kannabis

Að drepast eða drepast úr hlátri

Hlutverk húmors í bataferli fíkla
Sóley Björk Guðmundsdóttir
Þjóðfræðingur og nemandi í hagnýtri menningarmiðlun.

Hlátur er lífsnauðsynlegt fyrirbæri og aldrei jafn mikilvægur og þegar að lífið er erfitt. Flestir kannast líklega við hvernig smávægilegustu hlutir vekja hlátur þegar aðstæður eru spennuþrungnar og erfiðar. Það eru þó sjálfsagt ekki margir sem leiða hugann að því hversu mikilvægur þessi hlátur, sem vaknar svo auðveldlega, er til að takast á við erfiðleika. Með honum losnar spenna, við slökum á og lífið verður aðeins auðveldara. Þetta á sérstaklega við þegar brandarinn beinist að erfiðleikunum sjálfum, eins og kreppubrandararnir sem voru sagðir um og eftir hrun. Íslenska bankakerfið hrundi eins og spilaborg, þjóðin var á hausnum og verð á flestum vörum hækkaði upp úr öllu valdi. Það var í sjálfu sér alls ekkert fyndið við þessar aðstæður, en samt sem áður gengu skopmyndir og kreppubrandarar eins og eldur í sinu um netheima. Þetta var vissulega erfiður tími og mikil spenna byggðist upp, og um hana losaði fólk svo með því að gera grín að aðstæðum. Á sama hátt og íslenska þjóðin tókst á við hrunið takast óvirkir fíklar á við það sem þeir gerðu af sér í neyslu og neysluna allmennt, eins og viðmælandi BA ritgerðar sem þessi grein er byggð á segir:

„Að gera grín að neyslunni er hluti af léttinum. Þegar maður er kominn yfir vissan hjalla og fíknin er ekki að herja á mann hverja vakandi sekúndu er manni létt og fer að hlæja að öllu bullinu. Það segja allir fíklar sem ég hef hitt einhverja grínsögu af sjálfum sér á þeim tímapunkti. Í fljótu bragði man ég ekki eftir að hafa hlegið jafn mikið eins og í smókpásum á Vogi. Þá eru flestallir úti og segja einhverjar svona rugl sögur og allir grenja úr hlátri,“

Hlátrasköll eru líklega ekki það sem búist er við að heyra á AA fundi eða í meðferð á Vogi en húmorinn er mikilvægur þáttur í ferlinu að takast á við eiturlyfjafíkn. Margir óvirkir fíklar hafa brotið af sér, ekki aðeins í garð samfélagsins heldur einnig í garð sinna nánustu, og það er mjög erfitt að horfast í augu við slíkt án þess að bugast. Þar kemur húmorinn inn. Með því að gera grín að neyslunni, eins og brandararnir hér að neðan sýna, verður auðveldara að takast á við hana. Með því að hlægja að heimskupörunum í stað þess að lifa í eftirsjá er stigið skref til baka og erfiðleikarnir verða fjarlægari, sem gerir fíklinum mun auðveldara að takast á við þá.

Grín af þessu tagi er þó alls ekki allra. Það nota það vissulega allir, en utanfrá getur það virst mjög neikvætt. Viðmælandinn telur til dæmis að “venjulegt” fólk myndi líklega fá áfall ef það væri viðstatt smókpásu á meðferðarstofnun, þar sem umræðuefnin væru líklega á borð við of stóra skammta, eiturlyf, dauða, og fáránlegar aðstæður sem fíklarnir hafa komið sér í. Og allir hlæja bara að þessu! En utanfrá hefur grínið um bankahrun hjá heilli þjóð líklega komið svipað fyrir sjónir.

Grínið hjá óvirkum fíklum er þó mun grófara en hjá íslensku þjóðinni í kjölfar bankahrunsins, enda geta afleiðingar eiturlyfjafíknar verið mun alvarlegri fyrir einstaklinginn en afleiðingar efnahagskreppu. Brandararnir fjalla allir um atvik úr eiturlyfjaneyslunni þar sem oftar en ekki var dansað við dauðann, eða þá að skynjun viðkomandi á raunheiminum var komin svo langt frá því sem eðlilegt getur talist að eftir á að hyggja verður það hlægilegt. Umfjöllunarefni brandaranna er mjög alvarleg og í raun lítið fyndið við þau og oftar en ekki hefði getað farið mun verr. Það er meðal annars ástæðan fyrir því að auðvelt er að hlæja að þessu, og með því auðveldara að takast á við þetta allt saman.

Brandarinn þarf þó ekki að snúast að eigin neyslu til að gagnast fíklinum. Um leið og hann hlær að brandara annars fíkils finnur hann tengingu við eigin reynslu. Hann er þá ekki aðeins að hlæja að sögunni heldur er hann á vissan hátt líka að hlægja að sér og sinni neyslu, og með því gera hana fjarlægari svo auðveldara sé að takast á við hana. Þetta er eitt af því sem gerir húmorinn innan þessa hóps svo mikilvægan. Hann léttir ekki bara andrúmsloftið heldur gerir hann aðstæður og reynslu allra þeirra sem taka þátt í honum fjarlægari sem hjálpar þeim svo að takast á við þær

Að hlæja að fíkninni á þennan hátt er þó ekki á færi margra sem hafa ekki reynslu í neyslu. Það verður að vera fyrir ákveðinn skilningur á þessum heimi til þess að hægt sé að sjá húmorinn í sögunum, annars virðast þær ekkert annað en sorgarsögur sem óþægilegt er að hlusta á.

Ástæðan fyrir því að óvirkir fíklar geta haft svona opin huga gagnvart hvor öðrum og bröndurunum sem þeir segja, er í fyrsta lagi af því að þeir hafa sameiginlega reynslu sem gefur þeim skilning á reynslu annarra í hópnum. Önnur ástæða eru AA samtökin, en AA fundir eru helsti vettvangur húmors af þessu tagi og áhersla þeirra á jöfnuð ýtir mikið undir notkun á grófum húmor. Það er sama hvaða þjóðfélagsstétt viðkomandi tilheyrir, innan hópsins eru allir að kljást við sömu vandamál og sitja því við sama borð. Þetta undirbýr að mörgu leiti jarðveginn fyrir mjög grófan húmor. Með jafnaðarstefnunni er lögð áhersla á að meðlimir dæmi ekki hvorn annan, heldur rétti alltaf fram hjálparhönd. Þetta gerir það að verkum að ótrúlegustu atvikum er sýndur skilningur og sögumanninum tekið vel sama hversu alvarlega viðkomandi hefur brotið á náunganum. Þá er honum hjálpað að takast á við fíknina og allt sem hann hefur gert í neyslu með því að finna húmorinn og geta hlegið að öllu saman, og með því öðlast nægilega fjarlægð til að geta tekist á við það.

Eins mikilvægur og húmorinn er skiptir öllu máli hvernig farið er með hann, því hann getur verið vafasamt verkfæri:

„Ég held að hann [húmorinn] eigi stóran þátt í ferlinu að hætta í neyslu. Með því að gera grín að sjálfum sér, þá sér maður betur hvað þetta er í raun heimskulegt athæfi og gerir sér betur grein fyrir ástæðum þess að maður hætti. Hins vegar er það tvíeggja sverð, því ef húmorinn fer út í „það var svo gaman þegar ég var alveg ruglaður?“

Húmorinn verðu þannig alltaf að vera sagður á kostnað neyslunnar til þess að hann virki til þess að hjálpa fólki að takast á við hana. Ef að brandarinn snýst upp í að sýna neysluna í jákvæðu ljósi hefur hann þveröfug áhrif. Þá skiptir máli að hópurinn sé meðvitaður um áhrif húmorsins og getur þá reynt að hafa áhrif á stefnu hans, fari hann að snúast í ranga átt.

Húmorinn og fundirnir haldast að mörgu leiti í hendur. Fundirnir opna fyrir notkun á mjög grófum húmor, sem á móti hjálpar fíklunum að öðlast fjarlægð til að takast á við fíknina, sem er meðal annars markmið fundanna. Hópurinn sem mætir á fundina hjálpar svo til með að beina húmornum í rétta átt til þess að hann snúist alltaf um að fjarlægjast neysluna í stað þess að færast nær henni.

 Brandarar

Einhvertíman þá bjó ég heima hjá eldgömlum dópdíler af því ég var heimilislaus. Kærastinn minn sem var eldgamall kall var farinn inn í fangelsi á litla hrauni og fékk þennan vin sinn til að skjóta skjólshúsi fyrir mig á meðan. Tvisvar til þrisvar í viku kom löggan og gerði rassíu og við þurftum að fara upp á löggustöð, þú veist eitthvað svona ógeðslega leiðinlegt, nema ég var orðin svo pirruð á löggunni og mér fannst bara að ég hefði bara fullt vald til þess að taka á þeim ef mér sýndist. Þannig að einu sinni kom löggan og ætlaði að fara að ryðjast inn, þá tók ég einn varðstjórann taki og ætlaði að handleggsbrjóta hann. Þeir horfðu bara allir á mig og hlógu.

Einu sinni vaknaði vinur minn á ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn eftir að hafa dáið kvöldið áður eftir að hafa tekið of stóran skammt… í þriðja skiptið. Þörfin í næsta skammt var mjög mikil, enda læknarnir búnir að skola allt dóp úr líkamanum. Hann rak þá augun í flatskjá sem var boltaður við vegginn í herberginu, og reif hann niður. Því næst rölti hann út af spítalanum í sjúkrasloppnum með flatskjáinn undir hendinni og fór beinustu leið og seldi hann fyrir næsta skammti.

Einu sinni reyndi ég að drepa mig í dramakasti eftir að ég reifst við meðleigjanda minn. Ég ætlaði sko að sýna honum að svona kæmi enginn fram við mig og hann skyldi sko fá að lifa með þeirri vitneskju að hafa drepið mig. Ég held að rifrildið hafi snúist um uppvask. Kvöldið endaði uppi á slysó þar sem dælt var upp úr mér og svo varð ég voða hissa daginn eftir þegar ég fékk ekki að fara út á svalir á sjúkrastofunni.

Hefurðu heyrt söguna um manninn sem vildi ekki vera í meðferð, hann leit ekki á sjálfan sig sem alkahólista. Hann sagðist vera að vinna í Vínbúðinni, og vera sendur í meðferð til þess að kynna sér viðskiptavinina.

Anfetamín fíkill týndi kettinum sínum og var sannfærð um að hann væri fastur í hitaröri inn í kjallarageymslu nágrannans. Hún braut niður hurðina með miklum látum og byrjaði að berja á rörið, þegar að það rann upp fyrir henni ljós. Kötturinn hefði aldrei getað komist inn í geymsluna, hvað þá inn í rörið!

Senda athugasemd

Netfangið þitt mun ekki verða sýnilegt á síðunni.

*

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>