjir voru síðan barðir fyrir að líta út eins og þeir gerðu. Einar Örn segist þó aldrei hafa verið laminn, því „það fylgir því ekki að vera róttækur að vera laminn“ (SJ&AC-1, 2015). Varð hann þá strax róttækur sem pönkari? „Ef pönk var róttækt, já þá var ég róttækur. Ég var öðruvísi en vinir mínir uh.. í útliti“ (SJ&AC-1, 2015). Hinn róttæki stíll pönkara varð Dick Hebdige (1979) að rannsóknarefni en hann tók meðal annars fyrir hvernig jaðarmenningarhópar tóku hluti úr sínu menningarlega samhengi og settu annan skilning í þá. Þekkt dæmi um slíkt eru öryggisnælur sem pönkarar notuðu sem skraut með því að stinga þeim til dæmis í eyrun, nefið eða varirnar. Sérstæður stíll jaðarmenningarhópa þjónaði tvennum tilgangi að mati Hebdige. Það var til að skapa þeim sérstöðu og búa til ákveðna sjálfsmynd á hópinn sem og að aðgreina þá frá „venjulegu“ fólki eða öðrum jaðarmenningarhópum.

Tónlistin var veigamikill þáttur í pönkmenningunni og það var ekki hvað síst hún sem dró Einar Örn til sín. Hann hafði verið leitandi í tónlist og hlustað á það sama og vinir hans en fann sig ekki í þeirri tónlist. Aftur á móti höfðaði pönktónlistin til hans og hann lét sér ekki nægja hlustun heldur hóf fljótlega sinn eigin tónlistarferil. Um pönktónlistina segir Einar Örn: „Þetta var andstæðan við vandaða tónlist, þetta var óvandað, það var allt látið flakka“ (SJ&AC-1, 2015). Með tónlist sinni sneru pönkarar á hið félagslega vald menningarinnar og létu listsköpun sína ekki stjórnast af því sem aðrir sögðu að væri list. Í gegnum menningarsöguna hafa valdhafar reynt að móta atferli fólks og notað listir og menningu sem tæki til að lyfta siðmenningunni upp á það sem þeir telja æðra plan (Bennett, 1998). Pönkarar létu sér fátt um finnast, sköpunin skipti þá meira máli. Þeir gerðu uppreisn gegn valdhöfum með listsköpun sinni, enda þótti hegðun þeirra og atferli utan við hið samfélagslega viðmið.

Ferill Einars Arnar í tónlistarlífinu hófst í Purrki Pillnikk, síðan var hann í Kukli og seinna Sykurmolunum. Meðfram þessu var hann einnig umboðsmaður Utangarðsmanna með Bubba Morthens innanborðs. Það kom að þeim tímapunkti á ferli Purrks Pillnikks að þeim félögunum fannst kominn tími til að gefa út hljómplötu með tónlist sinni en þeir höfðu framan af ferlinum einungis spilað á tónleikum. Undirbúningurinn var settur í gang, þeir æfðu tíu lög á einum degi og tóku þau síðan upp daginn eftir. Næsta skref var að fá einhvern til að gefa plötuna út og hafði Einar Örn samband við Ásmund Jónsson hjá Fálkanum til að fá þá til að sjá um útgáfuna. Ásmundur kom með þá hugmynd að þeir myndu sjálfir gefa plötuna út og stofna í leiðinni óháða plötuútgáfu. Það varð síðan niðurstaðan og Grammið var stofnað af þeim Ásmundi og Einari Erni auk tveggja annarra. Grammið var í fyrstu aðeins hljómplötuútgáfa, sem gaf meðal annars seinna út tónlist Megasar og Bubba Morthens. Í kjölfarið bættist við innflutningur á erlendri pönktónlist og var lítil hljómplötuverslun tengd starfsemi fyrirtækisins. Sjálfsbjargarviðleitnin fann sér farveg og hljómplötuútgáfan var í þeirra höndum. Þeir gerðu það sjálfir, en þó ekki hjálparlaust, því Einar Örn segir að Ásmundur hafi komið með ómetanlega þekkingu og reynslu inn í fyrirtækið og án hans hefði þetta aldrei tekist (SJ&AC-1, 2015).

Þegar kvikmyndin Rokk í Reykjavík kom út var pönkið í raun að fjara út og við tók það sem Einar Örn kallar NÍT eða ný íslensk tónlist, sem var annars konar tónlistarþróun. Á þeim tímapunkti voru Purrkur Pillnikk hættir, sem og Utangarðsmenn. Hjá Einari Erni tók við nám í fjölmiðlafræði, sem hann stundaði í Bretlandi á árunum 1983–87. Hann sinnti þó áfram tónlistinni og við tók tónlistarferill með hljómsveitinni Kukli. Í gegnum veru sína í Bretlandi og sem pönkari tengdist Einar Örn inn í „anarko-pönksenuna“ þar í landi og segist hann hafa verið í hjarta hennar á námstímanum. Þeir félagarnir í Kukli spiluðu meðal annars á tónleikum með hörðustu anarkó-pönkurunum, sem voru í hljómsveitunum Crass og Flux of Pink Indians. Árið 1984 tók hljómsveitin Kukl auk þess þátt í tónleikaferðalagi til styrktar námuverka-mönnum, sem þá voru í löngu verkfalli (SJ&AC-1, 2015). Á þessum tíma var Einar Örn þegar farinn að taka pólitíska afstöðu opinberlega ásamt félögum sínum í Kukli, en hann kom að íslenskum stjórnmálum seinna á lífsleiðinni sem borgarfulltrúi Besta flokksins í Reykjavík.

Þegar námsdvölinni í Bretlandi lauk fóru gamlir félagar að hittast reglulega á nýjan leik:

Við erum við að endurraða okkur saman í raun og veru, þá er ég búinn að vera úti að læra […] og Bragi að koma heim frá Spáni og Frikki að koma heim frá Akureyri uh.. og við vorum með samkomustað heima hjá Björk og Þór og vorum svona bara að kynnast aftur. Við ákváðum að stofna Smekkleysu uh.. þá byrjuðum við að tengja saman í raun og veru pönk og það sem að Þór var að gera gegnum Medúsu, sem voru súrrelistarnir uh.. og þá verður samsuða í raun og veru af pönk og súrrealisma, í Smekkleysu (SJ&AC-1, 2015).

Útgáfufyrirtækið Smekkleysa leysti af hólmi Grammið, sem hafði þá einhverju áður orðið gjaldþrota. Hugsjónin með stofnun Smekkleysu var að enginn gæti í raun sagt öðrum til um hvað væri góður smekkur. „Það er það sem allt okkar kerfi gengur út á uh.. erum að gera eins og við mögulega getum. […] Góður smekkur drepur sköpun“ (SJ&AC-1, 2015). Samkvæmt kenningum Pierre Bourdieu eru fagurfræðilegur og listrænn smekkur fólks ekki náttúrugáfa heldur er hann ómeðvitað félagslega numinn og mótaður.  Félagslegur uppruni er veigamikill þáttur í þessari mótun (Bordieu, 2007:34), en með hugmyndafræði sinni hafna þau í Smekkleysu að þeirra bakgrunnur og listsköpun sé eitthvað óæðri en sú sem er almennt viðurkennd sem æðri list í samfélaginu.

Markmið Smekkleysu var „Heimsyfirráð eða dauði“ og til að ná því markmiði var ákveðið að stofna hljómsveit og árið 1986  litu Sykurmolarnir dagsins ljós. Hljómsveitin náði heimsfrægð og gríðarlegum vinsældum, sérstaklega erlendis, en hún var starfrækt allt til ársins 1992 (SJ&AC-1, 2015). Þátttaka Einars Arnar í pönktónlistinni, sem og þeirri tónlist sem tók við í Sykurmolunum, leiddu hann ungan inn í stofnun fyrirtækja. Hann var pönkari á hraðri leið inn í heim hinna fullorðnu og snemma farinn að fást við verkefni fullorðinsáranna. Það gefur auga leiða að lífsreynslan sem hann öðlaðist úr menningarkima pönksins hefur haft áhrif á þroskaferil og mótun hans sem einstaklings.

Purrkur Pillnikk stops Timinn August 1982

Mynd 2.

Fullorðinn pönkari

Á unglingsárum sínum var Einar Örn sýnilegur pönkari eins og hér hefur komið fram, því hann tileinkaði sér klæðaburð þeirra og stíl og var öðruvísi í útliti en flest önnur ungmenni í nærumhverfi sínu. Fullorðinn einstaklingur getur dregið úr útlitseinkennum, sem einkenna jaðarhópinn sem hann aðhyllist, þannig að hann verði ekki lengur sýnilegur meðlimur hópsins. Einnig getur þátttaka hans orðið minni en áður en það er ekki þar með sagt að hann hafi yfirgefið senuna. Menningarkiminn snýst þá fremur um lífsstíl en útliti (Bennett, 2006; Haenfler, 2012:13). Það er til dæmis ekki hægt að sjá á klæðnaði Einars Arnar að hann sé ennþá pönkari, það eina sem mætti benda á sem pönkeinkenni í útliti hans er lítill eyrnalokkur á vinstra eyra. Hver er þá staða Einars Arnar núna, þegar hann er kominn á miðjan aldur? Er hann ennþá pönkari í hjartanu? „Já ég er pönkari, það er lífsviðhorf. […] Get ekki útskýrt, en það mótar mig.[…] Hef ekkert breytt því, það er ekkert sem ég get breytt“ (SJ&AC-1, 2015).  Það er lífsviðhorfið úr pönkinu, sem hann tileinkaði sér ungur, sem skilgreinir hann sem pönkara í dag en útlitslega er fátt sem minnir á pönkið. Einar Örn hefur þó sinn eigin fatastíl, eins og svo margir aðrir, sem er frjálslegur og frekar óhefðbundinn.

Skilgreining Einars Arnar á pönkinu og það sem mótar hvað mest lífsviðhorf hans kemur úr einkunnarorðunum DIY eða gerðu það sjálfur. Það er fyrst og fremst sjálfsbjargarviðleitin og áherslan á einstaklinginn, sem skiptir hann máli. Það eru hans lífsgildi, og foreldrar sem tilheyra einhverjum menningarkima, sem og allir aðrir foreldrar, deila sínum gildum til barna sinna (Haenfler, 2014:153). Einar Örn er þar enginn undantekning, því óhjákvæmilega lita hans lífsgildi það sem hann leggur til í uppeldi sonanna. „Hvernig hagarðu þér gagnvart börnum þínum? Þá er það eins og þú vilt að aðrir hagi sér. […] Maður reynir að vera mannlegur og vinna út frá þessum mannlegu gildum, sem pönkarinn myndi segja að gleymast“ (SJ&AC-1, 2015). Einar Örn segist ekki hafa „keyrt ofan í þá litteratúr eða myndbönd og sagt sjáið þetta er ég“ (SJ&AC-1, 2015). Tónlistarsköpun föðurins er ekki þvingað upp á þá heldur er sjálfstæði einstaklingsins haft að leiðarljósi. Þrátt fyrir að allir synirnir hafi hlotið tónlistarkennslu þá er áhuginn einungis hjá þeim elsta og hann studdur í því sem hann er að fást við í tónlistarlífinu. Yngri synirnir tveir hafa aftur á móti lítinn áhuga á tónlistinni þó þeir geti spilað á hljóðfæri. „Það er bara okkur foreldrunum að kenna […] Það eru sjö ár á milli og við gátum einbeitt okkur að honum [elsta syninum] fyrst, ætli við höfum svo ekki misst fókusinn […] náðum ekki að ala þá upp rétt“ (SJ&AC-1, 2015) sagði Einar Örn og hló.

Eitt af því sem fylgir ábyrgð fullorðinsáranna er að búa sér og fjölskyldu sinni heimili. Staðalmyndir af pönkurum ná sjaldan svo langt að sjá þá í því hlutverki en einhverjar hugmyndir virðist fólk hafa um hvað sé eðlileg búseta fyrir þá. Einar Örn tók dæmi um viðhorf fólks til þess: „Ef þú ert pönkari, af hverju byggirðu þitt eigið hús? Af hverju býrðu í Grafarvoginum, en ekki í miðbænum? Þá get ég alveg svarað því. Ef pönk er jaðar, hvar bý ég? Á jaðrinum“ (SJ&AC-1, 2015). Hann telur sig ekki vera að svíkja pönkhugsjónina þó hann hafi valið að búa sér og fjölskyldu sinni heimili í úthverfi og byggja sitt eigið hús heldur beri það vott um sjálfstæði, þó hann viðurkenni að það sé smáborgaralegt. „Að vera pönkari er ekki ávísun á að láta sér líða illa […] heldur hvernig þú vilt skapa þinn eigin heim“ (SJ&AC-1, 2015).

Einar Örn sinnir ennþá listsköpun í gegnum tónlist en hefur einnig fengist við myndlist og hélt sína fyrstu myndlistarsýningu í nóvember árið 2014. Tónlistin er þó það sem hann er hvað þekktastur fyrir og er hann í tveggja manna teymi ásamt Curver Thoroddsen í  Ghostigital. Einar Örn telur listsköpun þeirra í Ghostigital vera jafn „organíska“ og tónlist Purrks Pillnikk, hljómsveit sem var með hefðbundnum hljóðfærum og röddum á meðan Ghostigital er tölva, það er „elektróník“ og rödd. Það sem þeir félagar í Ghostigital eru að gera „er ákveðin sköpun uh.. annað listform. Við erum að skapa situation, við erum að vinna með momentið. […] Þó við séum búnir að semja grunninn þá æfum við ekki útkomuna“ (SJ&AC-1, 2015). Þar sem þeir æfa sig ekki vita þeir aldrei nákvæmlega hver útkoman verður. Flutningur verka þeirra á tónleikum er því nokkurs konar óvissuferð, bæði fyrir þá sjálfa sem og áheyrendur. Einar Örn segist ekki vera „söngvari eða tónlistarmaður. Ég er performer, uh.. flytjandi“ (SJ&AC-1, 2015). Performansinn er aðalmálið á tónleikum Ghostigital: „Ég er sagnaþulur, ég er að segja sögur af því sem er að koma fyrir mig og því sem kemur upp í hugann og reyna að koma því frá mér, alveg eins og ég var að gera í Purrki Pillnikk“ (SJ&AC-1, 2015). Hann segist láta hugsanir sínar flæða út: „hugsanir sem við hugsum en gleymum svo og hugsum svo aftur. Hvað var ég aftur að hugsa, hvað ætlaði ég að gera? […] Hversdagslegir hlutir sem við gleymum, en sem kæta mann ofsa mikið“ (SJ&AC-1, 2015). Slíkan performans upplifir Einar Örn sem pönk.

Þegar fólk eldist kemur á það krafa úr samfélaginu að sýna þann virðuleika í allri framkomu og hegðun, sem aldur þess gefur til kynna. Það er til dæmis ekki talið við hæfi að fullorðið fólk hagi sér eins og unglingar (Haenfler, 2013:143). Sviðsframkoma Einars Arnar á tónleikum Ghostigital minnir óneitanlega á þegar hann var miklu yngri að koma fram með Purrki Pillnikk. Hann virðist komast upp með það, án þess að nokkur sé að fetta fingur út í það. Það getur verið að viðhorfið til frelsis einstaklingsins til listsköpunar og tjáningar sé annað en hvernig ætlast er til að fólk hagi sér í daglegu lífi. Einar Örn nefndi að hann hitti stundum fólk, sem yrði undrandi á því hversu rólegur hann er í fasi og framkomu, því það hefði myndað sér allt aðra skoðun á honum, byggða á sviðsframkomu hans og trúlega einnig litað af einhverri staðalímynd sem það hefur af pönkara (SJ&AC-1, 2015).

Stjórnmálamenn eru ekki heldur beint staðalímynd af pönkara en eins og fyrr segir tók Einar Örn sæti eitt kjörtímabil sem borgarfulltrúi fyrir Besta flokkinn, ásamt nokkrum öðrum, sem hafa einnig verið bendlaðir við pönkmenninguna. Á seinni hluta pönktímabilsins var pönkið mjög pólitískt og hljómsveitir eins og Buzzcocks og Crass voru til dæmis með mjög pólitíska texta og tóku afstöðu til ýmissa mála. Slíkir textar voru áhrifavaldar á áhangendur hljómsveitanna, sem hvöttu einstaklinga til að taka afstöðu en ekki sitja bara aðgerðarlaus hjá. Eins og fyrr segir var Einar Örn snemma byrjaður að taka pólitíska afstöðu, líkt og þegar Kuklið fór í tónleikaferð til styrktar námuverkamönnum í Bretlandi. Hann telur pönkið hafa verið mjög góðan grunn inn í pólitíkina og að margir mættu tileinka sér eitt frægasta slagorð hljómsveitarinnar Crass: Fight war, not wars, um að við eigum að berjast gegn stríðum en ekki vera í stöðugu stríði (SJ&AC-1, 2015).

Þrátt fyrir að hafa tekið sæti fyrir Besta flokkinn gekk Einar Örn aldrei í flokkinn né er hann skráður í nein önnur félagasamtök. Stjórnmálaflokkar eru hlaðnir gildum, sem einstaklingar síðan tileinka sér, en gildi Einars Arnar snúa að honum sem einstaklingi sem hann vinnur síðan úr með öðrum. „Mér finnst skrýtið að fólk geti sett sig svona í ákveðna skóla hugsunar. Þegar pönkið segir að allt sé mögulegt, uh.. þá snýst það ekki um ákveðinn skóla hugsunar“ (SJ&AC-1, 2015).  Einar Örn er samkvæmur pönkaranum í sjálfum sér þegar hann kemur að pólitíkinni sem einstaklingur, með einstaklingsmiðaða hugmyndafræði þeirra að leiðarljósi. Þrátt fyrir að vera ekki lengur borgarfulltrúi hefur hann þó ennþá pólitískar skoðanir og liggur ekki á þeim. Hann deilir þeim nú út á þann hátt sem honum lætur best í gegnum listina en á síðasta ári gáfu þeir félagar í Ghostigital út lagið Ekki mín ríkisstjórn, sem er mjög pólitískt eins og nafnið sjálft gefur til kynna.

Sykurmolarnir

Það hefur mikið vatn runnið til sjávar frá því að Einar Örn heyrði fyrst af söngvaranum með grænu tennurnar og hann komið víða við í þjóðlífinu eins og hér hefur komið fram. Stofnun Smekkleysu leiddi af sér Sykurmolana, hljómsveit sem gat sér heimsfrægðar og samanstóð meðal annars af pönkurum og súrrealistum. Það er óhætt að segja að það hafi orðið töluverðar viðhorfsbreytingar til gömlu pönkaranna þegar Sykurmolarnir hlutu heiðursverðlaun hinna íslensku tónlistarverðlauna á síðastliðnu ári, einn mesta virðingarvott sem íslenskum tónlistarmönnum getur hlotnast. Einar Örn var inntur að því hvað honum fyndist um slíkan heiður: „Það er bara þannig að menning og listir hafa því hlutverki að gegna að varpa nýju ljósi á möguleikana. Held ég. Þetta er það tól, sem hjálpar okkur hvað best að skapa eitthvað nýtt og breyta“ (SJ&AC-1, 2015). Hann benti á að menning væri sýnileg á meðan ýmis rannsóknarstörf til dæmis á sviði læknisfræði væru það ekki. „Þú sérð ekki stökkbreytingu á genum […] en þú getur séð nýtt málverk og heyrt nýtt lag.  Og það er bara í raun og veru í eðli lista og sköpunar að varpa nýju ljósi. […] Það er ferli sem fer í gang, sem fer í hvaða átt sem er“ (SJ&AC-1, 2015). Sykurmolarnir voru sambræðingur af einstaklingum úr ýmsum áttum, sem gerðu nýja hluti. „Síðan gerist það bara í raun og veru að með því að setja eitthvað fram þá venstu því uh.. og þá skaparðu ný viðmið“ (SJ&AC-1, 2015). Með nýjum viðmiðum lögðu þau sitt af mörkum í að hafa áhrif á fagurfræðilegan og listrænan smekk fólks, sem hefur nú verið viðurkenndur af samfélaginu.[1]

Einar Örn segist eiginlega vera mest undrandi á því hversu langan tíma það hefur tekið að meta að verðleikum það sem þau í Sykurmolunum gerðu fyrir íslenskt menningarlíf. Hann benti á að menningin hefði auk þess verið vanmetin í gegnum tíðina. Um aldamótin síðustu var hann fenginn í aldamótarýnihóp, þar sem fóru fram umræður á nokkrum 10 til 12 manna borðum um ímynd Íslands. Í lok umræðunnar stóð upp talsmaður frá hverju borði og sagði frá niðurstöðum hvers hóps. „Það var enginn af þeim, sem sagði að það er útaf menningunni sem ímynd Íslands hefur breyst. […] Drógu fram annað […]  Spassky og Fischer uh.. Reagan og Gorbatjov“ (SJ&AC-1, 2015). Fundargestir voru sammála um að sjálfsmynd þjóðarinnar hefði breyst „en það var enginn sem sagði að var menningin per se uh.. sem hefði verið drifkraftur í að modernisera hvernig útlendingar sæju Ísland, uh.. fatta í raun og veru, uh.. viðurkenna það“ (SJ&AC-1, 2015). Sjálfur telur Einar Örn menninguna hafa verið veigamikla í viðhorfsbreytingu á ímynd Íslands, því árin „1986, 1987 þá kemur menningarfyrirbæri sem heitir Sykurmolarnir, sem komu Íslandi á kortið menningarlega og kastaði okkur fram í svona nútímavæðingu á menningu“ (SJ&AC-1, 2015). Nú mörgum árum seinna heimsækja landið fjöldinn allur af ferðamönnum, sem koma hingað gagngert á hinar ýmsu tónlistarhátíðir landsins. Íslensk tónlist er í það minnsta komin á kort erlendra ferðamanna, á því er enginn efi.

Að lokum

„Málið er ekki hvað maður getur, heldur hvað maður gerir“ (Magnús Gylfi, 1981:22) eru fleyg orð höfð eftir Einari Erni þegar hann var rétt innan við tvítugt og eru mjög lýsandi fyrir lífsgildi hans enn í dag. Hann hefur haldið tryggð við menningarkimann, sem hann aðhylltist ungur án þess þó að festast í hlutverki unglingsins. Það var ungur leitandi strákur úr vesturbænum, sem fann sinn farveg í pönkinu og vera hans í London snemma á pönktímabilinu auðveldaði það. Í byrjun voru það sýnileg einkenni og tónlistin, sem löðuðu hann til sín, en síðan bættust við hugsjónin og lífsgildin, sem er það sem stendur upp úr í dag, ásamt tónlistinni.

Lífsviðurværi Einars Arnar hefur að einhverju leyti tengst pönkinu, þó ekki sé nema einungis fyrir það að hann er þekktur sem yfirlýstur pönkari. Tónlistin, útgáfan og umboðsmennskan er allt beintengt pönkinu. Heiðursverðlaunin, sem Sykurmolarnir hlutu nú í ársbyrjun, sýnir viðurkenningu samfélagsins á listsköpun þeirra og áhrifum á íslenskt tónlistarlíf. Stjórnmálaþátttaka Einars Arnar tengist einnig pönkinu, þar sem lífsgildin og reynslan, sem hann tók með sér, voru eðlilega hluti af aðkomu hans í þau. Þetta styður við niðurstöður Davis um að þeim einstaklingum, sem tekst hvað best að vera áfram pönkarar þegar þeir eldast, eru einmitt þeir sem finna leið til að afla sér lífsviðurværis í gegnum pönkið.

Einar Örn hefur tekist á við hlutverk og ábyrgð fullorðinsáranna án þess að yfirgefa pönksenuna. Sviðsframkoma hans á tónleikum hefur lítið breyst, á þeim vettvangi hefur hann ekki látið af bernskubrekunum. Uppreisnarandinn hefur ekki heldur yfirgefið hann því hann er ekki sáttur við að aðrir setji honum fyrir hugsanir né skoðanir. Einstaklingsmiðuð hugsjón með sjálfsbjargarviðleitni og framtaksemi að vopni hefur verið hans leið inn í heim fullorðinna.

Heimildir

Einkaskjöl:

SJ-AC-1. (2015). Viðtal Snjólaugar G. Jóhannesdóttur og Áslaugar Heiðar Cassata við Einar Örn Benediktsson 3. mars 2015. Uppkast af handriti og upptaka í vörslu höfundar.

Unnur María Bergsveinsdóttir. (2015). Gestafyrirlestur um pönk í tíma í Ómenningu þann 26. febrúar 2015. Afrit fyrirlestursins í vörslu höfundar.

Prentaðar heimildir:

Ásgeir Tómasson. (1977, 5. janúar). „Sex Pistols á Heathrow-flugvelli“. Dagblaðið, 7.

Becker, H.S. (1963). Outsiders: Studies in the sociology of deviance. New York: The Free Press.

Bennett, A. (2006). „„Punks not Dead“: The Significance og Punk Rock for an Older Generation of fans“. Sociology 40 (1): 219–35.

Bennett, A. (2013). Music, Style, and Aging: Growing Old Disgracefully? Philadelphia, PA: Temple University Press.

Bennett, Tony. (1998). Culture: A Reformer´s Science. London, Thousand Oaks og New Delhi: SAGE Puplications.

Cohen, Stanley. (2002). Folk Devils and Moral Panics: The Creation of the Mods and the Rockers. London: Routledge. (Upphaflega gefin út 1972).

Davis,  Joanna R. (2006). „Growing Up Punk: Negotiating Aging Identity in a Local Music Scene“. Symbolic Interaction, 29 (1), 63–69.

Félagsvísindastofnun, Háskóli Íslands. (2014). Aðferðir. Sótt 7. apríl 2015: http://fel.hi.is/adferdir

Haenfler, Ross. (2012). „„More Than the X´s on My Hands“: Older Straight Edgers and the Meaning of Style“. Í P. Hodkinson og A. Bennett (ritstj.), Ageing and  Youth Cultures: Music, Style and Identity. (9-23). London og New York: Berg.

Haenfler, Ross. (2014). Subculture: the basics. Abingdon, OX og New York, NY: Routledge.

Hebdige, Dick. (1979). Subculture: The Meaning of Style. London og New York: Methuen.

Magnús Gylfi. (1981, 26. apríl). „„Málið er ekki hvað maður getur, heldur hvað maður gerir“ – Purrkur Pillnik í viðtali við Tímann“. Tíminn, 22.

Myndir:

Mynd 1. er fengin af opinni facebook síðu Ghostigital:  https://www.facebook.com/ghostigital/

Mynd 2.: FRI. (1982, 22. ágúst). „Purrkur Pillnikk hættir“. Tíminn, 20.


[1] Sjá Bordieu

Senda athugasemd

Netfangið þitt mun ekki verða sýnilegt á síðunni.

*

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>