Bláklædda konan

Kreddur

Það hefur verið nóg í boði fyrir fróðleiksfúsa þjóðfræðinga undanfarið.
Fimmtudaginn fyrir tveimur vikum buðu Félag Þjóðfræðinga á Íslandi og Þjóðbrók upp á leiðsögn um sýninguna Bláklædda konan sem sýnd er á Þjóðminjasafni Íslands um þessar mundir. Það var þjóðfræðingurinn Freyja Hlíðkvist sem sagði frá sýningunni og tilurð hennar á sinn skemmtilega máta. Freyja er sérfræðingur í munasafni Þjóðminjasafnsins og ein af þeim sem komu að sýningunni og var bæði skemmtilegt og fróðlegt að heyra hvernig sýning þróaðist og breyttist eftir því sem fleira kom í ljós um jarðneskar leifar þessarar konu.
Út frá örfáum og hrörlegum beinum, einni tönn og nokkrum öðrum munum var hægt að komast að því frá hvaða landi hún kom, hversu gömul hún var þegar hún lést, hvernig megin uppistaðan í fæði hennar breyttist á einum tímapunkti og svo mætti áfram telja. Þetta var mjög skemmtileg sýning og leiðsögn og mælum við með að fólk drífi sig að sjá hana því hún mun ekki vera þar til eilífðarnóns.

Viku seinna stóð Félag þjóðfræðinga fyrir fyrirlestri bandaríska þjóðfræðingsins Tok Thopmson sem fór fram í Safnahúsinu. Thompson, sem er gestakennari við þjóðfræðideild Háskóla Íslands þessa önn, hélt fyrirlesturinn „Don‘t feed the Trolls“ og fræddi viðstadda um tröll á internetinu en tröllin hafa gengið í endurnýjun lífdaga á veraldarvefnum. Fyrirlesturinn var skemmtilegur og mikilvægt fyrir þjóðfræðinga vorra daga að vera meðvitaða um allt það þjóðfræðiefni sem finna má á netinu.
Síðastliðinn þriðjudag var Terry Gunnell með fyrirlestur á vegum Þjóðminjasafns Ísland. Fyrirlesturinn bar yfirskriftina „Hvert fór bláklædda konan eftir dauða sinn? Hugleiðingar um viðhorf Íslendinga til dauðans fyrir kristnitöku.“ Það var sérstaklega skemmtilegt að hlusta á þennan fyrirlestur eftir að hafa fengið leiðsögn um sýninguna hjá Freyju viku fyrr. Terry fjallaði almennt um greftrunarathafnir í heiðnum sið og benti á að þær leifar sem við finnum svo löngu seinna sýni okkur aðeins lok athafnarinnar en ekki hvernig athöfnin fór fram eða hvert fólk trúði því að ástvinir þeirra færu.
Loks var Þjóðarspegillinn haldinn síðastliðinn föstudag og var hann fjölbreyttur og áhugaverður að vanda. Margir þjóðfræðingar stigu þar á stokk, bæði með fyrirlestra og veggspjaldakynningar.