reynard

Ævintýrin sem vilja oft gleymast

Bragðarefir í íslenskum ævintýrum
Andri Guðmundsson
BA nemi í þjóðfræði

Lokaverkefni í háskóla getur verið krefjandi viðfangsefni. Verkefnið sem ég kaus að skrifa um í bakkalárritgerð í þjóðfræði við Háskóla Íslands fjallar um munnmælaævintýri en þau hafa alltaf heillað mig á töfrandi hátt. Munnmælaævintýri eru ævintýri sem eiga sér ekki einn höfund heldur hafa þau geymst í munnlegri hefð og lifað áfram mann fram af manni í gegnum tíðina. En að skrifa um ævintýri er víst of vítt viðfangsefni í ritgerð þannig ég ákvað að skrifa um flokk ævintýra sem er í sérstöku uppáhaldi hjá mér, en það eru ævintýri um bragðarefi (e. tricksters). Þegar ég sagði fólki að ég væri búinn að ákveða hvað ég vildi skrifa um rak það jafnan upp stór augu og hélt ég ætlaði að skrifa um ís í íslenskum ævintýrum. Að mínu viti hefur ís aldrei verið viðfangsefni í íslenskum ævintýrum og hvað þá erlendum en slíkt þyrfti að rannsaka betur. Bragðarefir í íslenskum ævintýrum fannst mér vera krefjandi og áhugavert viðfangsefni í lokaverkefni og komst ég að ýmsum upplýsingum um íslenska ævintýrahefð eftir verkið. Rannsóknin var takmörkuð við þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar en það fannst mér vera tilvalið vegna þess að það var fyrsta heildstæða íslenska þjóðsagnasafnið. Þá notaði ég sex binda útgáfuna frá árinu 1954–60.

Við gerð ritgerðarinnar lenti ég þó í einu stóru vandamáli. Vandamálið var að ég fann ekki neinar fræðilegar heimildir um bragðarefi í ævintýrum en það var þó nóg til af þeim um bragðarefinn í goðsögnum. Bragðarefurinn hefur alltaf verið talin mjög goðsagnakennd vera en mikið af sögnum hafa varðveist um þá t.a.m. Loka í norrænum goðsögum, Hermes og Prómeþeif í grískum goðsögum og fjöldann allan í goðsögnum frá Norður- og Suður-Ameríku. Þá ákvað ég að nota heimildir sem höfðu verið skrifaðar um þessa goðsagnakenndu veru og færa þær yfir á bragðarefinn í ævintýrum en það virkaði vel vegna þess að í grunninn er þetta sama týpan.

Heimildirnar um bragðarefinn sem ég fann voru flestar frá fræðimönnum með bakgrunn úr þjóð- eða mannfræði. Stith Thompson var bandarískur þjóðfræðingur sem taldi að bragðarefurinn skiptist í þrjár mismunandi týpur. Í fyrsta lagi getur hann verið hetja sem bætir samfélagið, í öðru lagi getur hann verið gáfaður og blekkt aðra fyrir eigin hagsmuni og í þriðja lagi getur hann verið hugsanalaus vera sem lætur stjórnast af öðrum sem skipa honum fyrir. Michael P. Carroll hefur líkt og Thompson bakgrunn úr þjóðfræði og túlkun hans á bragðarefnum er sú að hann sé einstaklingur sem er tilbúinn að ganga út á ystu nöf til þess að uppfylla eigin langanir sem snúast jafnan um að seðja óendanlegt hungur eða óstjórnanlega löngun í kynlíf.Carroll, Lévi-Strauss, Freud, and the trickster, 304–307. Einnig telur Carroll að eitt af höfuðeinkennum bragðarefsins sé einsemd en það er svipuð niðurstaða og Ellen B. Basso, sem á sér bakgrunn úr mannfræði, hefur komist að í sínum rannsóknum. Basso telur að bragðarefurinn sé sá sem passar ekki inn í ríkjandi félagsleg gildi samfélagsins og er þar af leiðandi utangarðsmaður. Hún telur einnig að bragðarefurinn geri sitt ýtrasta til að ögra gildum samfélagsins með endalausri tilraunastarfsemi sinni.Basso, The Tricksterʼs Scattered Self, 293–94.

Í samtímanum telur flest fólk að ævintýri höfði einungis til barna en fyrr á tímum hafa ævintýrin ekki síður höfðað til fullorðinna.Zipes, Fairy Tales and the Art of Subversion, 48. Með þessu má skýra afhverju sum ævintýri enda á hrottalegum limlestingum sem fullorðnir í samtímanum kjósa líklega að ritskoða áður en ævintýrin eru lesin fyrir börnin fyrir háttinn. Fræðimenn hafa þó komið sér saman um að þau ævintýri sem hafa ratað inn í söfn þjóðsagnasafnara skiptast í þrjá markhópa en þeir eru fyrir börn, fyrir unglinga og loks fyrir fullorðið fólk.Jones, The Fairy Tale, 19–20. Ævintýrið sjálft hefur þó alltaf boðskap að bera, sama hvaða aldurshóp þau höfða til.

Ævintýri hafa verið rannsökuð þvers og kruss með öllum hugsanlegum rannsóknaraðferðum af fræðimönnum. Það er svo sem ekkert athugunarvert við það nema að ævintýrin sem eru yfirleitt rannsökuð eru ævintýrin sem höfða til barna þar sem söguhetjan fær umbun fyrir að haga sér á „réttan hátt“. Í slíkum ævintýrum er söguhetjunni hampað fyrir að vera hreinskilin, þolinmóð, guðhrædd, dugleg og öguð en refsað fyrir að vera forvitin og óþekk.Tatar, Off with their Heads, 25. Ævintýri um bragðarefi höfða hins vegar meira til unglinga og fjalla um söguhetjur sem gera einmitt þveröfuga hluti við þá sem söguhetjur barnaævintýranna gera. Bragðarefirnir eru óþolinmóðir og forvitnir og þeir hagnast á því að finna út sínar eigin leiðir til þess að takast á við tilveruna.

Í íslenskri ævintýrahefð kemur bragðarefurinn víða við sögu. Bragðarefurinn er ekki alltaf karlkyns en þó er birtingarmynd hans í safni Jóns Árnasonar oftast í ímynd karlmanns. Bragðarefurinn í safni Jóns Árnasonar er oftast snjall einstaklingur af stétt almúgans sem snýr á valdhafa með því að beita klækibrögðum til þess að komast yfir eignir þeirra og finna sér maka. Samkvæmt minni rannsókn fjallar rúmlega fjórðungur allra ævintýra í safni Jóns Árnasonar um bragðarefi sem bendir til þess að þau hafi verið mjög vinsæl þegar þeim var fyrst safnað á árunum 1845–1861. Í safni Jóns flokkar hann flest ævintýrin um bragðarefina í undirflokkinn E. Kímileg ævintýri líklega vegna þess að í flestum tilvikum eru þessi ævintýri bráðfyndin.

Munnmælaævintýri lifa ekki með manninum án þess að endurspegla það samfélag sem þau þrífast í. Í lokakafla ritgerðarinnar tengi ég ævintýrin við íslenskt samfélag á miðri 19. öld þegar þeim er fyrst safnað. Niðurstöðurnar eru þær að þessi ævintýri hafa þroskað Íslendinga til að takast á við lífið á sinn eigin máta líkt og bragðarefurinn gerir þegar hann snýr á yfirvaldið. Ólíkt barnaævintýrunum sem hampa þeim boðskap að vera óvirkur og hlýðinn er bragðarefurinn sinnar eigin gæfu smiður og snýr á valhafa sína sér í hag. Þá tel ég að ævintýrin um bragðarefina endurspegli þrá Íslendinga um að vera sjálfstæðir og brjótast undan valdhöfum. Einmitt á þessum tíma er verið að kynda undir þjóðernishyggju Íslendinga meðal nokkurra Hafnarstúdenta sem leiðir síðan til sjálfstæðisbaráttunnar.

 

Fyrir áhugasama lesendur vil ég benda á ritgerðina mína þar sem ég fer mun dýpra í efnið, en markmiðið með þessari grein var að kynna hana í stuttu máli. Slóðina á hana má finna hér.

Heimildir

 Basso, Ellen B. The Tricksterʼs Scattered Self. Í Anthropological Linguistics, 30, 1988, bls. 292–318.

Carroll, Michael P. Lévi-Strauss, Freud, and the trickster: a new perspective upon an old problem. Í American Ethnologist, 8, 1981, bls. 301–314.

Jones, Steven S. The Fairy Tale: The Magic Mirror of Imagination. Ronald Gottesman (ritstj.). New York: Twayne Publishers, 1995.

Tatar, Maria. Off with their Heads!: Fairy Tales and the Culture of Childhood. Princeton: Princeton University Press, 1992.

Thompson, Stith. Motif-Index of Folk-Literature. I. bindi. Bloomington & London: Indiana University Press, 1975.

Zipes, Jack. Fairy Tales and the Art of Subversion: The Classical Genre for Children and the Process of Civilization. New York: Routledge, 1983.

Titilmynd eftir Wilhelm von Kaulbach, 1846.

Senda athugasemd

Netfangið þitt mun ekki verða sýnilegt á síðunni.

*

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>